7.12.2017 | 01:50
Sagan um snákaveiðarann í Ástralíu
Sagan af snáknum
Alan Hallgath var að sjá um barnabarnið meðan foreldrarnir fóru til Hawaii. Foreldrarnir búa í lokaðri götu, húsin nokkuð nálægt hvert öðru, en hér í Ástralíu eru flestir garðar nokkuð vel afgirtir. Í þessari götu eru nágrannarnir með partí af og til, allir saman í götunni. Ja, nema þessir tveir sem búa fyrir neðan þar sem Alan er að líta eftir dótturdóttur sinni. Þeir tveir eru ekki mjög mikið fyrir félagsskap hinna í götunni og reyna alltaf að kvarta yfir einhverju. Þeir eru núna búnir að setja húsið á sölu, ástæða til að fagna í götunni.
Einn daginn er bankað á útidyrnar, Alan fór til dyra. Úti stendur nágranni sem býr í húsinu fyrir ofan þau. Hann segir Alan að stór snákur hafi rétt í þessu skriðið yfir í garðinn hjá Alan og þeim. Einmitt þá sjá þeir að snákurinn skríður yfir til nágrannanna í húsinu fyrir neðan. Alan fór yfir og bankaði hjá nágrönnunum fyrir neðan, láta þá vita af snáknum. Annar var heima, hinn, í vinnunni. Sá sem kom til dyra sagði að sér kæmi þetta ekki við! Skellti hurðinni á Alan, sem kallaði þá til hans að snákurinn væri líklegur til að skríða ofan í strompinn hjá þeim. Þá opnaði nágranninn, skjálfandi, ó,ó,ó. Alan sagðist hafa hringt á snákaveiðara, kosti 100 dollara.
Ekki leið á löngu þar til ung myndarleg kona, flott máluð, í hælaháum skóm, langar lakkaðar neglur, kom og spurði hvort einhver þarna væri Hr. Hallgath. Alan játti því og sagðist eiga von á snákaveiðara. "Það er ég" sagði unga konan, sparkaði af sér skónum, greip pokann sinn og var ekki lengi að handsama snákinn með berum höndum, stakk honum í pokann, fékk sína 100 dollara hjá Alan og fór.
Alan fór þá aftur inn í garð dóttur sinnar. Stuttu síðar er enn bankað. Alan til dyra og úti stendur gæinn úr húsinu fyrir neðan. Hann sagðist hafa hringt til unnusta síns, sem er lögfræðingur, unnustinn sagði honum að greiða snákaveiðina! Svo fékk hann Alan 100 dollara, en Alan gaf honum 25 til baka, sagðist glaður taka þátt í kostnaði þessa skemmtilega snákaveiðara.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.10.2014 | 11:26
Meiri Ástralía 2014
Þann 10. október fórum við svo í ferð um Fraser Island, regnskóg, að Bláa Vatninu og niður á strönd. Að ganga um í tæru vatni í sól og hita er yndislegt. Regnskógurinn heillandi! Dýralífið, plöntulífið. Þarna er kyrkingatréð, sem umvefur annað tré. Það vex utan yfir hýsil sinn og kyrkir, en deyr svo að lokum sjáflt. Dagsferð um þessa eyju er ógleymanleg. Að morgni þurfum við svo að yfirgefa þessa Paradís, en ekki slæmt að fara yfir í aðra Paradís, Noosa. Næstu þrjár nætur.
Á leið til Noosa komum við á stærsta markað sem haldinn er í Drottningarfylkinu (Queensland). Ótrúlegir hlutir til sölu, bæði nýtt og notað. Þá komum við til Noosa, þessa litla smábæjar á bökkum fljótsins. Daginn eftir leigðum við okkur bát, sigldum upp Noosa River með stæl og allir fengu að vera skipstjóri í stutta stund. Um borð í bátnum var grill svo ekki var amalegt að henda út akkeri, grilla í sólinni og fá sér smá rautt í glas með. Dagur sem seint gleymist.
Svo kemur frídagur fyrir hópinn, en þar sem þetta er einstaklega samhentur hópur ákváðum við að fara í göngu inn í þjóðgarðinn í von um að sjá koala í sínu rétta umhverfi. Við sáum koala fyrr í túrnum, en það var í dýragarði. Þarna var tré, sem blæddi úr. Eitthvað hafði skorist inn í börk trésins og rauður vökvi seyddi út - tréð að lækna sig sjálft. Höfrungur synti í rólegheitum rétt við land. Einhver af hópnum hélt áfram til að komast á nektarströndina, en engin nekt sást.
Enn er komið að því að pakka saman, núna til að komast yfir til Brisbane aftur, aðeins fjórir dagar eftir af ferðinni. Í Brisbane var mikið um að vera. G20 fundurinn er í aðsigi, haldinn í borginni í nóvember. Ég er fegin að við verðum ekki á staðnum, öryggiseftirlitið er þegar farið að segja til sín.
Við fórum einn daginn í Lamington þjóðgarðinn, gengum í toppi trjánna á hengibrú, fórum inn í tré sem er holt að innan og svo er það vínsmökkun á búgarði O'Reilley fjölskyldunnar. Fimm tegundir af víni til smökkunar fyrir þrjá dollara (AUD), en ef við kaupum flösku borgarðu ekki fyrir smökkunina. Portvínið var vinsælast. Ekki sáum við breiðnefinn, sem býr í læknum við búgarð O´Reilley.
Kvöldin eru einstaklega falleg. Um fljótið fer bátur sem hægt er að fara með yfir á suðurbakka fljótsins eða upp eftir ánni. Við fórum með bátnum yfir á veitingastaðina þar, skemmtileg sigling í logni og hlýju.
Hop on/hop off var næst á dagskrá okkar. Mest allur dagurinn fór í útsýnisferð um borgina og eftir rútuferðina fórum við í siglingu um fljótið sem rennur í gegnum þessa fallegu borg.
Og svo kom að lokum þessarar yndislegu ferðar. Verst hvað dagarnir hafa liðið hratt, rúmlega tvær vikur hafa flogið hjá á augnabliki. Við flugum með Malaysian Air yfir til Kuala Lumpur, rétt um átta tíma flug. Í Kuala Lumpur var 3-4 tíma bið eftir næsta flugi, sem tók um 14 tíma. Full vél, góð þjónusta, nóg af kvikmyndum að velja úr, en best er að sofa til að reyna að ná líkamsklukkunni í rétt horf. Lentum í London seinni part dags og bið aðeins um 3 tímar - þriggja tíma flug til Íslands á réttum tíma svo við lentum í rigningu rétt fyrir miðnætti þ. 18. október. Frábærri ferð lokið, frábærir ferðafélagar.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2014 | 05:51
Ástralía 2014
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.4.2014 | 15:22
Tindur hinn týndi
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2013 | 15:19
Sigling
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2013 | 12:42
New York!
Dagurinn byrjaði með morgunmat, er það nokkuð nýtt? Óhemju stórir skammtar af pönnukökum, ommilettum og ýmsu fleiru. Við hjónin sjáum um blindu hjónin Irene og Tony alla morgna í morgunmat. Þægilegt þar sem þau eru í herbergi við hliðina á okkur. Eftir morgunmat er skipt um 'leikfélaga'. Ég fékk að leiða Ian í dag og Kristján leiddi Jane.
Fyrst var farið í rútuferð um Manhattan, stoppað í Central Park, við styttu af Lísu í Undralandi. Auðvitað stoppað við byggingu þar sem John Lennon og Yoko Ono bjuggu. Á einum stað fundum við listaverk sem var eins og tré-fólk að dansa í kringum tré. Mjög sérstakt. Svo áfram í ferjuna yfir til Staten Island. Allt gekk vel og næst tókum við lest yfir til Empire State. Við fórum í hraðlest, sem ÓÓÓ, stoppaði ekki fyrr en á 42. stræti. Við ætluðum út á 33. stræti. Vingjarnlegur maður í lestinni benti okkur á að fara bara eina stöð til baka og enginn skaði skeður. Ian treysti ekki vel á ratvísi mína eftir þetta, en mér tókst að sannfæra hann með því að rata yfir í Empire State bygginguna, þar upp í topp. Ian bað mig um að taka myndir fyrir sig - hann er algjörlega blindur - svo ég var stöðugt með hans vél og mína á lofti. Gott að hafa blinda við arminn, við fengum sér meðferð við inngönguna í Empire State, flýtimeðferð.
Einn léttur á barnum áður en við komum á hótelið. Hittumst kl. 6:30 á 19. hæðinni! Smá uppákoma! Við hjónin höfðum keypt flöskur af Birki og Björk til að gefa í Þakkargjörðarveisluna, ferðin sem aldrei var farin, svo þessar flöskur opnuðum við á ganginum og gáfum smakk þeim sem eru í okkar hópi.
Góður dagur að kvöldi kominn, kominn tími fyrir svefn. Spennandi dagur frámundan: sigling . . afmæli . . . Úlala.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.11.2013 | 13:15
New York og sigling til Bahamaeyjar
Síðasta sumar var ég leiðsögumaður með tvo hópa af blindum, þ.e. með hverjum blindum er alltaf einn sjáandi og þeir blindu eru kallaðir VIP-fólkið (=visually impaired). Þessir hópar eru yfirleitt ekki fleiri en 25 í hvert sinn. Hvert sumar undanfarin 8 ár hafa komið 1-2 hópar á ári til Íslands svo ég er farin að þekkja eiganda ferðaskrifstofunnar mjög vel þar sem hann kemur alltaf með. Amar heitir hann og hefur verið blindur síðan á unglingsárum þegar hann sprengdi hvellhettu í höndunum á sér og missti sjónina. Hann sér þó mun dags og nætur. Amar hefur alla tíða haft mjög mikla ánægju af að ferðast og fékk þá hugmynd að blindir gætu haft meiri ánægju af ferðum sínum um heiminn ef sjáandi útskýrði landslag og væri til aðstoðar á ferðalögunum. Sjáendur borga yfirleitt allt að helmingi minna fyrir ferðirnar með þessari ferðaskrifstofu, þeir eru jú í eins konar vinnu.
Í sumar með fyrri hópnum, sem kom, var góður andi meðal ferðafélaganna - eins og reyndar í öllum ferðunum. Ég og minn betri helmingur höfum alltaf haft ánægju af að fá þessa hópa og tekið þátt í að leiðbeina þeim blindu, ef á þurfti að halda. Þar sem venjulega eru langtum færri karlmenn í hópunum hefur minn betri helmingur iðulega farið með nokkra blinda í karlaklefa Bláa Lónsins þar sem svo fáir sjáendur af karlkyni hafa verið með. Ég sem leiðsögumaður tel ekki eftir mér að leiða blindan upp að Sólheimajökli eða bara hvert sem ég fer með mína hópa. Eftir sjö ferðir til Íslands með sína hópa hefur Amar 'séð' mig og minn betri helming vinna með hópana svo nú í sumar spurði hann hvort við tvö færum ekki stundum í frí út fyrir landsteinana. Jú, við höfum gaman af því - svaraði ég grunlaus. Þá spurði Amar hvort við Kristján værum ekki tilbúin til að koma sem sjáendur í siglingu um Karíbahafið í lok nóvember, byrjun desember. Það gæti verið gaman, svaraði ég af hógværð minni. Þar með bauð Amar mér og mínum að koma með í siglingu frá New York, hann vantaði tvo sjáendur í þessa ferð en aðeins einn hængur á: við verðum að kaupa sjálf flugið til New York, allt annað er í boði Amars. Þetta var handsalað í rútunni á leið til Reykjavíkur eftir vel heppnaða suðurstrandarferð. Ég var mest hrædd um að Amar sæi sig um hönd. En, ekki aldeilis! Hann sendi okkur allar upplýsingar svo við hjónin drifum í að endurnýja vegabréfin okkar, kaupa okkur flug til NY og ákváðum að dvelja 3 nætur aukalega í borginni, áður en hópurinn kæmi. Amar sá um að panta hótelið í NY og allt frágengið.
Stuttu fyrir brottför fengum við svo nöfn allra í hópnum og þá kom í ljós að meðal ferðafélaga okkar eru einhverjir, sem hafa verið í ferðum með okkur hér á Íslandi. Í hópnum núna eru 12 blindir (5 kk og 7 kvk) og 14 sjáendur (5 kk og 9 kvk). Á hverjum morgni er stuttur fundur með hópnum og þá er ákveðið hver leiðir hvern þann daginn. Þannig kynnast allir innan hópsins nokkuð vel þar sem'parað' er saman daglega. Þar sem fleiri sjáendur eru í hópunum fær sjáandi yfirleitt einn dag frí, en þó þannig að sá sjáandi verður til taks ef eitthvað kemur uppá.
Og nú er von á hópnum á morgun. Við hjónin höfum verið að rölta um borgina í tvo daga, fara í búðir og líta á bari bara svona til að undirbúa komu hópsins. Í gær fórum við inn á mjög skemmtilegan bar, Heartland Brewery. Ekki alveg snuðrulaust að komast inn, minn betri helmingur varð nærri viðskila við töskuna í hringhurðinni, taskan fylgdi ekki með í inngöngu eigandans.
Fundum góðan veitingastað um kvöldið, en æ, munum það næst að yfirleitt eru skammtarnir svo stórir að þeir henta tveimur eða jafnvel fleirum.
Í dag var svo Þakkargjörðadagurinn. Skrúðganga á götum borgarinnar í boði Macy's verslunarinnar. Löggur á hverju götuhorni og næstum hverju götuhorni lokað fyrir umferð bíla og í mörgum tilfellum gangandi vegfarendum líka bannað að fara um göturnar.
Einn túristinn minn frá því í sumar bauð okkur hjónum að koma í Þakkargjörðaveislu til sín. Mjög notalegt af henni. Við keyptum gjafir fyrir þessa stóru stund, en einfeldningarnir við áttuðum okkur ekki á því að hér þarf að kaupa sér far með lestinni nokkrum dögum fyrir brottför þennan Þakkargjörðadag ef þú vilt komast með lestinni. Allt uppselt! Þá er bara að skoða mannlífið á götunum i staðinn. Á Times Square var mikið um að vera og allar búðir komnar með 50-70% afslætti á vörum sínum svo þá er víst best að nýta daginn í jólagjafastúss. Kalkúnninn var góður á veitingastaðnum í kvöld.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 18:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.10.2013 | 13:50
Indverskar konur á ferð um landið
Geturðu verið leiðsögumaður með indverskar konur? Ferðaskrifstofueigandi spurði þessarar spurningar og auðvitað sagði ég já. Aldrei verið með Indverja áður og því spennandi að fá tækifæri til að kynnast þeim. Þær komu um miðnætti í byrjun mars. Ekki uppáhaldstími minn að fara á flugvöllinn að sækja fólk, en maður þarf víst að gera fleira en gott þykir. Eitt var þó jákvætt við komu svona seint, Norðurljósin svona líka glimrandi falleg á himninum! Þær komu til Íslands meðal annars til að upplifa Norðurljósin og að fá það tækifæri strax fyrsta kvöldið var bara gott hélt ég. Þessar sex indversku konur voru víst eitthvað þreyttar eftir langt flug og sýndu ekki mjög mikinn áhuga á Norðurljósunum þetta kvöldið.
Daginn eftir var kalt. Reyndar hafði ekki verið svona kalt allan veturinn. Snjór líka og mínar dömur aðeins í sari og ilskóm. Reyndar voru tvær í sokkum og með trefla. Gullhringurinn var því ekki eins og venjulegur Gullhringur þar sem rokið og frostið léku sér og hlógu að konum í sari. Engin þeirra fór út við Geysi. Við Gullfoss fór ein út, þurfti næstum að skríða á fjórum fótum til að komast yfir klakabrynjuna við fossinn. Ég hjálpaði henni yfir verstu kaflana, hinar sátu inni í bílnum í hlýjunni og spjölluðu saman eins og áður.
Mig grunar að þessar konur hafi ekki komið til Íslands til að njóta náttúrunnar heldur til að vera saman og skemmta sér. Þær höfðu takmarkaðan áhuga á sögu Íslands, enn minni áhuga á tröllasögum eða álfasögum.
Þessar konur áttu pantaðan kvöldmat öll kvöld vikunnar, sem þær dvöldu hér á landi, alltaf á indverskum veitingastöðum. Sem betur fór voru flestir staðirnir mjög nálægt hótelinu þeirra, en þar sem Kuldaboli hló enn og gustaði af honum meir en venjulega, þá fóru þær í leigubílum á veitingastaðina, líka þann sem er í fimm mínútna fjarlægð frá hótelinu. Eitt kvöldið sendu þær bara leigubíl eftir matnum í næsta húsi og buðu svo bílstjóranum að borða með sér ásamt fólkinu í lobbíinu. Allir kátir með það!
Svo kom snjóbylur daginn sem ég átti að fara með þær í Reykjavíkurrúnt. Ég hringdi á hótelið og bað um skilaboð til þeirra um að við yrðum að hafa rúntinn um Reykjavík daginn eftir vegna veðurs. Vildi forðast það að vera föst í snjóskafli á götum Reykjavíkur með þessar ekki mjög hlýlega klæddu konur.
Daginn eftir var fín færð, Reykjavíkurrúnturinn bara eins og á að vera og farið að rigna. Þær buðu mér með á veitingastaðinn um kvöldið og eftir mat var enn rigning. Þær spurðu hvort ég gæti ekki farið með þær í Norðurljósaskoðun. Ha? Þið eruð búnar að sjá Norðurljósin, ég var eitt spurningamerki. Já, en (svöruðu þær) þau ljós sem við sáum voru ekki eins og á póstkortunum, sem við höfum keypt!!!
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.10.2013 | 08:21
Regnbogasumarið 2013
Hér hefur aðeins rignt tvisvar þetta sumarið. Fyrst í 25 daga og svo í 50 daga. Maður huggar sig við að eftir 100 ár verður nóg neysluvatn fyrir komandi kynslóðir á Íslandi. Eins gott að hugsa á jákvæðum nótum í sólarlausu sumri, rigningu og roki dag eftir dag. Ég verð að viðurkenna að það er oft erfitt að fara með erlenda ferðamenn um landið og sjá ekki einu sinni fram fyrir bílinn, hvað þá fallegu fjöllin okkar. Eitt er þó ekki hægt að taka frá okkur þetta sumarið, regnbogarnir skreyttu himin og jörð oftar en áður.
Við Dettifoss gekk ég með einum af hópum mínum og sólin braust út úr skýjunum í nokkrar mínútur. Svo fór að rigna aftur. Einn af túristunum mínum hafði fyrr í þessari ferð fundið það út að bílstjórinn væri sennilega með takka í rútunni sem stýrði sól og regni, í hvert sinn sem hann drap á bílnum fór sólin að skína, jafnvel í gegnum skúraleiðingarnar. Eftir nokkra stund við fossinn fór að rigna. Ég kallaði á hópinn minn JÆJA eitt firsta orðið sem ég kenni mínu fólki og þá vita þau að ég vil þau komi sér til baka í rútuna. Og nú kallaði ég JÆJA, bílstjórinn búinn að ýta á sólar/rigningar takkann og tími kominn til að fara í rútuna. Oft nota ég töfra augað mitt, segi að ég breyti veðrinu með því að nota töfra brúna augans. Mér var einu sinni sagt að þeir sem eru með brún augu séu það vegna þess að þeir kunni að ljúga ég hlýt að geta logið svolítið þar sem mitt hægra er brúnt.
Enn hef ég verið afskaplega heppin með túrista, allir verið svo þægilegir og lausir við að kvarta. Hins vegar skil ég aðeins betur núna af hverju við getum ekki öll lifað í sátt og samlyndi í þessari veröld. Það sem einni þjóð finnst sérlega mikilvægt í þessu lífi finnst annarri þjóð ekkert mikilvægt. Sem dæmi tek ég að vera á tíma. Sumir hóparnir mínir hafa tekið sér langan tíma á hverjum stað sem stoppað er á meðan aðrir hópar þurfa aðeins 10-15 mínútur á hverjum stað og draga jafnvel gardínurnar fyrir í rútunni á milli staða, þegja líka. Aðrir dást endalaust að landslaginu, jafnvel í rigningu, og spyrja um allt milli himins og jarðar.
Blindu hóparnir mínir eru frábærir eða hafa verið það hingað til. Í þeim hópum er alltaf einn sjáandi með hverjum blindum, leiðir hinn blinda og útskýrir landslag og liti. Fyrri blindi hópurinn minn þetta sumarið var ótrúlega heppinn með veður, sól upp á hvern dag og hiti inn við Sólheimajökul fór í 22°C. Vegna veðurs fór ég auka rúnt í Heiðmörk, sýndi þeim hellana þar og ein blind kona fór ofan í einn hellinn, þann sem þú þarf að smeygja þér niður í og helst halda niðri í þér a
ndanum á meðan þú kemur þér niður. Svo leið og beið. Hún skemmti sér svo vel í hellinum að við áttum erfitt með að ná henni upp aftur.
Eftir þann túr var mér og mínum manni boðið að koma sem sjáendur með blindum hópi, sem er að fara í siglingu í desember. Ójá, hver neitar slíku happdrætti? Vonast til að blogga um þá ferð hér.
Seinni blindi hópurinn var ekki eins heppinn með veður. Rigning mest allan tímann en þó stytti upp af og til þannig að við höfðum þó fjallasýn. Að upplifa blindan snerta jökul hefði ég haldið að væri ekki svo sérstakt, en þar skjátlaðist mér illilega. Það er erfitt að slíta blinda frá jökultungunni þótt sandur, aska og ryk hylji ísinn. Þegar ég kallaði JÆJA þá sagði ein konan Æ, hér vil ég vera fram á kvöld. En þá fór að rigna eins og eftir pöntun eða var það kannski bílstjórinn að fikta í takkanum sem stýrir regni/sól?
Síðasti túrinn minn var aðeins öðruvísi. Ég var með ein hjón sem leigðu bílaleigubíl og mig sem bílstjóra í sjö daga umhverfis landið. Það rigndi einn dag! Að vísu var aðeins kalt, Kuldaboli að láta vita að hann sé í grennd. Sumarið búin að vera eftirminnilegt, af hverju lá því svona á að komast í burtu héðan?
Þar sem ég átti í erfiðleikum með að hlaða inn fleiri regnbogamyndum þá er auðvelt að líta á þetta blog http://www.travelblog.org/Bloggers/guggabraga/ til að sjá fleiri regnbogamyndir
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.3.2013 | 08:48
Eyjafjallajökull - afleiðing
Er enn verið að tala um Eyjafjallajökul og gosið? Ójá. Sumir koma til Íslands í dag til að sjá hvar þetta gos var.
En byrjum nú á byrjuninni. Ung kona býr í Montreal og ungur maður í London. Þau tala saman í síma vegna vinnu sinnar, þurfa oft að senda tölvupóst á milli og hafa unnið svona í nokkur ár. Í apríl 2010 fór hún í frí til Thailands og hann í frí til Kanada. Hún var komin til London á leið heim þegar gosið í Eyjafjallajökli hófst og var strandaglópur þar. Hann var strandaglópur í Kanada af sömu ástæðum. Þau höfðu samband vegna vinnunnar, úr varð að hann lánaði henni íbúðina sína í London á meðan ekki var flogið yfir til Kanada og hún lánaði honum sína íbúð i Montreal. En, hann komst í flug yfir til London fyrr en hún komst í flug til Kanad svo þau hittust. Þar með kviknaði neisti, sem varð að hjónabandi. Hún flutti til London og nú vinna þau saman. Þau hanna bókakápur, logo og sýningaskrár ásamt ýmsu fleiru og hafa nóg að gera. Eftir mjög mikla vinnu í febrúar ákváðu þau að taka sér smá frí. Hvernig væri nú að sjá þennan Eyjafjallajökul sem var upphafið að því að þau hittust? Góð hugmynd!
Þau höfðu samband og athuguðu hvort ég gæti farið með þau í tveggja daga ferð í Jökulsárlón. Svo vildu þau sjá Norðurljósin. Ekki alltaf hægt, en það er möguleiki þessa daga, sem þau völdu fyrir ferðina. Ég hitti þau svo á hótelinu að morgni sunnudags, sól, kalt og dálítið hvasst hér og þar. Sérstaklega undir Eyjafjöllunum og Lómagnúpi. Það var alls ekki svo hvasst á Jökulsárlóni og nokkrir selir syntu innan um jakana. Ég átti von á að Lónið væri frosið, en svo var ekki.
Við gistum í Freysnesi. Alltaf gott að koma þar. Góður kvöldmatur. Það var töluvert af gestum á hótelilnu, einn frá Bandaríkjunum með lítinn hóp sagði mér að hann væri að koma í fjórða sinn með fólk með sér. Hann kemur aðallega til að sjá Norðurljósin. Þau verða nú fín í kvöld, sagði ég. Já, svaraði hann, þau eru fín! Þau eru byrjuð! og klukkan var aðeins að verða níu. Ég fór að sjálfsögðu út til að sannreyna orð mannsins og þarna voru þessi yndislega fallegu Norðurljós. Verst að eiga ekki myndavél, sem nær þessu fyrirbæri vel. Ég sótti mitt fólk og benti þeim á dýrðina úti. Nú var draumur þeirra fullkomnaður, sáu Eyfjafjallajökul í allri sinni dýrð fyrr um daginn og núna Norðurljósin. Svo fór ég inn í herbergi að lesa og sofa.
Daginn eftir, mánudagur og veður enn fallegt. Ekki eitt ský á himni. Ég spurði hversu lengi þau hefðu verið að njóta Ljósanna. Jú, sjáðu til, var svarið. Hún fór inn á herbergi, sótti teppi, sem hún hafði meðferðis og kampavín. Teppið settu þau á lítinn hól rétt hjá hótelinu, settust þar og fengu sér kampavín. Þarna sátu þau í þrjá klukkutíma og upplifunin var gríðarleg. Þau lýstu hvernig Norðurljósin hefðu runnið hratt yfir himininn, allt í einu kom eins og hringiða og ljósin svifu framhjá, græn og gul. Ferðin til baka til Reykjavíkur var jafnvel enn betri en daginn áður þar sem ekki var eins mikill vindur og sandfokið því ekki að byrgja sýn.
Eve heitir konan og býr í Adamsstræti. Hún sagðist aldrei panta pizzu undir réttu nafni þar sem enginn trúir henni ef hún gefur upp rétt nafn, Eva í götu Adams! Hlýtur að vera grín.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Guðbjörg Bragadóttir
Færsluflokkar
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar