Indverskar konur á ferð um landið

 

Geturðu verið leiðsögumaður með indverskar konur? Ferðaskrifstofueigandi spurði þessarar spurningar og auðvitað sagði ég já. Aldrei verið með Indverja áður og því spennandi að fá tækifæri til að kynnast þeim. Þær komu um miðnætti í byrjun mars. Ekki uppáhaldstími minn að fara á flugvöllinn að sækja fólk, en maður þarf víst að gera fleira en gott þykir. Eitt var þó jákvætt við komu svona seint, Norðurljósin svona líka glimrandi falleg á himninum! Þær komu til Íslands meðal annars til að upplifa Norðurljósin og að fá það tækifæri strax fyrsta kvöldið var bara gott – hélt ég. Þessar sex indversku konur voru víst eitthvað þreyttar eftir langt flug og sýndu ekki mjög mikinn áhuga á Norðurljósunum þetta kvöldið.

Daginn eftir var kalt. Reyndar hafði ekki verið svona kalt allan veturinn. Snjór líka og mínar dömur aðeins í sari og ilskóm. Reyndar voru tvær í sokkum og með trefla. Gullhringurinn var því ekki eins og venjulegur Gullhringur þar sem rokið og frostið léku sér  og hlógu að konum í sari. Engin þeirra fór út við Geysi.  Við Gullfoss fór ein út, þurfti næstum að skríða á fjórum fótum til að komast yfir klakabrynjuna við fossinn. Ég hjálpaði henni yfir verstu kaflana, hinar sátu inni í bílnum í hlýjunni og spjölluðu saman – eins og áður.

Mig grunar að þessar konur hafi ekki komið til Íslands til að njóta náttúrunnar heldur til að vera saman og skemmta sér. Þær höfðu takmarkaðan áhuga á sögu Íslands, enn minni áhuga á tröllasögum eða álfasögum.

Þessar konur áttu pantaðan kvöldmat öll kvöld vikunnar, sem þær dvöldu hér á landi, alltaf á indverskum veitingastöðum. Sem betur fór voru flestir staðirnir mjög nálægt hótelinu þeirra, en þar sem Kuldaboli hló enn og gustaði af honum meir en venjulega, þá fóru þær í leigubílum á veitingastaðina, líka þann sem er í fimm mínútna fjarlægð frá hótelinu. Eitt kvöldið sendu þær bara leigubíl eftir matnum í næsta húsi og buðu svo bílstjóranum að borða með sér ásamt fólkinu í lobbíinu. Allir kátir með það!

Svo kom snjóbylur daginn sem ég átti að fara með þær í Reykjavíkurrúnt. Ég hringdi á hótelið og bað um skilaboð til þeirra um að við yrðum að hafa rúntinn um Reykjavík daginn eftir vegna veðurs. Vildi forðast það að vera föst í snjóskafli á götum Reykjavíkur með þessar ekki mjög hlýlega klæddu konur.

Daginn eftir var fín færð, Reykjavíkurrúnturinn bara eins og á að vera og farið að rigna. Þær buðu mér með á veitingastaðinn um kvöldið og eftir mat var enn rigning. Þær spurðu hvort ég gæti ekki farið með þær í Norðurljósaskoðun. Ha? Þið eruð búnar að sjá Norðurljósin, ég var eitt spurningamerki. Já, en (svöruðu þær) þau ljós sem við sáum voru ekki eins og á póstkortunum, sem við höfum keypt!!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Það er ekki hægt að kaupa allt.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 8.10.2013 kl. 14:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Guðbjörg Bragadóttir

Höfundur

Guðbjörg Bragadóttir
Guðbjörg Bragadóttir

Leiðsögumaður

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • 20130921 114851
  • ...19ipqmm
  • ...24sppkn
  • ...15zgqui
  • ...13joqio

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband