Soroptimistar = bestu systur

Í vor var ég beðin um að vera leiðsögumaður með hóp af Soroptimistum, félagsskapur kvenna í hinum ýmsu atvinnustéttum. Þær hafa stutt góð málefni, m.a. Krýsuvíkursamtökin. Í staðinn fyrir að selja servíettur og kerti eða klósettpappír og berjatínur þá hafa systurnar í íslenska Soroptimistaklúbbnum sett saman ferð um Ísland, auglýst á vef samtaka hinna Alþjóðlegu Soroptimista og ágóðinn farið í góð málefni. Að þessu sinni komu 26 manns frá ýmsum löndum Evrópu: 2 frá Danmörku, 7 frá Póllandi, 9 frá Þýskalandi, 3 frá Sviss, 4 frá Portúgal, 1 frá Ástralíu. Meirihluti hópsins konur, eins og venja er á ferðalögum. Ótrúlegt hvað konur eru fúsar til ferðalaga.

dsc03085.jpgFyrsti dagur okkar saman var á Snæfellsnesið. Oftast á ferðum mínum reyni ég að koma við í Skallagrímsgarði, en í dag var tíminn of naumur og einungis hægt að stoppa á Borg í stutta stund. Síðan ekið áfram Vatnaleiðina og vegna þess að veðrið var svo einstaklega fallegt þá stoppuðum við á leið niður norðan megin. Útsýnið frábært yfir Berserkjahraunið og Breiðafjörðinn. Við nutum þess að borða nesti þarna við veginn innan um sexstrenda dranga, sem hefur verið breytt í borð og stóla. Þá fórum við yfir í Stykkishólm, litum á sýningu Roni Horn, sem er sérkennileg í meira lagi. Við áttum pantaða siglingu kl. 13:30 frá Stykkishólmi um Breiðafjörðinn. Veðrið var einstaklega fallegt, logn en skýjað að mestu þegar við komum út á fjörðinn. Maturinn um borð í skipinu alveg frábær, fyrst nýveiddur skelfiskur beint úr sjónum og svo hlaðborð niðri. Fjölmiðlar eru búnir að fjasa svo mikið um heljarinnar umferð inn og út úr Reykjavík svo við vorum orðin stressuð á að umferðin í bæinn um kvöldið yrði hryllileg. Það var varla hægt að tala um umferð til Reykjavíkur!

Þá kom mánudagur og nú var farinn rúntur um Reykjavík og því næst í Læknaminjasafnið á Seltjarnarnesi. Ein af systrunum íslensku er lyfjafræðingur, hún og aðrar systur í klúbbnum undirbjuggu komu útlendinganna í safnið, móttaka með hádegisverði og svo ferð um safnið sjálft. Þá var ekið í miðbæinn þar sem hjörðinni var sleppt lausri til kl. að verða 4, þau áttu móttöku eftir 4 í Byggðasafninu í Hafnarfirði. Þar sem hópurinn gisti í Flensborgarskóla þá var ég laus seinni partinn, var boðin í hóf til að kveðja vinnufélaga kl. 4.

dsc03075_875667.jpgOg nú er það toppurinn á ferðinni: Landmannalaugar og Þórsmörk! Veðrið lofar góðu, nærri því of hlýtt – þetta getur ekki verið Ísland, segja ferðalangarnir okkar. Getur verð að við höfum lent í öðru landi? Hitinn yfir 20 stig! Fyrsta stopp á Eyrarbakka, ekið þar um meðal gamalla húsa og svo á Selfoss þar sem fólki gefst kostur á að kaupa sér vatn áður en haldið er inn í land. Reyndar bauð ein systirin heim í bústaðinn sinn rétt við Þrastaskóg. Þar eru trén svo há að ekki komst einu sinni lítil gola til að kæla okkur. Loks haldið af stað, en leiðsögumaður ekki nógu vakandi og við komin fram hjá afleggjaranum inn í Þjórsárdal. Bílstjórinn taldi sig nú aldeilis þekkja leiðina, hafði farið í Landmannalaugar nokkrum sinnum á ári sl. 50 ár, en aldrei komið í Gjána og fór því ekki Þjórsárdalinn. Þetta kostaði smá útúrdúr, en við komumst þó að Hjálparfossi og inn í Gjánna, sem skartaði sínu fegursta í sól og sumaryl. Sagan um Margit Sandemo að leika tröll í Gjánni vekur kátínu. Þarna bjóða hinar íslensku bestu systur upp á brennivíndsc03083.jpg og harðfisk innan um hvönn og birki – gæti ekki íslenskara verið! Kaffi og kökur bíða svo á brún Gjárinnar. Og enn höldum við af stað, nú sem leið liggur í Landmannalaugar. Ljóti Pollur verður víst ekki viðkomustaður í dag þar sem við erum orðin dálítið sein, klukkan að verða 7 að kvöldi. Skálinn tilbúinn fyrir okkar fólk, á meðan matur er undirbúinn fer hluti af hópnum í gönguferð upp á fjall og aðrir í laugina heitu. Lítill fugl sat í makindum í marglitum vatnagróðri. dsc03095.jpgDagur að kveldi kominn . . .

Fjallabaksleið nyrðri – síðast þegar ég fór þá leið var útsýnið um 50 cm fram fyrir bílinn, nú var útsýn til allra fjalla í allar áttir og við bara urðum að stoppa af og til fyrir myndatökur. Þetta er hreint ótrúlegt landslag með öllum sínum litum og snjó. Á einum stað var enn örlítil snjóbrú. Ekkert gerði til þótt vegurinn væri slæmur, bætti bara á ímyndina um fjallaferð. dsc03090.jpgBílstjórinn fann þó afskaplega til með bílnum. Við ókum inn í Eldgjá, en þar sem löng leið var framundan gátum við ekki rölt um. Áfram ekið í Hólaskjól þar sem tæknistopp fór fram, þurftum að borga fyrir þá tækni en auðvitað þarf að halda við slíkri tækni á fjöllum og við því meira en viljug að borga. Og loks komum við í siðmenninguna í Vík. Fengum okkur smá nesti þar úti við og þá farið í minjagripina. Það er svo mikið keypt af minjagripum í ár að þau hjá Víkurprjóni hafa ekki undan að fylla á. Nú er tíminn enn að hlaupa frá okkur, en ekki er hægt að keyra fram hjá Reynisfjöru án þess að stoppa. Það gerum við, en aðeins í um 20 mínútur, sem urðu að sjálfsögðu að 30 mínútum. Þó var örlítil rigning og ekki sást yfir í Dyrhólaey. Ekkert stopp hjá Skógarfossi, Seljalandsfoss verður að bíða til morguns. Færðin inn í Bása var með verra móti, allir smá lækir töldust til áa þennan daginn. Steinholtsáin var eins og fljót yfir að líta og nú þurfti að vanda sig. Einn reyndur fjallamaður, íslenskur, kallaður til fram í rútu til að meta aðstæður og hvar væri best að fara yfir. Bílstjórinn ekki alveg sáttur við það, en það leit svo miklu skemmtilegar út að kalla til þriðja mann til að meta ánna og þegar yfir kom klöppuðu allir í rútunni fyrir góðum akstri.

Í Þórsmörk var sól. Meðan hinar íslensku systur undirbjuggu grillið fóru flestir aðrir í gönguferðir um svæðið. Grillið var æðislegt, smá rauðvín með og eftir matinn var skemmtun. Hver þjóð átti að sýna dans eða söng eða segja sögu, hvað sem þeim datt í hug. Sú ástralska og nýja vinkona hennar frá Sviss settu saman kvæði um ferðina og upplifun sína af landinu.

Þá er kominn fimmtudagur og nú er ferðinni heitið á Gullfoss-Geysi. Stutt stopp við Faxa og þar höfðum við getraun um nafn fossins. Nú er að sjá hvort ég man nafnið á hinum ýmsu tungumálum;
Nesti á Gullfossi og fleiri minjagripir keyptir. Á Geysi ætluðum við aðeins að stoppa 30 mínútur, en það var engan veginn nógu langt stopp. Svo yfir heiðina til Þingvalla þar sem við gengum upp Almannagjá. Ein af Portúgölunum var yfir sig ánægð þegar hún áttaði sig á að Þingvellir væru á WHO lista dsc03109.jpgSameinuðu Þjóðanna – hún og sonur hennar reyna að komast á WHO staði í öllum löndum, sem þau heimsækja. Dagur að kvöldi kominn, fagurt til fjalla og allt það, en allar góðar ferðir enda of fljótt. Komum til Hafnarfjarðar kl. 19:30, þreyttur og ánægður hópur. Daginn eftir var frí hjá ferðalöngunum, en ég þurfti að taka á móti hópi af Norðmönnum seinni part dagsins – það er víst önnur saga.

Laugardagur og nú er Bláa Lónið fyrst á dagskrá. Við ætluðum að fara Reykjanesið fyrst, en þar stóð yfir Rally og því varð Lónið að koma á undan – sem var bara frábært með bláum kokteil fyrir hádegi. Tvær af Portúgölunum vildu ekki fara í lónið af því það rigndi. Ojæja, hafiði það eins og þið viljið. Þá var búið að opna Krýsuvíkurleiðina, skólinn heimsóttur þar sem Soroptimistasysturnar íslensku hafa stutt skólann með framlögum og nú var það skólinn sem tók á móti með bragðgóðri sjávarréttasúpu og heimabökuðu brauði. Enn rignir, en við látum okkur hafa það að kíkja út úr bílnum við Seltún. Hverasvæðið er svo blautt að enginn stoppaði lengi og svo áfram í átt að Hafnarfirði. Þegar við komum út úr fjallgarðinum hafði ekki rignt dropa, sólin skein og bílstjórinn gat þrifið drulluna af spelgum og hliðarrúðu áður en komið var í umferð. Við trönurnar urðum við að stoppa aðeins, allt fullt af fiskhausum, sem hljóma eins og bestu vind-pípur eða bjöllur. Við höfum ekki gott orð yfir þetta á íslensku, einhverjar tillögur?

Og þá er að kveðja! Einu sinni enn . . . . ég fer nú að verða góð í að kveðja skemmtilegt fólk, en þar sem margir gáfu mér tölvupóstföng sín og aðrir báðu um mitt þá vonast ég til að ég hitti einhverja af þeim einhvers staðar aftur.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Guðbjörg Bragadóttir

Höfundur

Guðbjörg Bragadóttir
Guðbjörg Bragadóttir

Leiðsögumaður

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • 20130921 114851
  • ...19ipqmm
  • ...24sppkn
  • ...15zgqui
  • ...13joqio

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband