18.10.2012 | 11:01
Saga krossins
Einu sinni var fjölskylda, mamma, pabbi og tvö börn, stúlka og drengur. Þegar stúlkan var orðin 4ra ára og litli bróðir hennar rétt að verða eins árs kom í ljós að mamman var að fara að eignast þriðja barnið. Það barn átti að verða drengur líka, svarthærður og brúneygur drengur, alveg eins og Litli bróðir. Stóra systir var nærri ljóshærð og gráeyg.
Þegar mamman var búin að ganga með Kríli í sex mánuði var Stóra systir spurð hvort hún vildi eignast systur eða bróður. Hún hugsaði sig um andartak og sagði svo: "Ég á bróður, ég vil systur." Og málið var útrætt. Búmm, Kríli átti að verða strákur svo að nú voru góð ráð dýr og breyting átti sér stað í maganum á mömmu - stelpa var á leiðinni. Hún fæddist svo á Fullveldisdegi Íslands, en með þvílíkum látum að sjúkrabíll var fenginn til að flytja mömmu á spítalann. Veðrið var slæmt og fjölskyldan átti heima í nýju hverfi, enn í dag er þetta hverfi ekki auðfundið nema þeim sem til þekkja. Nema hvað, pabbi þurfti að ganga langa leið á móti sjúkrabíllnum svo sjúkraflutningamennirnir fyndu húsið. Stelpan fæddist svo stuttu eftir komu á spítalann. Hún virtist alveg í lagi við fyrstu sýn, dafnaði meira að segja vel, svaf eins og steinn alla daga og meira en hin börnin höfðu gert. Það þurfti ekki nema eina litla taubleyju yfir eyrað á þessu litla kríli til að það sofnaði. Krílinu var gefið nafn og allt virtist í fínu lagi. Tíminn leið og þetta Kríli, sem átti að vera brúneygur strákur, varð dökkhærð stelpa með - ó nei! Bara eitt grátt auga! Hitt hélt áfram að vera brúnt! Það tókst ekki að breyta augnlitnum fullkomlega þegar ákveðið var að þetta yrði stelpa en ekki strákur, að ósk Stóru systur. Ojæja, eitt brúnt auga - hitt var þó alla vega grátt eins og bæði augu Stóru systur.
En fleira hafði víst farið úrskeiðis við þessa skyndiákvörðun frá strák yfir í stelpu - mjaðmirnar. Mamman fann alltaf einhverjar óeðlilegar hreyfingar í mjöðmum Krílisins þegar hún skipti um bleyju á því - einhver óhljóð. Hún ræddi þetta við lækni og hjúkrunarkonur, sem sáu um venjubundnar sprautur. Allt hjúkrunarliðið sannfærði mömmuna um að allt væri í fína lagi - hún sefur eins og engill! Hvað gæti svo sem verið að? Mamma fann SAMT að eitthvað var að. Svo fór Kríli að ganga og þá var enginn vafi lengur, eitthvað var að mjöðmunum, mjaðmirnar voru ekki í lið. Krílið var sett á spítala og þar lá þetta litla grey í einhvers konar mjaðmastokk, sem átti að koma mjaðmakúlunum í rétta liði á ný. Mamman mátti ekki heimsækja Krílið sitt nema einu sinni í viku á spítalann - nunnurnar þar sáu til þess.
Pabbinn? Pabbar gráta ekki og til að forðast það að gráta fór pabbinn bara alls ekki á spítalann, hann hefði ekki getað annað en grátið og hvað er þá betra en að fara bara alls ekki á stað, sem lætur mann gráta.
Mamman sendi vinkonur sínar til að líta eftir Krílinu, sem svaf oftast rólegt með sína bleyju yfir eyranu. Stundum var Krílið með snuð, en oftast vantaði önnur börn á stofunni snuð og af því Krílið svaf fremur vært þá var snuðið bara tekið af því og önnur börn, órólegu börnin, látin hafa snuð Krílisins.
Nokkrir mánuðir liðu eða um 6 mánuðir og Krílið enn á spítala. Ekki náðist að setja mjaðmakúlurnar inn í liðina nema á hægri mjöðm. "Hér þarf skurðaðgerð" sagði læknirinn, sem var nýkominn úr námi frá Svíþjóð og vissi allt það nýjasta um aðgerðir og hjálp við sjúklinga. Krílið var sent heim í stuttan tíma, þurfti víst að kynnast mömmunni, pabbanum, Stóru systur og Litla bróður aðeins á ný áður en aðgerðin var gerð. Það var dálítið erfitt því allar nunnurnar á spítalanum voru danskar og töluðu aðeins dönsku við Kríli svo Krílið kunni ekki lengur íslensku, móðurmál sitt, bara dönsku. Svo var Krílið sent á spítalann aftur, grátandi eftir mömmunni sem aðeins mátti heimsækja Krílið sitt einu sinni í viku. Nú var aðgerðin undirbúin og þar kemur Krossinn til.
Á þessum spítala var settur kross um háls allra þeirra sem fóru í skurðaðgerðir og litla Kríli fékk sinn Kross um hálsinn. Síðan þá hefur Kross fylgt Krílinu, sem í dag er reyndar orðin mamma og líka amma. Kross er enn til, hefur að vísu brotnað, en nú er búið að laga hann. Hann prýðir elsta barnabarn litla Krílisins.
Um bloggið
Guðbjörg Bragadóttir
Færsluflokkar
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.