Saga krossins

Einu sinni var fjölskylda, mamma, pabbi og tvö börn, stúlka og drengur. Þegar stúlkan var orðin 4ra ára og litli bróðir hennar rétt að verða eins árs kom í ljós að mamman var að fara að eignast þriðja barnið.  Það barn átti að verða drengur líka, svarthærður og brúneygur drengur, alveg eins og Litli bróðir. Stóra systir var nærri ljóshærð og gráeyg.

Þegar mamman var búin að ganga með Kríli í sex mánuði var Stóra systir spurð hvort hún vildi eignast systur eða bróður. Hún hugsaði sig um andartak og sagði svo: "Ég á bróður, ég vil systur." Og málið var útrætt. Búmm, Kríli átti að verða strákur svo að nú voru góð ráð dýr og breyting átti sér stað í maganum á mömmu - stelpa var á leiðinni. Hún fæddist svo á Fullveldisdegi Íslands, en með þvílíkum látum að sjúkrabíll var fenginn til að flytja mömmu á spítalann. Veðrið var slæmt og fjölskyldan átti heima í nýju hverfi, enn í dag er þetta hverfi ekki auðfundið nema þeim sem til þekkja. Nema hvað, pabbi þurfti að ganga langa leið á móti sjúkrabíllnum svo sjúkraflutningamennirnir fyndu húsið. Stelpan fæddist svo stuttu eftir komu á spítalann. Hún virtist alveg í lagi við fyrstu sýn, dafnaði meira að segja vel, svaf eins og steinn alla daga og meira en hin börnin höfðu gert. Það þurfti ekki nema eina litla taubleyju yfir eyrað á þessu litla kríli til að það sofnaði. Krílinu var gefið nafn og allt virtist í fínu lagi. Tíminn leið og þetta Kríli, sem átti að vera brúneygur strákur, varð dökkhærð stelpa með - ó nei! Bara eitt grátt auga! Hitt hélt áfram að vera brúnt! Það tókst ekki að breyta augnlitnum fullkomlega þegar ákveðið var að þetta yrði stelpa en ekki strákur, að ósk Stóru systur.  Ojæja, eitt brúnt auga - hitt var þó alla vega grátt eins og bæði augu Stóru systur.

En fleira hafði víst farið úrskeiðis við þessa skyndiákvörðun frá strák yfir í stelpu - mjaðmirnar. Mamman fann alltaf einhverjar óeðlilegar hreyfingar í mjöðmum Krílisins þegar hún skipti um bleyju á því - einhver óhljóð. Hún ræddi þetta við lækni og hjúkrunarkonur, sem sáu um venjubundnar sprautur. Allt hjúkrunarliðið sannfærði mömmuna um að allt væri í fína lagi - hún sefur eins og engill! Hvað gæti svo sem verið að? Mamma fann SAMT að eitthvað var að. Svo fór Kríli að ganga og þá var enginn vafi lengur, eitthvað var að mjöðmunum, mjaðmirnar voru ekki í lið. Krílið var sett á spítala og þar lá þetta litla grey í einhvers konar mjaðmastokk, sem átti að koma mjaðmakúlunum í rétta liði á ný. Mamman mátti ekki heimsækja Krílið sitt nema einu sinni í viku á spítalann - nunnurnar þar sáu til þess.

Pabbinn? Pabbar gráta ekki og til að forðast það að gráta fór pabbinn bara alls ekki á spítalann, hann hefði ekki getað annað en grátið og hvað er þá betra en að fara bara alls ekki á stað, sem lætur mann gráta.

Mamman sendi vinkonur sínar til að líta eftir Krílinu, sem svaf oftast rólegt með sína bleyju yfir eyranu. Stundum var Krílið með snuð, en oftast vantaði önnur börn á stofunni snuð og af því Krílið svaf fremur vært þá var snuðið bara tekið af því og önnur börn, órólegu börnin, látin hafa snuð Krílisins.

Nokkrir mánuðir liðu eða um 6 mánuðir og Krílið enn á spítala. Ekki náðist að setja mjaðmakúlurnar inn í liðina nema á hægri mjöðm. "Hér þarf skurðaðgerð" sagði læknirinn, sem var nýkominn úr námi frá Svíþjóð og vissi allt það nýjasta um aðgerðir og hjálp við sjúklinga. Krílið var sent heim í stuttan tíma, þurfti víst að kynnast mömmunni, pabbanum, Stóru systur og Litla bróður aðeins á ný áður en aðgerðin var gerð. Það var dálítið erfitt því allar nunnurnar á spítalanum voru danskar og töluðu aðeins dönsku við Kríli svo Krílið kunni ekki lengur íslensku, móðurmál sitt, bara dönsku.  Svo var Krílið sent á spítalann aftur, grátandi eftir mömmunni sem aðeins mátti heimsækja Krílið sitt einu sinni í viku. Nú var aðgerðin undirbúin og þar kemur Krossinn til.

Á þessum spítala var settur kross um háls allra þeirra sem fóru í skurðaðgerðir og litla Kríli fékk sinn Kross um hálsinn. Síðan þá hefur Kross fylgt Krílinu, sem í dag er reyndar orðin mamma og líka amma. Kross er enn til, hefur að vísu brotnað, en nú er búið að laga hann. Hann prýðir elsta barnabarn litla Krílisins. 

 



Yfirlit yfir sumarið

DrekiimageFossamyndMikið er nú gott að geta sest niður á hótelherbergi og hugsa um allar skemmtilegu ferðirnar mínar í sumar. Sumarið er búið að vera ótrúlega skemmtilegt og fjölbreytt. Klúbbur af göngufólki frá Kanada var með okkur hjónunum í 12 daga ferð. Allt var innifalið. Töluverð skipulagning, en allt gekk upp. Við byrjuðum ferðina í Krýsuvík og svo yfir í Hveragerði þar sem nokkrir unglingar skemmtu mínu fólki með því að stökkva niður í hyl við fallegan lystigarð. Mínu fólki var mjög skemmt. Hádegisskemmtun! Við gistum tvær nætur á hótel Hamri við golfvöllinn. Ýmislegt hægt að skoða á þessu svæði og allt er fallegt í sólskini. Næstu tvær nætur vorum við á Ísafirði. Vigur, Bolungarvík og svo auðvitað minn fallegi Tungudalur. Þá var ferðinni heitið yfir á Látrabjarg. Í fögru veðri er ekki hægt annað en að gleðjast hér þótt rútan hafi nú einmitt kveikt viðvörunarljós um að bremsurnar væru eitthvað til travala! En hæstu fjallvegirnir eru nú þegar búnir svo þetta gengur örugglega yfir á Akureyri þar sem hægt er að láta gera við?

Í Arnarfirði voru hvalir að leik þegar við ókum inn fjörðinn svo auðvitað stoppuðum við til að skoða leik þessara stóru dýra. Reyndar höfðum við verið svo heppin fyrr í ferðinni (Skötufirði) að selir sóluðu sig á skerjum, stór hópur. Við stoppuðum þar og nutum þess að horfa á þá í leik.

Gistingin á Breiðuvík var frábær og mitt fólk fékk sér göngu niður að sjó, stríddi kríunni á ströndinni örlítið, öllum til ánægju. Við vorum síðan á Blönduósi og Akureyri nokkrar nætur, Mývatnssveitin! Í raun þarf leiðsögumaður ekki að segja orð þarna þar sem náttúran segir allt sem segja þarf. En leiðsögumenn eru sér þjóðflokkur, þeir kunna ekki að þegja. Klúbburinn frá Kanada er nú að skipuleggja sína 3ju ferð með okkur árið 2014, mikið verður gaman að sjá þau aftur.

Á Þúfubjargi í apríl voru fuglar í kyrrð og ró. Ég var á ferð með Ameríkana og dóttur hans, prívatferð og algjör lúxus. Hann kom til að taka myndir af fuglum, meðal annars. Þegar við komum á Þúfubjarg henti karl steini niður í bjargið svo allir fuglarnir flugu upp. Ég skildi ekki hvaða styggð hefði komið að fuglunum fyrr en ég sá prakkarasvipinn á karli, þarna náði hann góðri mynd! Hann lofaði mér að hann skyldi aldrei gera svona aftur, en myndin er ein sú besta sem hann tók í túrnum. Hann sendi mér flott innbundna bók með öllum sínum myndum eftir túrinn.

Vestfirðirnir hafa verið vinsælir hjá mínum túristum þetta árið. imageÉg hef faríð þrisvar svar sinnum á Látrabjarg og Ísafjörð þetta sumarið. Alltaf í blíðu. Önnur ferð sem ég fór var með þrjá Amerikana. Þau voru áhugasöm og þægileg. Hugsuðu vel um mig svo þetta var skemmtileg tilbreyting frá því að vera með hóp. Ég var mjög stolt að geta sýnt þeim allar okkar helstu náttúruperlur í sólskini. Ekki spillir fyrir að hafa selahópana liggjandi á skerjunum úti fyrir Hvítanesinu í Djúpinu. Selirnir meira að segja busluðu í sjónum rétt við ströndina okkur til yndisauka.

Ég lagðist á magann á Látrabjargi til að ná góðri mynd af lundanum, þessum fallega prófasti, fyrir hana Lil, en úpps - gleymdi að taka mynd fyrir sjálfa mig.

Við Hraunfossa eitt sinn sá ég bjórdós inni í runna. Ég er agaleg, get ekki séð rusl á víðavangi í friði og fór því inn í runnann og sótti dósina. Í því kemur Bev, minn túristi, og segir "Gugga, you shouldn't be drinking so early in the morning". Hátt og snjallt þannig að hjón með dóttur sína, sem áttu leið hjá, litu á okkur. Ég henti dósinni í næstu ruslatunnu. Þegar ég er að keyra af stað frá Hraunfossum eru hjónin með dótturina á bílastæðinu og litu undrandi á mig. Ég átti alveg eins von á að lögreglan myndi stöðva mig fyrir "Bakkus undir stýri". 

Að fara Kjöl í logni og sólskini er meiriháttar þótt vegurinn væri ekkert nema þvottabretti. Bæði Hofsjökull og Langjökull skörtuðu sínu fegursta. Ferðin tók nokkrar klukkustundir en af og til stoppuðum við einungis til að njóta fegurðarinnar. Það var vissulega fagurt til fjalla þann daginn. Í síðustu ferð minni í Mývatnssveitina, lok ágúst, var sólskin og logn en nokkuð kalt. Útsýnið glæsilegt. Ég ók upp að Kröfluvirkjun, hvítir toppar fjallanna voru svo skýrt afmarkaðir frá grænum hlíðunum í kring. Við Víti var allt hvítt, 10 cm snjólag, sól, logn - ótrúleg náttúra. Undraland.

Allar þær ferðir sem ég hef farið í sumar um Austfirðina hef ég fengið þoku eða rigningu. Eins og Austfirðirnir eru fallegir þá er hreinasta frat að geta ekki sýnt þá fegurð.  Steinasafnið hennar Petru bjargar þó yfirleitt imageAustfjörðunum og svo Eggin í Gleðivík, sem var gott innlegg í túrismann.

Jökulsárlón, þetta er einn af þeim stöðum sem kemur öllum í rútunni/bílnum til að segja 'VÁ'! með tilfinningu. Ég hef aðeins einu sinni "lent í því" að ekki kom stuna né hósti upp úr túristunum þegar við komum að þessari perlu okkar. Og auðvitað minnist ég þess alla tíð, hópurinn sem ekki sagði VÁ. Skógafoss er búinn að vera í hinum ýmsu litbrigðum þetta sumarið: stundum kolsvartur, stundum mórauður og stundum tær, jafnvel vatnslítill um tíma. Allir okkar fossar hafa verið fremur vatnslitlir svona framan af sumri, nema Urriðafoss - hann hefur haldið sínu vatnsmagni að mestu. Ég segi stundum við túristana mina að eftir heimsókn til Íslands muni þeir ekki vilja sjá fleiri fossa, en þeir eru alltaf á annarri skoðun.Vestmannaeyjar

Tvö, sem ég var með í tíu daga túr, sögðu mér að eftir ferð um Ísland og heimsóknir sínar að öllum fossunum, þá vilji þau aðeins sjá fallega fossa í framtíðinni - þau eru orðin 'Fossa-snobbarar'. Það er reyndar eitthvað til í því!

Norðurljósin eru vinsæl. Í apríl gisti ég á Búðum með tvö í prívatferð. Um miðnætti varð mér litið út um gluggann og sá að norðurljósin voru dansandi á himninum svo ég hljóp niður á barinn og lét mitt fólk vita. Til að halda á sér hita tóku þau með sér koníak, tóku myndir og drukku stíft til kl. fjögur að morgni. Daginn eftir var ekki lagt mjög snemma af stað . . . en, norðurljósmyndirnar voru góðar. Það sama var núna í september og þá á Íslandia hótelinu, skólahópurinn var allur úti rétt fyrir miðnætti. Það voru stoltir nemar sem sýndu mér myndirnar sínar daginn eftir.image

Utah fjölskyldanSvo var það fjölskyldan frá Utah, ellefu manna hópur. Við fórum hringferð, en byrjun ferðarinnar var alls ekki skemmtileg, hífandi rok og rigning svo að rútan lék á reiðiskjálfi fyrir nesið á Snæfellsnesinu. Að geta ekki gengið um Arnarstapa vegna veðurofsa í júlí er óvenjulegt. Vestmannaeyjar bættu þó fyrir þetta, þar var logn, hlýtt og sólin skein. Þarna var þeirra uppruni ásamt svæðinu undir Eyjafjöllum, sem við auðvitað heimsóttum líka. 

Frábært sumar með skemmtilegu fólki!

VarðanVestmannaeyjarSystrafoss


Gullhringurinn

desktop_004.jpg

Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að segja frá Gullhring með túrista. Upplifun túrista af náttúruperlum okkar er ekki alltaf eins. Auðvitað fer þetta eftir veðri. Í desember fór ég sem leiðsögumaður með lítinn hóp. Ég sótti fólkið á Keflavíkurflugvöll snemma að morgni (Ameríkuflug). Þegar svo er, kem ég yfirleitt við í Hveragerði til að fólkið geti fengið sér hressingu. Bakaríið er með uppáhellt kaffi, smurt brauð og auðvitað annað bakkelsi, sem er allt mjög gott. Eftir hressinguna héldum við áfram, allan hringinn í hríðarbyl. Vegirnir voru fremur hálir og sums staðar töluverður snjór. Yfir Lyngdalsheiði ókum við í kafaldsbyl svo ekki sást út úr augum, erfitt að sjá veginn, en okkur til mikils léttis stytti upp þegar við komum á Hakið og við gátum notið útsýnisins. Dökkur skýjabakki var í vestri svo við stoppuðum stutt, áfram veginn í átt að Mosfellsheiðinni. Stuttu eftir afleggjarann að Nesjavöllum voru nokkrir bílar í röð og þá sáum við hvar lítill bílaleigubíll sat fastur í skafli og fyrir aftan hann annar, einnig fastur. Á móti þeim komu Toyota Landcruiser jeppar, upphækkaðir. Þeir stoppuðu okkur og sögðust hafa þurft að snúa við, skaflar væru upp á húdd á þeim og þeir bara heppnir að hafa náð að snúa við. Þá var ekki annað að gera en snúa við yfir í Grímsnesið og þá leiðina til Reykjavíkur. Við náðum að komast alla leið, þoka á Hellisheiði en vegurinn vel fær. Tafði okkur um klukkutíma.

Næsta skipti sem ég fór Gullhring var í janúar. Grenjandi rigning svo ekki sást nein fjallasýn. Fólkið spurði hvort engin fjöll væru á Íslandi! Rigningin var svo gríðarleg að mitt fólk nennti ekki einu sinni að stoppa hjá Strokki nema rétt til að sjá eitt gos. Á Gullfossi var ísingin á stígum þvílík að aðeins ein kona treysti sér út til að taka mynd og sýndi hinum í bílnum – svona lítur Gullfoss út, sagði hún.

Febrúar kominn alveg skyndilega – jú, tíminn líður svo hratt að mér fannst janúar hverfa eins og vikan hérna í gamla daga þegar ég beið eftir að verða árinu eldri – tala nú ekki um frá 16 og upp í 17, 19 og upp í 20. Febrúar kominn og aftur er Gullhringur í aðsigi. Nú með Kínverja, sem stoppa aðeins sunnudag, mánudag, þriðjudag. Þau komu með flugi kl. 01:40 aðfararnótt sunnudagsins, gæti ég komið og sótt þau á flugvöllinn og tekið norðurljósaskoðun á leið á hótel? Jú, það get ég. Það lítur vel út með norðurljósin fyrir kvöldið/nóttina og einna helst sýndist mér að yrði heiðskírt í vestri. Vélin lenti á réttum tíma og mínir fjórir farþegar bara með eina tösku saman. Þetta voru eldri hjón með syni sínum og tengdadóttur. Sonurinn var með góða myndavél, kona hans lét lítið fyrir sér fara og foreldrarnir töluðu ekki stakt orð í ensku. Við vorum fljót að komast út í bíl, sonurinn í framsætinu og ég ók að brúnni milli heimsálfa á Reykjanesinu. Um leið og ég steig út sá ég norðurljósin! Ótrúleg heppni, fannst mér. Sonurinn þurfti að ná þrífætinum úr bílnum til að geta tekið mynd af þessum grænu ljósum í loftinu, mér var kalt og settist inn í bíl. Stuttu síðar settust þau öll inn í bílinn, norðurljósin hurfu um leið og ég settist inn í bílinn. Nei, ég var ekki með fjarstýringu á norðurljósin – bara ef það væri nú hægt. Við ókum yfir í Grindavík og áfram veginn til Reykjavíkur. Ég ætlaði ekki að gefast alveg upp og stoppaði aftur og jú, þarna voru norðurljósin í norðaustri, dauf en til staðar. Út með þrífótinn, en þá fóru norðurljósin yfir himininn og voru allt í einu í vestri í staðinn fyrir norðaustri. Þrífótur í rétta stöðu og nú tókst að ná góðri mynd. Frábært, nú er hægt að aka þeim á hótel – á Laugaveginn í Reykjavík. Ó . . .

Allt gekk þokkalega vel þar til ég kom á Laugaveginn. Drukkið fólk út um allt, ælandi fólk á gangstéttum, fólk á götunni sjálfri svo varla var hægt að aka áfram. Glerbrot um allt! Ég skammaðist mín hræðilega fyrir landa mína. Sóðaskapurinn og viðbjóðurinn var þvílíkur! Er þetta virkilega siðmenntuð þjóð, sem býr hér? Ég fékk ekki bílastæði fyrir utan hótelið, ók því inn í hliðargötu og steig út. Varla hafði ég stigið út þegar glas lenti á stéttinni við hliðina á mér og brotnaði þar í spón. Heppni að ég var ekki komin örlítið lengra frá bílnum, þá hefði glasið lent á hausnum á mér. Túristarnir mínir fóru út úr bílnum og þá svífa á þau nokkrar stúlkur og spurði: “What are you doing here?” Augmingja túristarnir mínir skildu ekkert og svöruðu ekki. Inn á hótel kom ég þeim, glöð yfir að þau höfðu pantað hótelið sjálf og ekki spurt mig álits. Ég er alls ekki hrifin af hótelum við Laugaveginn, engin aðstaða til að sækja fólk. En, ég komst klakklaust í burtu aftur, að vísu með því að flauta á nokkrar konur, en þær gáfu mér illt auga og hreyfðu sig ekki fyrr en ég nærri ók á þær. Gott að augnaráð getur ekki drepið, ég hefði þá ekki komist Gullhring á mánudeginum með Kínverjana mína.

Svo rann upp mánudagur, desktop_041.jpgbúið að þrífa göturnar á Laugaveginum og nú fékk ég stæði fyrir utan hótelið. Veðrið lofar góðu. Búið að moka veginn yfir á Þingvöll, en þar sem snjór lá yfir öllu var ég beðin um að stoppa svo hægt væri að taka myndir. Jú, á stæðinu sem er rétt hjá. Þvílík fegurð! Allt hvítt, fjöllin, vatnið. Mikið er gaman að sýna landið sitt þegar fegurðin er slík. Ég er alveg hætt að skilja hvað brandarinn getur komið fólki til að hlæja: “Hvað gerirðu ef þú villist í íslenskum skógi? Stendur upp!” Ég verð alltaf jafn hissa þegar fólk hlær að þessu. Svo segi ég frá Vinaskóginum, jú fólki finnst þetta svo frábær hugmynd og sumir verða klökkir við tilhugsunina. Áfram héldum við og enn er allt hvítt og fallegt. Á Laugavatni finnst fólki það komið í hálfgerðan undraheim, ganga í snjó niður að vatni, sem er heitt og gufan allt í kring – töfraheimur. Margar myndir teknar af fjölskyldunni umvafðri gufu. Á Geysi hélt ég að ég þyrfti ekki að ganga með þeim upp á hverasvæðið, en rölti þó á eftir þeim. Gott ég gerði það, þau héldu að ekki væri lítandi á neitt nema Strokk, sem spýtti úr sér af og til, mörg góð gos. Flottast við Strokk finnst mér vera bláa loftbólan, sem kemur rétt áður en hann gýs. Ég hafði á tilfinningunni að þetta fólk myndi ekki líka við tröllasögur svo ég hélt aftur af mér við frásagnir af tröllum og álfum. Á leiðinni yfir á Gullfoss sagði sonurinn mér að á kortinu, sem ég hafði látið þau fá í byrjun ferðar, hefðu verið skrítnar fígúrur – draugar og risar – eða eitthvað svoleiðis. Ég útskýrði af hverju Gunnuhver héti því nafni – hafði sagt þeim frá þeim hver fyrstu nóttina, en ekki af hverju hverinn héti þessu nafni. Svo nú báðu þau um tröllasögur. Hver er þá betri en sagan um hann Bergþór í Bláfelli? Bláfellið blasti við okkur, hvítt, tignarlegt! Mikið er gaman að sýna landið á fallegum degi! Af hverju eru sum fjöllin svona blá þótt snjór sé á þeim? Jú, þau voru blá, bleik þar sem sólin skein og hvít næst okkur. Og svo kom að spurningunni minni: “Hvort er áhrifameira, Gullfoss eða Geysir?” Bæði. Nei, sagði ég, það má ekki segja bæði. Þau gátu ekki gert upp á milli þessara náttúruperla. Þá var Faxi næstur og þar var laxastiginn til umræðu. Getur laxinn virkilega hoppað upp þennan foss? Og hvernig fór laxinn að því að finna stigann til að nýta sér? Í lok ferðar sagði sonurinn mér að hann hefði ekki getað ímyndað sér að Ísland hefði upp á svona fallega náttúru að bjóða.

Daginn eftir vildu þau fara í Jökulsárlón. Fjórtán tíma ferð, en það stóð ekki í vegi fyrir þeim. En það er önnur saga, ekki Gullhringssaga.


Bretar, sem reyndust vera Bandaríkjamenn . . .

Mér var boðið í sextugsafmæli föstudagskvöldið 18. des. Frábært. Svo kom beiðni um að fara nokkra túra, Gullna, Suðurströnd, sækja og skila á flugvöll. Hm, alveg að koma jól, en þetta er svo sem alveg í lagi, sameina sextugsafmælið með transferi frá flugvelli á hótel þar sem afmælið var hvort eð er í Garðinum. Stutt á flugvöllinn þaðan og flugvélin átti að lenda kl. 23:35. Afmælið hans mágs míns var afskaplega skemmtilegt, svo vægt sé til orða tekið. Mjallhvítar-leikurinn var góður og vakti mikinn hlátur. Ég fór inn á Textavarpið og þar stóð að áætluð lending vélarinnar frá London Heathrow væri kl. 00:10 - smá seinkun. Aftur inn á textavarp og nú var áætluð lending kl. 01:30. Aumingja gestgjafarnir (systir mín og mágur) þurftu að sitja uppi með mig og minn mann þar til tími var til að fara á flugvöllinn. Áttum reyndar góða stund, spjall og bara gaman þótt við værum orðin dálítið þreytt. Loks lenti vélin og við vorum komin á völlinn. Mitt fólk var fljótt að komast út úr tollinum þar sem þau voru aðeins með handfarangur, enda stoppuðu þau aðeins fram á mánudag (þ. 21.12.). Kom í ljós að þau voru frá Bandaríkjunum, búa og vinna í London þar til í mars 2010 og nú eru þau að ferðast eins mikið og mögulegt er um Evrópu þar til þau flytja aftur til USA. Ungt fólk og strax góður andi milli okkar. Við ókum þeim á hótel Barón, þá var að koma sér heim, ná sér niður áður en farið var í rúmið um kl. 03:00. Gott að geta sofið alveg út þennan morgun - alveg til kl. 8:30. Sumir eru bara morgunmenn og geta ekki breytt því alveg sama hvað þreyta segir eða hvað er í húfi.

Daginn eftir - 19. des. Æi, mig langar svo á fyrirlestur í Þjóðminjasafninu, en það er enginn tími til þess. Sonardóttir mín er að spila í jólaþorpinu og mig langar líka að hlusta á hana spila, fara svo og kaupa síðustu jólagjafirnar, fara út með hundinn, fara í jólaboð með tengdafólkinu um kvöldið. Þar gat ég ekki alveg slakað á þar sem túristarnir mínir vildu endilega sjá Norðurljósin, ef mögulegt væri. Spáin reyndar gaf ekki góðar vonir um Norðurljós þetta kvöld, en ég vildi samt vera viss. Sendi svo sms til að láta vita að engin Norðurljós sæjust og þá var hægt að halda áfram að vera í jólaboðinu. Daginn eftir, sunnudaginn 20. des., var áætlað að fara Suðurströndina, fara inn að Sólheimajökli líka. Þá var bara að koma sér heim úr jólaboðinu um miðnætti - stundum er gott að vera morgunmaður þótt farið sé seint í rúmið!

20. des. og veðrið er gott í höfuðborginni, reyndar svo fallegt! Sóttum túristana á hótel og út úr bænum austur á Bakka (Eyrarbakka). Hérna átti ég margar skemmtilegar stundir sem barn hjá ömmu minni.  Amma, sem þorði ekki að gráta þegar afi minn dó af því hún hélt hún gæti þá ekki hætt að gráta. Hún átti þó sína huggun, var ófrísk að mömmu minni og átti þessa 5 fallegu stráka. Nýlega fékk ég í hendur nokkur bréf, sem afi minn hafði skrifað ömmu á árunum 1916 til 1926. 

ASólarupprásfskaplega falleg bréf, sem sýndu vel hversu mikið hann hugsaði til þeirra meðan hann var á vertíð í Eyjum. En þetta er víst allt önnur saga. Eyrarbakki hefur að vísu ekki mikið breyst síðan þá nema að sjóvarnargarðurinn er orðinn breiðari og höfnin er ólík því sem var. Eyrarbakki á sér töluvert langa sögu, sem gaman er að segja frá.

Áfram austur yfir Þjórsá, Hvolsvöll og smá stopp að Hlíðarenda. Þar er alltaf gott að stoppa, kaffi og með'í. Áfram í austur og við blasir Seljalandsfoss. Ég hef ekki sé fossinn svona fyrr: auð jörð allt í kring og allt hvítt bara í kringum fossinn sjálfan. Úðinn og frostið hafa leikið sér mikið undanfarna daga og skapað ótrúlega fallega veröld. Svo var sólin að koma upp og kastaði rauðgullnum blæ yfir og allt í kring. Svona fegurð er ekki hægt að sleppa - stopp til að mynda!

13joqio.jpgTveir fóru svo nálægt fossinum að þeir komu eins og klakabrynjur til baka, fóru úr buxunum til að þurrka þegar inn í rútuna kom. Greyin, þeim var aðeins kalt. Áfram inn að Sólheimajökli, vindurinn farinn að gnauða ansi hátt á leiðinni og topplúgan á rútunni fauk upp tvisvar, en mínir menn á undirbuxunum náðu að koma lúgunni niður aftur. Svo gengum við öll inn að jökli, þessir tveir 'klakabrynjar' þurftu endilega að fara lengra upp á jökultunguna en aðrir og annar þeirra fór ofan í gamlan svelg, komst ekki upp úr af sjálfsdáðum. Ekkert rok þar, áin eins og lítil lækjarspræna, jökullinn blár og fegurð íssins ótrúleg. Auðvitað gleymdi ég myndavélinni, ótrúleg gleymska, ófyrirgefanleg. 15zgqui.jpgKlakabrynju nr. 1 var komið upp úr svelgnum og nú var rokið orðið %#mikið  (of ljót orð hér) svo við fórum inn að Skógasafni, héldum þar væri opið til að fá sér hádegismat, en svo var ekki. Stoppuðum við Skógafoss og eins og við Seljalandsfoss var hér allt ísi lagt bara í kringum fossinn. Samspil íss og frosts getur orðið verulega gott. Þá er að halda til baka undir Eyjafjöllin. Hér finnst mér vanta skilti sem segir til um vindhraða! Ég hef lent í sviptivindum/fallvindum bæði hér og nálægt Pétursey, bæði sem bílstjóri og leiðsögumaður, en aldrei lent í þvílíkum vindhraða - fór upp í 34.2 metra á sekúndu fékk ég að vita hjá veðurstofunni daginn eftir. Ekki skrítið þótt topplúga rútunnar fyki út í veður og vind og svo út á sjó! 19ipqmm.jpg

Ansi kalt í bílnum yfir á Hvolsvöll þar sem við fengum góða aðstoð frá rekstraraðila. Hann var kominn upp á rútu með plastrúllu, plastaði yfir opið lúgugatið og komst svo ekki niður aftur. Klakabrynjurnar mínar fóru út og hjálpuðu honum niður aftur. Svo var bara tíðindalaust yfir á Urriðafoss nema hvað við tókum eftir að allir hestar fældust þegar við keyrðum framhjá, lætin í plastinu voru þvílík. Urriðafoss skartaði vetrarfegurð sinni, frosinn að hálfu leyti. Áfram veginn og þegar við fórum fram hjá Hveragerði fauk plastið af topplúgunni svo það tók að kólna í bílnum. Við klæddum okkur öll í þær flíkur sem til voru og lifðum af til Reykjavíkur.

24sppkn.jpg

Og þá er það 21. desember, styðsti dagur ársins og ég búin að lofa að fara Gullhring með fólkið. Topplúgan farin á haf út og þá er bara að bjarga sér á annan hátt. Ekkert kom upp á í þessari ferð, Gullfoss alltaf fallegur og nú eins og alltaf spurði ég hvort væri tilkomumeira svæði, Gullfoss eða Geysir. Fékk ekki svar, en hestarnir, sem við stoppuðum hjá vöktu þvílíka ánægju - að mér læddist sá grunur að hestarnir hefðu vakið meiri athygli en allt landslag í kring. Ekkert undarlegt við það, allt stóðið hljóp til túristanna þar sem þeir stóðu við girðinguna og tóku myndir í gríð og erg. Laugarvatn var baðað sólskini, vatnið frosið að hluta. Svo komum við til Þingvalla þar sem sólin var að renna til viðar, allt of kalt til að ganga upp á Hakið og við höfðum hvort eð er ekki mikinn tíma, þau þurftu að komast út á flugvöll fyrir kl. 15:00 þar sem flugið var kl. 17:00. Bandaríkjamenn, sem búa í London - gaman að hitta ykkur og vonandi tókst mér að vekja áhuga á Íslandi á annan hátt en bankahrunið hefur gert.

 


Fatlað sundfólk

blesi.jpg

Mér hlotnaðist sá heiður að vera leiðsögumaður með fatlað sundfólk frá Úkraínu og Frakklandi sl. sunnudag.  Frá Ukraínu voru 22 manns, en frá Frakklandi voru 9. Fjórir í hópnum voru í hjólastólum, allt konur og ein þeirra hafði hlotið sín örkuml í sprengiárás IRA í London. Fötlun fólksins var af ýmsum toga, einn vantaði hálfa hendi, á annan vantaði vöðva í fæti, ein hafði hálfa handleggi og fingur þar út frá. Nokkur voru blind og ein blind ýtti hjólastól, en sú í hjólastólnum stýrði svo samvinnan var frábær. Liðsstjórar voru með báðum liðum og sú sem var liðsstjóri fyrir Úkraínu liðið túlkaði fyrir sitt fólk. Frakkarnir töldu sig allir skilja ensku það vel að ég gæti leiðsagt án þess að neitt þeirra túlkaði.

thingv.jpgÁ Þingvöllum er venjan að ganga niður Almannagjá. Ég var ekki viss um að hjólastólarnir kæmust klakklaust niður, en hópurinn var ekki í neinum vafa – auðvitað förum við öll, hjólastólar komast (næstum) allt með góðum vilja og smá aðstoð. Á leið yfir heiðina frá Þingvöllum til Laugarvatns er eitt fagurt tröll, eða reyndar bara hausinn. Á heiðinni var veghefill að laga veginn gamla, sem hefur verið ansi slæmur í a.m.k. 6 mánuði. Við bílstjórinn spurðum okkur hvort einhver kóngur væri nú væntanlegur austur . . .

Liðsstjóri Úkraínumannanna spurði mig hvort ég tryði á álfa og tröll. Er ekki yfirlæti af mannverum að halda að við séum ein hérna í þessum heimi? Að ekkert sé hulið sjónum okkar? Ef við göngum um landið eins og við séum þau einu, sem hér búum og að við þurfum ekki að taka tillit til eins eða neins – hvernig förum við þá með náttúruna? Ef við látum sem hólar, klettar og fjöll hafi íbúa þá þurfum við að umgangast náttúruna af virðingu. Seinna í ferðinni sagði liðsstjórinn við mig: ‘þið eigið ótrúlega mikið af náttúru’. Úkraína er tæplega sex sinnum stærra en Ísland og þar búa um eða yfir 50 milljónir. Flestir tala rússnesku, sagði liðsstjórinn mér.

Þennan dag var svo fagurt til fjalla þótt kalt væri. Útsýn í allar áttir og Langjökull blasti við okkur, hvítur og hreinn á að líta. Gott að hafa svona veður, kalt og stillt. Það þýðir að allir fara eftir tímasetningum leiðsögumannsins. Og enn er það Gullfoss sem þykir áhrifameiri en Geysir. Við litum aðeins inn að Faxa. Ég var búin að lofa sjálfri mér að skrifa niður orðið fax á öllum tungumálum, sem ég kemst í tæri við. Mig vantar enn nokkuð mörg orð yfir fax. faxi_927483.jpg

Á leið frá Hveragerði til Reykjavíkur var allt liðið hálfsofandi. Var ég svona hræðilega leiðinleg? Ah, þau höfðu víst verið í lokahófi kvöldið áður til kl. 2 um nóttina.

Frakkarnir spurðu á miðri leið hvenær við kæmum í sundið. Sund? Já, þetta bláa. Þetta er ekki Bláa Lóns-túr. Æ, þau misskildu auglýsinguna, héldu þau væru að fara í Bláa Lónið. Vonandi komust þau í Bláa Lónið um eftirmiðdaginn. Við vorum komin það snemma í bæinn aftur að það var möguleiki að fara líka í þetta bláa vatn. Góður dagur með gott fólk.


Mexikanar

Þá er komið að því að þjónusta Mexikana. Ég hef einu sinni áður fengið fólk frá Mexikó í gegnum ferðaskrifstofu þar, sem ég hef verið í sambandi við. Þetta voru hjón, ríkt fólk sem þoldi ekki rigningu og fóru sama dag og þau komu til landsins þótt þau þyrftu að borga svítuna á Sögu í tvær nætur. Hef ekki heyrt frá þeim aftur!

Nú er eitthvað annað, fjórar konur og einn karl sem eru í skemmtireisu um norðanverðan hnöttinn. Þau eru búin að skoða suðurskautið og nú koma þau í gegnum Frankfurt til Íslands. Þau sótt á flugvöllinn í Keflavík og ekið með þau yfir á Reykjavíkurflugvöll þar sem þau tóku vélina yfir til Akureyrar. Auðun leigubílstjóri þar tók á móti þeim og daginn eftir fóru þau með honum til Mývatns. Þau voru algjörlega heilluð af norðurlandinu. Flugu svo daginn þar á eftir suður til Reykjavíkur aftur og ég tók á móti þeim, ók þeim á hótel í Reykjavík. Þau vildu skoða Reykjavík í ró og næði, ekkert Bláa Lón þótt til boða stæði. Gott mál, það var hvort eð er skítkalt í lóninu þann daginn og allt yfirfullt af fólki.

Daginn eftir sótti ég þau á hótel og við fórum Gullhring. Á Þingvöllum var hreinlega hellt yfir okkur úr fötu og við komum eins og hundar af sundi inn í bílinn aftur. Ég held að hundurinn minn sé yfirleitt ekki blautari en þetta þegar hann er búinn að synda í Hvaleyrarvatninu. En . . . þau voru samt til í að ganga og vera úti, spurðu mikið og við áttum skemmtilega göngu saman niður Almannagjá. Yfir á Laugarvatn, en þar rigndi enn svo við héldum áfram yfir á Gullfoss. Kjötsúpan fyrst og svo skoðuðum  við fossinn sjálfan og nú hætti að rigna. Jökullinn sýndi sig smá stund svo hægt var að dáðst að dýrðinni. Svo Geysir og Strokkur þeyttist í loft upp nokkrum sinnum, Geysir sjálfur lét ekki á sér kræla. Ég er svo sem búin að sjá hann gjósa einu sinni í sumar og reyndar einu sinni í vetur líka svo ég er ánægð. Þá er það Faxi minn fallegi og Skálholt. Iðavellir í Hveragerði var með rólegra móti. Aftur til Reykjavíkur og þetta frábæra fólk átti svo flug eldsnemma daginn eftir. Þá var ferðinni heitið til Noregs, Svalbarða og svo norðurpóllinn með National Geographic hópi. Þau sögðust eiga fatnaðinn í svona ferð, ekki undra þótt þau kvörtuðu ekki undan kulda í Gullhring. 


Hringferð með fjóra!

desktop_003_893821.jpgJá, bara fjóra – tvo Þjóðverja og tvo Ítali. Sunnudagurinn 26. Júlí Landmannalaugar kl. 9. Vélin frá Mílanó lenti 07:12 og þau hjónaleysin komu út einmitt þegar ég kom inn í flugstöð til að taka á móti þeim. Smástopp í Raufarhólshelli, Stöng í Þjórsárdal og að Gjánni. Einhver túristinn minn sagði mér að Gjáin væri eins og Paradís, vin í eyðimörkinni. Þarna hafði rithöfundurinn Margit Sandemo smá fjölskyldupartí fyrir mörgum árum, hafði eldað súpu á hlóðum í stórum potti, klæddi sig þó fyrst upp á eins og tröllskessa og svo þegar fólkið hennar kom niður í Gjánna þá stökk hún út úr einum skútanum, skessuleg og sæt með tilbúna súpu fyrir liðið. desktop_001.jpg
Ákvað að kíkja við í Ljóta Polli sem er langt frá því að vera ljótur. En . . . nú var ég að hugsa um að hætta við! Stærðar skarð í veginum. Ég setti í fjórhjólið og hugsaði að svona smá hnökri gæti nú ekki staðið í vegi fyrir mér, sá hvar ég gæti fikrað mig yfir og upp komumst við. Túristunum leist ekki of vel á en vildu samt ég reyndi. Ljóti Pollur var litríkur en rokið þarna uppi þvílíkt að allir voru fljótir að koma sér aftur inn í bílinn Rigning í Landmannalaugum og enginn nennti einu sinni að ganga yfir að lauginni. Dómadalur til baka. Einhver bílstjóri hafði sagt mér að Landmannaleiðin væri öll orðin brúuð og greið leið – en það var fyrir 2 eða 3 vikum og margt breytist víst á þeim tíma. Nokkuð um þvottadesktop_025.jpgbretti – hvað tröllin hljóta að geta notfært sér þessi þvottabretti á íslensku vegunum – það hlýtur allt að vera afskaplega hreint hjá tröllum vorum. Og lækirnir, þeir voru að leika ár. Komumst klakklaust alla leið til Reykjavíkur og ég komin heim um 6:30 þetta kvöldið, nokkuð gott.
Gullhringur á mánudegi. Ég fékk eiginmanninn til að keyra í þetta sinn, var bara leiðsögumaður sjálf, sem er ágætt.  Hífandi rok við Gullfoss og Geysi, en við Faxa bara logn. Crinaria og Mänhe á þeirra tungum. Einhver var að spá miklum jarðskjálfta í kvöld um eða fyrir miðnætti. Mikið var gott að enginn skjálfti kom.
desktop_107.jpg28. júlí. Snæfellsnesið er framundan í dag. Svo yfir að Búðum þar sem ég sagði auðvitað frá ýmsu, þar á meðal þessum 18 brúðkaupsgestum sem ég hafði verið með fyrir nokkrum árum. Fegurðin þarna þann daginn var töluvert meiri en í dag, smá snjór hafði verið yfir öllu, Nóvembersólin lágt yfir og kastaði þessum fagurbleika, óraunverulega blæ yfir allt. Í dag er bara rigning og rok. Gengum upp í Rauðfeldargjá, sælusvipur á einhverjum – þetta er fallegt (já, en veðrið??? – skiptir ekki máli). Ég dró upp mína brúsa með heitu vatni til að koma hita í liðið og þá var allt gott aftur, hægt að ganga á Arnarstapa, Djúpalónssandi og Helgafellið gengið í réttum gír, gott að ekkert þeirra átti tengdamömmu – þá er minni hætta á að hugsa illt. Stykkishólmur er svefnstaður okkar.
Ég svaf eins og steinn og um morguninn var komin blíða, logn en skýjað. Ég byrjaði á að taka olíu á bílinn og svo yfir á heimagistingu Ölmu til að ná í þau hin. Þar var fuglasöngurinn yndislegur, sléttur sjór við túnjaðarinn hjá þeim, sjávarilmurinn einstakur. Þetta er nú út af fyrir sig forréttindi að búa á svona stað! Skógarströndin, svo sem ekki vondur vegur, en drullan á bílnum hrikaleg. Svo Laxárdalinn, ég kveið fyrir heiðinni þar upp af en mér til mikillar gleði var vegurinn yfir Laxárdalsheiðina mjúkur, bara nokkuð góður og ekki drullugur. Stopp í N1 Staðarskála, svo yfir að Reykjum á hákarlasafnið – gott safn. Blönduós, ógeðslega vondur matur eða ég kannski ekki svöng.
desktop_112.jpgOg þá erum við komin yfir Öxnadalinn á leið inn á Akureyri og klukkan rétt að nálgast fjögur. Inn á Gulu villuna og nú þarf ég að kaupa mér skó. Maðurinn minn gleymdi að setja skóna mína í bílinn áður en ég fór! Er ekki gott að geta kennt einhverjum  öðrum um gleymsku???
2 nætur á Akureyri. Ætlunin er að fara í Jólahúsið, en Ítalirnir vilja fara í hvalaskoðun. Við þeystum yfir til Hauganess, en þar sögðu þeir okkur að ekki hefði sést neinn hvalur í morgun og veðrið væri þannig að ekki myndi sjást neitt, hvorki fugl, fiskur né hvalur. Aftur til Akureyrar, Jólahúsið skoðað en ekki mikið keypt – þeim fannst flest of dýrt. Svo yfir á Flugsafnið – tvö í hópnum með flugdellu svo þetta var ágætis ferð. Þá er að fylla bílinn fyrir daginn á morgun.
desktop_139.jpgFrá Akureyri í leiðinda veðri, súld, rok, 6°C. Og svo rigning . . . Goðafoss, túristunum líst afskaplega vel á þennan foss, ekki hægt annað þótt rigni. Við komum á Húsavík og ekki neitt útsýni, því miður. Ég reyni að segja þeim að hér  sé afskaplega fallegt. Phallus safnið opnar ekki fyrr en kl. 12:00 og það er dálítið of seint fyrir okkur, alveg eins og fyrir mánuði með Spánverjana. Hvalasafnið var opið og þau litu þar inn. Ég skoðaði kirkjuna í fyrsta skipti á ævinni. Aftur lagt í´ann yfir í Ásbyrgi, envið stoppuðum á leiðinni fyrir útsýnið, þ.e. lundinn vaggaði sér á sjónum fyrir neðan bjargið. Ásbyrgi alltaf heillandi, það var jafnvel erfitt að koma þeim í burtu, rigndi ekki og var næstum logn líka. Sandra E hafði dottið á fuglabjarginu og meitt sig í hné, en fór nú samt í göngu með okkur. Þá er það vegurinn yfir að Dettifossi (austan megin) – ekki góður, ekki eins góður og  Börkur leiðsögumaður sagði mér, en ég hitti hann á Goðafossi.
Mývatn! Komin hingað eftir bara sæmilegan Hólssand, ótrúlega mikill munur frá því fyrir mánuði. Hér fáum við góða þjónustu, snyrtileg gisting í Guesthouse Skútustaðir, skoðuðum gígana fyrir mat og svo matur á hótel Seli. Hlaðborð þar sem Valentina bragðaði á öllum íslensku réttunum okkur hinum til mikillar skemmtunar. Ég lét hana ekki vita af sviðasultunni fyrr en hún var búin að kyngja, þá sagði ég hvaðan parturinn af lambinu væri. Maturinn kom næstum upp úr henni aftur.
desktop_164.jpgÞað er svo margt að skoða á Mývatni, Höfði, Dimmuborgir, Grjótagjá þar sem einhverjir Þjóðverjar voru að baða sig naktir í 40°C vatninu – ótrúlegt lið. Jarðböðin, mmm, yndisleg. Stoppuðum þar í tvo tíma. Svo Hveraröndin og Leirhnúkasvæðið áður en við héldum yfir á Egilsstaði. Regnboginn á leiðinni náði alla leið, sterkir litir og fallegur. Café Nielsen um kvöldið og allir mjög ánægðir með matinn þar.

 

Egilsstaðir odesktop_184.jpgg nágrenni. Ansi þungbúið í dag. áfram hringinn í kringumm Löginn. Komum fyrst að Hengifossi og Litlanesfossi. Þau gengu öll af stað, en Þjóðverjarnir tveir gáfust upp áður en komið var að Litlanesfossi. Ítalirnir gengu áfram, þau gengu eins langt og þokan náði, sem var rétt áður en komið var að Hengifossi sjálfum. Hundblaut að bíl aftur. Þá inn að Skriðuklaustri, Valþjófsstað og síðan í Atlavík. Fékk hana Grýlu fyrir gott verð í Héranum í Hallormsstað, Shani vinkona mín í NZ verður Grýlu fegin. Útnyrðingsstaðir, þeir eru með hestaleigu (kr. 3500). Við þangað. Ég rambaði á staðinn eins og ég hefði aldrei gert neitt annað en að keyra þangað. Var samt ekki vel merkt. Engir gallar til á liði og ég hálf  smeyk við að bíllinn muni lykta eftir hestaferð í eigin fötum. Hm! Ekki góð auglýsing fyrir leiguna.
Austfirðir, rigning, lágskýjað þar til við komum á Djúpavog. Þá komið ágætt veður, en ekki var samkomulag um að fara í siglingu, enda tekur sigling um 4 tíma. Á Höfn fengum við okkur humarveislu allir nema Sandra E, sem hryllir sig við tilhugsun um fisk, skelfisk eða annað sjávarmeti. Ítalirnir vilja prófa allt! Sandra N ekki mjög áræðin í mat. Svo ekið í vestur meðfram fallegum jöklunum. Heillandi svæði. Komum í Gerði, sem er gisting við Hala í Suðursveitinni, hentum inn töskunum og svo beint í siglingu á Jökulsárlóni. Gott að við gerðum þetta í dag í góðu veðri, veðrið daginn eftir ekki gott. Eftir matinn á Þórbergssetrinu fór ég áfram yfir veginn til að skoða steininn, sem skorinn hefur verið í þrennt til minningar um bræðurna á Hala, Þórberg og tvo bræður hans.  Á steininum stendur eitthvað á þessa leið: Ætli þúsund ár hjá steini sé ekki eins og þúsund mínútur hjá manni – þarf að skoða þetta nánar þegar ég kem hér í september.
Yfir Mýrdalssand var ekki huggulegt að aka í þetta sinn, hífandi rok og enginn sagði orð í bílnum, ekki að það væri eitthvað nýtt. Rokhviðurnar tóku vel í bílinn og eftirá sögðu þau mér að þau hefðu alveg eins búist við að bíllinn þeyttist út af veginum. Ókum alla leið í Ásgarð við Hvolsvöll, hreinlega paradís með ‚Hans og Grétu‘ húsum. Við vorum öll í góðu skapi yfir að vera í svona huggulegu umhverfi, trén og allur gróðurinn í kringum litlu sætu húsin!
desktop_708.jpgOg þá er síðasti dagurinn okkar í hringferð. Ókum til baka alla leið í Reynisfjöru og enn er hífandi rok í Mýrdalnum. Um leið og við komum fram hjá Skógafossi byrjaði rokið og rigningin. Við fórum þó niður í fjöru í Reynishverfi og það var svo sem ekki alveg eins rosalegt rok og uppi við fjallsræturnar. Lundinn var í essinu sínu í hlíðinni fyrir ofan Hálsnefshellana og allir túristarnir í fjörunni stóðu bara og horfðu á lundann. Og þá er að aka beint til Reykjavíkur þegar fossarnir eru búnir – Seljalandsfoss, Gljúfrabúi og Skógafoss. Satt að segja fékk Gljúfrabúi meiri athygli en aðrir fossar, sem ansi oft er staðreyndin. Og til Reykjavíkur komum við um kl. 15:00.


Soroptimistar = bestu systur

Í vor var ég beðin um að vera leiðsögumaður með hóp af Soroptimistum, félagsskapur kvenna í hinum ýmsu atvinnustéttum. Þær hafa stutt góð málefni, m.a. Krýsuvíkursamtökin. Í staðinn fyrir að selja servíettur og kerti eða klósettpappír og berjatínur þá hafa systurnar í íslenska Soroptimistaklúbbnum sett saman ferð um Ísland, auglýst á vef samtaka hinna Alþjóðlegu Soroptimista og ágóðinn farið í góð málefni. Að þessu sinni komu 26 manns frá ýmsum löndum Evrópu: 2 frá Danmörku, 7 frá Póllandi, 9 frá Þýskalandi, 3 frá Sviss, 4 frá Portúgal, 1 frá Ástralíu. Meirihluti hópsins konur, eins og venja er á ferðalögum. Ótrúlegt hvað konur eru fúsar til ferðalaga.

dsc03085.jpgFyrsti dagur okkar saman var á Snæfellsnesið. Oftast á ferðum mínum reyni ég að koma við í Skallagrímsgarði, en í dag var tíminn of naumur og einungis hægt að stoppa á Borg í stutta stund. Síðan ekið áfram Vatnaleiðina og vegna þess að veðrið var svo einstaklega fallegt þá stoppuðum við á leið niður norðan megin. Útsýnið frábært yfir Berserkjahraunið og Breiðafjörðinn. Við nutum þess að borða nesti þarna við veginn innan um sexstrenda dranga, sem hefur verið breytt í borð og stóla. Þá fórum við yfir í Stykkishólm, litum á sýningu Roni Horn, sem er sérkennileg í meira lagi. Við áttum pantaða siglingu kl. 13:30 frá Stykkishólmi um Breiðafjörðinn. Veðrið var einstaklega fallegt, logn en skýjað að mestu þegar við komum út á fjörðinn. Maturinn um borð í skipinu alveg frábær, fyrst nýveiddur skelfiskur beint úr sjónum og svo hlaðborð niðri. Fjölmiðlar eru búnir að fjasa svo mikið um heljarinnar umferð inn og út úr Reykjavík svo við vorum orðin stressuð á að umferðin í bæinn um kvöldið yrði hryllileg. Það var varla hægt að tala um umferð til Reykjavíkur!

Þá kom mánudagur og nú var farinn rúntur um Reykjavík og því næst í Læknaminjasafnið á Seltjarnarnesi. Ein af systrunum íslensku er lyfjafræðingur, hún og aðrar systur í klúbbnum undirbjuggu komu útlendinganna í safnið, móttaka með hádegisverði og svo ferð um safnið sjálft. Þá var ekið í miðbæinn þar sem hjörðinni var sleppt lausri til kl. að verða 4, þau áttu móttöku eftir 4 í Byggðasafninu í Hafnarfirði. Þar sem hópurinn gisti í Flensborgarskóla þá var ég laus seinni partinn, var boðin í hóf til að kveðja vinnufélaga kl. 4.

dsc03075_875667.jpgOg nú er það toppurinn á ferðinni: Landmannalaugar og Þórsmörk! Veðrið lofar góðu, nærri því of hlýtt – þetta getur ekki verið Ísland, segja ferðalangarnir okkar. Getur verð að við höfum lent í öðru landi? Hitinn yfir 20 stig! Fyrsta stopp á Eyrarbakka, ekið þar um meðal gamalla húsa og svo á Selfoss þar sem fólki gefst kostur á að kaupa sér vatn áður en haldið er inn í land. Reyndar bauð ein systirin heim í bústaðinn sinn rétt við Þrastaskóg. Þar eru trén svo há að ekki komst einu sinni lítil gola til að kæla okkur. Loks haldið af stað, en leiðsögumaður ekki nógu vakandi og við komin fram hjá afleggjaranum inn í Þjórsárdal. Bílstjórinn taldi sig nú aldeilis þekkja leiðina, hafði farið í Landmannalaugar nokkrum sinnum á ári sl. 50 ár, en aldrei komið í Gjána og fór því ekki Þjórsárdalinn. Þetta kostaði smá útúrdúr, en við komumst þó að Hjálparfossi og inn í Gjánna, sem skartaði sínu fegursta í sól og sumaryl. Sagan um Margit Sandemo að leika tröll í Gjánni vekur kátínu. Þarna bjóða hinar íslensku bestu systur upp á brennivíndsc03083.jpg og harðfisk innan um hvönn og birki – gæti ekki íslenskara verið! Kaffi og kökur bíða svo á brún Gjárinnar. Og enn höldum við af stað, nú sem leið liggur í Landmannalaugar. Ljóti Pollur verður víst ekki viðkomustaður í dag þar sem við erum orðin dálítið sein, klukkan að verða 7 að kvöldi. Skálinn tilbúinn fyrir okkar fólk, á meðan matur er undirbúinn fer hluti af hópnum í gönguferð upp á fjall og aðrir í laugina heitu. Lítill fugl sat í makindum í marglitum vatnagróðri. dsc03095.jpgDagur að kveldi kominn . . .

Fjallabaksleið nyrðri – síðast þegar ég fór þá leið var útsýnið um 50 cm fram fyrir bílinn, nú var útsýn til allra fjalla í allar áttir og við bara urðum að stoppa af og til fyrir myndatökur. Þetta er hreint ótrúlegt landslag með öllum sínum litum og snjó. Á einum stað var enn örlítil snjóbrú. Ekkert gerði til þótt vegurinn væri slæmur, bætti bara á ímyndina um fjallaferð. dsc03090.jpgBílstjórinn fann þó afskaplega til með bílnum. Við ókum inn í Eldgjá, en þar sem löng leið var framundan gátum við ekki rölt um. Áfram ekið í Hólaskjól þar sem tæknistopp fór fram, þurftum að borga fyrir þá tækni en auðvitað þarf að halda við slíkri tækni á fjöllum og við því meira en viljug að borga. Og loks komum við í siðmenninguna í Vík. Fengum okkur smá nesti þar úti við og þá farið í minjagripina. Það er svo mikið keypt af minjagripum í ár að þau hjá Víkurprjóni hafa ekki undan að fylla á. Nú er tíminn enn að hlaupa frá okkur, en ekki er hægt að keyra fram hjá Reynisfjöru án þess að stoppa. Það gerum við, en aðeins í um 20 mínútur, sem urðu að sjálfsögðu að 30 mínútum. Þó var örlítil rigning og ekki sást yfir í Dyrhólaey. Ekkert stopp hjá Skógarfossi, Seljalandsfoss verður að bíða til morguns. Færðin inn í Bása var með verra móti, allir smá lækir töldust til áa þennan daginn. Steinholtsáin var eins og fljót yfir að líta og nú þurfti að vanda sig. Einn reyndur fjallamaður, íslenskur, kallaður til fram í rútu til að meta aðstæður og hvar væri best að fara yfir. Bílstjórinn ekki alveg sáttur við það, en það leit svo miklu skemmtilegar út að kalla til þriðja mann til að meta ánna og þegar yfir kom klöppuðu allir í rútunni fyrir góðum akstri.

Í Þórsmörk var sól. Meðan hinar íslensku systur undirbjuggu grillið fóru flestir aðrir í gönguferðir um svæðið. Grillið var æðislegt, smá rauðvín með og eftir matinn var skemmtun. Hver þjóð átti að sýna dans eða söng eða segja sögu, hvað sem þeim datt í hug. Sú ástralska og nýja vinkona hennar frá Sviss settu saman kvæði um ferðina og upplifun sína af landinu.

Þá er kominn fimmtudagur og nú er ferðinni heitið á Gullfoss-Geysi. Stutt stopp við Faxa og þar höfðum við getraun um nafn fossins. Nú er að sjá hvort ég man nafnið á hinum ýmsu tungumálum;
Nesti á Gullfossi og fleiri minjagripir keyptir. Á Geysi ætluðum við aðeins að stoppa 30 mínútur, en það var engan veginn nógu langt stopp. Svo yfir heiðina til Þingvalla þar sem við gengum upp Almannagjá. Ein af Portúgölunum var yfir sig ánægð þegar hún áttaði sig á að Þingvellir væru á WHO lista dsc03109.jpgSameinuðu Þjóðanna – hún og sonur hennar reyna að komast á WHO staði í öllum löndum, sem þau heimsækja. Dagur að kvöldi kominn, fagurt til fjalla og allt það, en allar góðar ferðir enda of fljótt. Komum til Hafnarfjarðar kl. 19:30, þreyttur og ánægður hópur. Daginn eftir var frí hjá ferðalöngunum, en ég þurfti að taka á móti hópi af Norðmönnum seinni part dagsins – það er víst önnur saga.

Laugardagur og nú er Bláa Lónið fyrst á dagskrá. Við ætluðum að fara Reykjanesið fyrst, en þar stóð yfir Rally og því varð Lónið að koma á undan – sem var bara frábært með bláum kokteil fyrir hádegi. Tvær af Portúgölunum vildu ekki fara í lónið af því það rigndi. Ojæja, hafiði það eins og þið viljið. Þá var búið að opna Krýsuvíkurleiðina, skólinn heimsóttur þar sem Soroptimistasysturnar íslensku hafa stutt skólann með framlögum og nú var það skólinn sem tók á móti með bragðgóðri sjávarréttasúpu og heimabökuðu brauði. Enn rignir, en við látum okkur hafa það að kíkja út úr bílnum við Seltún. Hverasvæðið er svo blautt að enginn stoppaði lengi og svo áfram í átt að Hafnarfirði. Þegar við komum út úr fjallgarðinum hafði ekki rignt dropa, sólin skein og bílstjórinn gat þrifið drulluna af spelgum og hliðarrúðu áður en komið var í umferð. Við trönurnar urðum við að stoppa aðeins, allt fullt af fiskhausum, sem hljóma eins og bestu vind-pípur eða bjöllur. Við höfum ekki gott orð yfir þetta á íslensku, einhverjar tillögur?

Og þá er að kveðja! Einu sinni enn . . . . ég fer nú að verða góð í að kveðja skemmtilegt fólk, en þar sem margir gáfu mér tölvupóstföng sín og aðrir báðu um mitt þá vonast ég til að ég hitti einhverja af þeim einhvers staðar aftur.

Hringferð með Spánverja

8. júní rann upp, einn hópur að koma um kl. 9 að kvöldi. Ég hafði skilað Hollendingunum af mér um miðnætti kvöldið áður og náði að slaka á áður en næsti hópur kom. Nú eru það Spánverjar! Síðasti hópur Spánverja með mér var fyrir 3 árum og gerði mig ekki sérlega bjartsýna á þennan hóp. Að vísu eru þetta 7 manns og engin veikindi í minni fjölskyldu, sem litaði alla ferðina fyrir þremur árum. Þessi hópur reyndist vera 6 konur og einn karl. Konurnar eru vinkonur, sem ferðast oft saman. Í þetta sinn fékk einn eiginmaðurinn náðarsamlegast að fylgja með, sem var ekki skv. vana. Málið var að þegar hann heyrði að þær ætluðu til Íslands þá bað hann svo fallega um að fá að koma með, hann hafði alltaf langað til Íslands. Svona eftirá að hugsa held ég hann hafi fengið óskina uppfyllta með því skilyrði að sitja aftast í rútunni og steinþegja. Nú er ég að búa til, en engin saga er skemmtileg nema örlítið krydduð. 

faxi.jpg9. júní: Fyrsti dagurinn var svo Gullni Hringurinn. Fyrst þurfti að fara í banka og bakarí. Þau voru sem sagt með hádegismat fyrir alla dagana með sér, þurftu bara að kaupa brauð.

Komum til Þingvalla og þá skýjað, en milt veður. Þau gengu niður að Flosagjá, tóku fallegar myndir. Hringurinn gekk vel og fossarnir tveir (Gullfoss og Faxi) reyndust gífurlegt aðdráttarafl. Þegar í bæinn kom renndi ég við í 66°N búðinni í Skeifunni, flestir vildu fá sér ekta íslenska hlýja flík. thingvellir.jpg

10. júní: Daginn eftir kom ég um kl. 9 að sækja þau og nú voru þær stúlkurnar heldur betur búnar að dressa sig upp í íslenskan fatnað, Zo-on, Cintamani og 66°N. Veðrið algjörlega frábært, heiður himinn og hlýtt – eða næstum því hlýtt fyrir Spánverja. Ég á ermalausum bol, en þau öll í flíspeysum. Fyrsta stopp var í Skallagrímsgarði í Borgarnesi og þaðan yfir að Borg, bara til að fá gott útsýni yfir fjöllin og Borgarnes. Nokkuð oft á leiðinni til Akureyrar var ég beðin um að stoppa bílinn svo þau gætu tekið myndir, allt svo heillandi. Á Blönduósi fengum við okkur hádegismat á tjaldsvæðinu, kyrrð og fallegt. Komum á Akureyri um kl. 17:00, inn á gistiheimilið Gulu Villuna þar sem vel var tekið á móti okkur. Þau nýttu kvöldið vel, fóru á góðan veitingastað og gengu sig upp að hnjám um allan bæ.
borg.jpg
11. júní: Þá er strangur dagur framundan. Á Húsavík gengum við um, rákumst á ‘Phallus Museum’, en það var ekki opnað fyrr en kl. 12:00 svo ekki fórum við inn. Ásbyrgi alltaf sérlega fallegt og rauðhöfðaendur synda í kyrri tjörninni. Dettifoss ægilegur að vanda, en verst var þó að þurfa að keyra Hólssandinn – sá var eitt þvottabretti frá Dettifossi yfir á Hringveg 1! Ég þakka fyrir að bíllinn hristist ekki algerlega í sundur og að missa BARA einn hjólkopp á leiðinni var kraftaverk. Festingar koppsins brotnuðu undan álaginu. Vonandi verður vegurinn orðinn betri næst þegar ég fer þessa leið. Gistum að Eldá á Mývatni. Eftir matinn fórum við í göngu, litum inn í kirkjuna, fallegt kvöld þótt skýjað væri.

matur.jpg12. júní: Kalt í dag, en ekki rigning. Ótrúlega lítið af flugu á Mývatni, en Spánverjarnir fundu það þó út að ég lét þau labba ein ef mikið var um flugu, en fór með þeim þar sem ég vissi að væri lítið um flugu! Maður er svo gegnsær! Skútustaðagígarnir eru auðvitað létt gönguleið og þarf ekki leiðsögumann í það, en Dimmuborgir geta verið erfiðar og ekki rétt að láta ókunnuga ganga eina um án aðgæslu. Svo litum við í Jarðböðin. “Hérna viljum við vera langt fram á kvöld”, en það er ekki hægt – við þurfum að komast til Egilsstaða í dag. Hverasvæðið líka eftir áður en haldið er yfir til Egilsstaða. Gistihús Olgu er okkar næturstaður, mátulegt fyrir 8 manns. Að vísu voru einhverjir tveir menn með gistingu í kjallaranum og þeir sprönguðu um hálf naktir, en það var bara bónus. Ekki amalegt að hafa tvo karla fyrir þessar tvær ógiftu í hópnum, sögðu þau mér. Bara hlátur út úr þessu og svo að finna veitingastað.

endur.jpg

13. júní Rigning! Á leið um Fagradal ílir bíllinn og segir mér að nú geti hugsanlega verið ísing á veginum. Hitastigið fór þó örlítið hækkandi. Fórum inn á Reyðarfjörð og Fáskrúðsfjörð. Þarna vakti athygli götunöfnin, bæði á íslensku og frönsku. Tvær í hópnum eru franskar í aðra ættina, svo þetta þótti skemmtileg uppákoma. Áfram rigning. Á Stöðvarfirði vildu þau skoða safnið hennar Petru. Ég elska að koma þarna við, litadýrðin í garðinum og allir fallegu steinarnir. Ég verð alltaf jafn ánægð þegar mínir túristar vilja stoppa þarna. Í Berufirði er stór kafli ómalbikaður, vegurinn ein drulla og bíllinn orðinn eitt moldarstykki þegar við renndum inn á Djúpavog. Ég bað mitt fólk að fá sér göngutúr um bæinn, þótt rigndi, á meðan ég þreif bílinn að utan og fyllti á tankinn. Áfram rigning og engin fjallasýn á öllum Austfjörðum, ansi svekkjandi fyrir mig að geta ekki sýnt fegurðina hérna. Næsti viðkomustaður er Höfn. Nú var orðið ansi kalt úti. Ég hringdi á Humarhöfnina til að athuga hvort við gætum komið í hádegismat, ókum svo inn í göngin við Almannaskarð í rigningu, en ókum út úr göngunum og þá skein sól!
Humarmáltíðin frábær og við mett og í fínu formi til að halda áfram með jöklasýn svo mikla að ekki var hægt að trufla útsýnið með einhverju blaðri. Hversu margir eru skriðjöklarnir frá Vatnajökli? Aldrei fengið þessa spurningu fyrr!
Komum að Gerði á góðum tíma, farangur settur inn á herbergin og svo fórum við aftur af stað yfir á Jökulsárlón. Við áttum pantaða siglingu um lónið, sem var frábær. Ótrúlegir skúlptúrar út um allt lón, þetta er Gallerí Náttúra segi ég mínum túristum.
Kvöldið að Gerði ótrúlega fallegt, umgjörðin um sveitina er svo ótrúlega falleg. Næstum ólýsanleg.

ger_i.jpg14. júní – SÓL! Fegurðin er þvílík að ekki er hægt annað en að dansa og það gerðu Spánverjarnir mínir. Ókum inn í Skaftafell, en ég varð bara að stoppa annað slagið á leiðinni til að mynda útsýnið, alla jöklana, dýrðina. Þau gengu upp að Svartafossi og voru aðeins 1 klst. fram og til baka. Áfram yfir á Kirkjubæjarklaustur þar sem keypt var brauð. Undarlegt veður, ókum inn í skýjafláka með hellidembu og svo var eins og lína dregin á götunni og sólin skein aftur. Matarstopp í Vík og minjagripastopp líka. Reynisfjara næst með sínum hellum og ‘þæga’ sjó – hann var þægur þennan daginn. Svo Skógarfoss og Seljalandsfoss. Suðurströndinni gerð allt of lítil skil þar sem fólkið vildi komast á Humarhúsið í kvöldmat. Hringferð lokið og aftur sit ég uppi með að kveðja gott fólk en hef þó góðar minningar og myndir.

godafoss.jpg  matur_i_sol.jpg


Hollendingar í stuði

4917_1104631810005_1053039075_30285008_2131686_n.jpgSnemma í vor hafði kona frá Hollandi samband og vildi athuga með ferðir fyrir sig og enhverja fleiri. Sagðist vera með hóp af vinum, svona 16 manns. Endanleg tala hópsins varð 25. Þar sem undirrituð hefur ekki vit á íþróttum þá kom aldrei upp í hugann að hópurinn væri tengdur fótbolta. Í síðasta tölvupósti frá Desirée lét hún mig vita að um fótbolta 'fan'klúbb væri að ræða frá Margraten í Hollandi, en sagði ennfremur að ég þyrfti ekki að óttast að þau yrðu með læti. Ég sagði henni að koma endilega með fána frá liðinu til að skreyta bílinn. Mikil stemning var í hópnum þegar ég og bílstjóri sóttum hópinn um miðnætti þ. 4. júní. Og svo var lagt af stað í Gullna Hringinn þ. 5. júní. Allir í hópnum í rauðgulum fötum! Afskaplega áberandi - reyndar í öllum stoppum sást fátt annað en rauðgulir Hollendingar!Margraten klúbburinn skreytti rútuna með fánum og borða með nafni liðsins MARGRATEN.

Allt gekk vel þar til við áttum 20 km eftir til Reykjavíkur! Þvílík fýla gaus upp. Við öll út úr rútunni því reykur var mikill út frá öðru afturhjólinu. Nú voru góð ráð dýr, hringt eftir hjálp en engar rútur fáanlegar - allar rútur á ferðinni með Hollendinga! Hringt á verkstæði - jú, haltu bara áfram, þetta lýsir sér eins og eitthvað í bremsunum og er sennilega í lagi. Það stóðst, allir keyrðir á hótel og allt í góðu lagi (næstum, nema hjartað í mér, sem var í hálsinum á þessu augnabliki), ekið beint inn á verkstæði. Gott að engin ferð var þ. 6. júní því þá var landsleikurinn Holland/Ísland (sem Hollendingar unnu víst).

Rútan komin í gagnið aftur þ. 7. júní - eins gott því þá er langur dagur á Suðurströndinni. Það stóðst og við sóttum hópinn á hótel upp úr kl. 10. Sumir fremur framlágir eftir langa og erilsama nótt og einhver lagði sig í aftasta sætið. Hann var reyndar orðinn hinn hressasti þegar við loks komum í Vík. Víkurprjón var vinsælt hjá mínu fólki og rútan orðin nokkuð full af alls kyns minjagripum þegar við komumst frá Vík. Reynisfjara alltaf frábær og þar tók ég mynd  af hópnum. Ekki hægt að trúa því að sjórinn hér geti verið göróttur þegar varla bærist alda við ströndina. Glettni sjórinn hér! 

Upp úr kl. 8 að kvöldi komum við svo í Bláa Lónið, frábær afslöppun í lok góðrar ferðar áður en hópurinn átti að fara í flug um miðnætti. Afskaplega var gaman að kynnast þessum Hollendingum. Vonandi sjáumst við aftur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Guðbjörg Bragadóttir

Höfundur

Guðbjörg Bragadóttir
Guðbjörg Bragadóttir

Leiðsögumaður

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • 20130921 114851
  • ...19ipqmm
  • ...24sppkn
  • ...15zgqui
  • ...13joqio

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband