New York og sigling til Bahamaeyjar

Síðasta sumar var ég leiðsögumaður með tvo hópa af blindum, þ.e. með hverjum blindum er alltaf einn sjáandi og þeir blindu eru kallaðir VIP-fólkið (=visually impaired). Þessir hópar eru yfirleitt ekki fleiri en 25 í hvert sinn. Hvert sumar undanfarin 8 ár hafa komið 1-2 hópar á ári til Íslands svo ég er farin að þekkja eiganda ferðaskrifstofunnar mjög vel þar sem hann kemur alltaf með. Amar heitir hann og hefur verið blindur síðan á unglingsárum þegar hann sprengdi hvellhettu í höndunum á sér og missti sjónina. Hann sér þó mun dags og nætur. Amar hefur alla tíða haft mjög mikla ánægju af að ferðast og fékk þá hugmynd að blindir gætu haft meiri ánægju af ferðum sínum um heiminn ef sjáandi útskýrði landslag og væri til aðstoðar á ferðalögunum. Sjáendur borga yfirleitt allt að helmingi minna fyrir ferðirnar með þessari ferðaskrifstofu, þeir eru jú í eins konar vinnu.

Í sumar með fyrri hópnum, sem kom, var góður andi meðal ferðafélaganna - eins og reyndar í öllum ferðunum. Ég og minn betri helmingur höfum alltaf haft ánægju af að fá þessa hópa og tekið þátt í að leiðbeina þeim blindu, ef á þurfti að halda. Þar sem venjulega eru langtum færri karlmenn í hópunum hefur minn betri helmingur iðulega farið með nokkra blinda í karlaklefa Bláa Lónsins þar sem svo fáir sjáendur af karlkyni hafa verið með. Ég sem leiðsögumaður tel ekki eftir mér að leiða blindan upp að Sólheimajökli eða bara hvert sem ég fer með mína hópa. Eftir sjö ferðir til Íslands með sína hópa hefur Amar 'séð' mig og minn betri helming vinna með hópana svo nú í sumar spurði hann hvort við tvö færum ekki stundum í frí út fyrir landsteinana. Jú, við höfum gaman af því - svaraði ég grunlaus. Þá spurði Amar hvort við Kristján værum ekki tilbúin til að koma sem sjáendur í siglingu um Karíbahafið í lok nóvember, byrjun desember. Það gæti verið gaman, svaraði ég af hógværð minni. Þar með bauð Amar mér og mínum að koma með í siglingu frá New York, hann vantaði tvo sjáendur í þessa ferð en aðeins einn hængur á: við verðum að kaupa sjálf flugið til New York, allt annað er í boði Amars. Þetta var handsalað í rútunni á leið til Reykjavíkur eftir vel heppnaða suðurstrandarferð. Ég var mest hrædd um að Amar sæi sig um hönd. En, ekki aldeilis! Hann sendi okkur allar upplýsingar svo við hjónin drifum í að endurnýja vegabréfin okkar, kaupa okkur flug til NY og ákváðum að dvelja 3 nætur aukalega í borginni, áður en hópurinn kæmi. Amar sá um að panta hótelið í NY og allt frágengið.

Stuttu fyrir brottför fengum við svo nöfn allra í hópnum og þá kom í ljós að meðal ferðafélaga okkar eru einhverjir, sem hafa verið í ferðum með okkur hér á Íslandi. Í hópnum núna eru 12 blindir (5 kk og 7 kvk) og 14 sjáendur (5 kk og 9 kvk). Á hverjum morgni er stuttur fundur með hópnum og þá er ákveðið hver leiðir hvern þann daginn. Þannig kynnast allir innan hópsins nokkuð vel þar sem'parað' er saman daglega. Þar sem fleiri sjáendur eru í hópunum fær sjáandi yfirleitt einn dag frí, en þó þannig að sá sjáandi verður til taks ef eitthvað kemur uppá. 

Og nú er von á hópnum á morgun. Við hjónin höfum verið að rölta um borgina í tvo daga, fara í búðir og líta á bari bara svona til að undirbúa komu hópsins. Í gær fórum við inn á mjög skemmtilegan bar, Heartland Brewery. Ekki alveg snuðrulaust að komast inn, minn betri helmingur varð nærri viðskila við töskuna í hringhurðinni, taskan fylgdi ekki með í inngöngu eigandans. 

Fundum góðan veitingastað um kvöldið, en æ, munum það næst að yfirleitt eru skammtarnir svo stórir að þeir henta tveimur eða jafnvel fleirum.

Í dag var svo Þakkargjörðadagurinn. Skrúðganga á götum borgarinnar í boði Macy's verslunarinnar. Löggur á hverju götuhorni og næstum hverju götuhorni lokað fyrir umferð bíla og í mörgum tilfellum gangandi vegfarendum líka bannað að fara um göturnar. 

Einn túristinn minn frá því í sumar bauð okkur hjónum að koma í Þakkargjörðaveislu til sín. Mjög notalegt af henni.  Við keyptum gjafir fyrir þessa stóru stund, en einfeldningarnir við áttuðum okkur ekki á því að hér þarf að kaupa sér far með lestinni nokkrum dögum fyrir brottför þennan Þakkargjörðadag ef þú vilt komast með lestinni. Allt uppselt! Þá er bara að skoða mannlífið á götunum i staðinn. Á Times Square var mikið um að vera og allar búðir komnar með 50-70% afslætti á vörum sínum svo þá er víst best að nýta daginn í jólagjafastúss. Kalkúnninn var góður á veitingastaðnum í kvöld.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Guðbjörg Bragadóttir

Höfundur

Guðbjörg Bragadóttir
Guðbjörg Bragadóttir

Leiðsögumaður

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 20130921 114851
  • ...19ipqmm
  • ...24sppkn
  • ...15zgqui
  • ...13joqio

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband