Færsluflokkur: Bloggar
1.12.2013 | 12:42
New York!
Dagurinn byrjaði með morgunmat, er það nokkuð nýtt? Óhemju stórir skammtar af pönnukökum, ommilettum og ýmsu fleiru. Við hjónin sjáum um blindu hjónin Irene og Tony alla morgna í morgunmat. Þægilegt þar sem þau eru í herbergi við hliðina á okkur. Eftir morgunmat er skipt um 'leikfélaga'. Ég fékk að leiða Ian í dag og Kristján leiddi Jane.
Fyrst var farið í rútuferð um Manhattan, stoppað í Central Park, við styttu af Lísu í Undralandi. Auðvitað stoppað við byggingu þar sem John Lennon og Yoko Ono bjuggu. Á einum stað fundum við listaverk sem var eins og tré-fólk að dansa í kringum tré. Mjög sérstakt. Svo áfram í ferjuna yfir til Staten Island. Allt gekk vel og næst tókum við lest yfir til Empire State. Við fórum í hraðlest, sem ÓÓÓ, stoppaði ekki fyrr en á 42. stræti. Við ætluðum út á 33. stræti. Vingjarnlegur maður í lestinni benti okkur á að fara bara eina stöð til baka og enginn skaði skeður. Ian treysti ekki vel á ratvísi mína eftir þetta, en mér tókst að sannfæra hann með því að rata yfir í Empire State bygginguna, þar upp í topp. Ian bað mig um að taka myndir fyrir sig - hann er algjörlega blindur - svo ég var stöðugt með hans vél og mína á lofti. Gott að hafa blinda við arminn, við fengum sér meðferð við inngönguna í Empire State, flýtimeðferð.
Einn léttur á barnum áður en við komum á hótelið. Hittumst kl. 6:30 á 19. hæðinni! Smá uppákoma! Við hjónin höfðum keypt flöskur af Birki og Björk til að gefa í Þakkargjörðarveisluna, ferðin sem aldrei var farin, svo þessar flöskur opnuðum við á ganginum og gáfum smakk þeim sem eru í okkar hópi.
Góður dagur að kvöldi kominn, kominn tími fyrir svefn. Spennandi dagur frámundan: sigling . . afmæli . . . Úlala.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2012 | 11:01
Saga krossins
Einu sinni var fjölskylda, mamma, pabbi og tvö börn, stúlka og drengur. Þegar stúlkan var orðin 4ra ára og litli bróðir hennar rétt að verða eins árs kom í ljós að mamman var að fara að eignast þriðja barnið. Það barn átti að verða drengur líka, svarthærður og brúneygur drengur, alveg eins og Litli bróðir. Stóra systir var nærri ljóshærð og gráeyg.
Þegar mamman var búin að ganga með Kríli í sex mánuði var Stóra systir spurð hvort hún vildi eignast systur eða bróður. Hún hugsaði sig um andartak og sagði svo: "Ég á bróður, ég vil systur." Og málið var útrætt. Búmm, Kríli átti að verða strákur svo að nú voru góð ráð dýr og breyting átti sér stað í maganum á mömmu - stelpa var á leiðinni. Hún fæddist svo á Fullveldisdegi Íslands, en með þvílíkum látum að sjúkrabíll var fenginn til að flytja mömmu á spítalann. Veðrið var slæmt og fjölskyldan átti heima í nýju hverfi, enn í dag er þetta hverfi ekki auðfundið nema þeim sem til þekkja. Nema hvað, pabbi þurfti að ganga langa leið á móti sjúkrabíllnum svo sjúkraflutningamennirnir fyndu húsið. Stelpan fæddist svo stuttu eftir komu á spítalann. Hún virtist alveg í lagi við fyrstu sýn, dafnaði meira að segja vel, svaf eins og steinn alla daga og meira en hin börnin höfðu gert. Það þurfti ekki nema eina litla taubleyju yfir eyrað á þessu litla kríli til að það sofnaði. Krílinu var gefið nafn og allt virtist í fínu lagi. Tíminn leið og þetta Kríli, sem átti að vera brúneygur strákur, varð dökkhærð stelpa með - ó nei! Bara eitt grátt auga! Hitt hélt áfram að vera brúnt! Það tókst ekki að breyta augnlitnum fullkomlega þegar ákveðið var að þetta yrði stelpa en ekki strákur, að ósk Stóru systur. Ojæja, eitt brúnt auga - hitt var þó alla vega grátt eins og bæði augu Stóru systur.
En fleira hafði víst farið úrskeiðis við þessa skyndiákvörðun frá strák yfir í stelpu - mjaðmirnar. Mamman fann alltaf einhverjar óeðlilegar hreyfingar í mjöðmum Krílisins þegar hún skipti um bleyju á því - einhver óhljóð. Hún ræddi þetta við lækni og hjúkrunarkonur, sem sáu um venjubundnar sprautur. Allt hjúkrunarliðið sannfærði mömmuna um að allt væri í fína lagi - hún sefur eins og engill! Hvað gæti svo sem verið að? Mamma fann SAMT að eitthvað var að. Svo fór Kríli að ganga og þá var enginn vafi lengur, eitthvað var að mjöðmunum, mjaðmirnar voru ekki í lið. Krílið var sett á spítala og þar lá þetta litla grey í einhvers konar mjaðmastokk, sem átti að koma mjaðmakúlunum í rétta liði á ný. Mamman mátti ekki heimsækja Krílið sitt nema einu sinni í viku á spítalann - nunnurnar þar sáu til þess.
Pabbinn? Pabbar gráta ekki og til að forðast það að gráta fór pabbinn bara alls ekki á spítalann, hann hefði ekki getað annað en grátið og hvað er þá betra en að fara bara alls ekki á stað, sem lætur mann gráta.
Mamman sendi vinkonur sínar til að líta eftir Krílinu, sem svaf oftast rólegt með sína bleyju yfir eyranu. Stundum var Krílið með snuð, en oftast vantaði önnur börn á stofunni snuð og af því Krílið svaf fremur vært þá var snuðið bara tekið af því og önnur börn, órólegu börnin, látin hafa snuð Krílisins.
Nokkrir mánuðir liðu eða um 6 mánuðir og Krílið enn á spítala. Ekki náðist að setja mjaðmakúlurnar inn í liðina nema á hægri mjöðm. "Hér þarf skurðaðgerð" sagði læknirinn, sem var nýkominn úr námi frá Svíþjóð og vissi allt það nýjasta um aðgerðir og hjálp við sjúklinga. Krílið var sent heim í stuttan tíma, þurfti víst að kynnast mömmunni, pabbanum, Stóru systur og Litla bróður aðeins á ný áður en aðgerðin var gerð. Það var dálítið erfitt því allar nunnurnar á spítalanum voru danskar og töluðu aðeins dönsku við Kríli svo Krílið kunni ekki lengur íslensku, móðurmál sitt, bara dönsku. Svo var Krílið sent á spítalann aftur, grátandi eftir mömmunni sem aðeins mátti heimsækja Krílið sitt einu sinni í viku. Nú var aðgerðin undirbúin og þar kemur Krossinn til.
Á þessum spítala var settur kross um háls allra þeirra sem fóru í skurðaðgerðir og litla Kríli fékk sinn Kross um hálsinn. Síðan þá hefur Kross fylgt Krílinu, sem í dag er reyndar orðin mamma og líka amma. Kross er enn til, hefur að vísu brotnað, en nú er búið að laga hann. Hann prýðir elsta barnabarn litla Krílisins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.6.2009 | 11:56
Hringferð með Spánverja
8. júní rann upp, einn hópur að koma um kl. 9 að kvöldi. Ég hafði skilað Hollendingunum af mér um miðnætti kvöldið áður og náði að slaka á áður en næsti hópur kom. Nú eru það Spánverjar! Síðasti hópur Spánverja með mér var fyrir 3 árum og gerði mig ekki sérlega bjartsýna á þennan hóp. Að vísu eru þetta 7 manns og engin veikindi í minni fjölskyldu, sem litaði alla ferðina fyrir þremur árum. Þessi hópur reyndist vera 6 konur og einn karl. Konurnar eru vinkonur, sem ferðast oft saman. Í þetta sinn fékk einn eiginmaðurinn náðarsamlegast að fylgja með, sem var ekki skv. vana. Málið var að þegar hann heyrði að þær ætluðu til Íslands þá bað hann svo fallega um að fá að koma með, hann hafði alltaf langað til Íslands. Svona eftirá að hugsa held ég hann hafi fengið óskina uppfyllta með því skilyrði að sitja aftast í rútunni og steinþegja. Nú er ég að búa til, en engin saga er skemmtileg nema örlítið krydduð.
9. júní: Fyrsti dagurinn var svo Gullni Hringurinn. Fyrst þurfti að fara í banka og bakarí. Þau voru sem sagt með hádegismat fyrir alla dagana með sér, þurftu bara að kaupa brauð.
Komum til Þingvalla og þá skýjað, en milt veður. Þau gengu niður að Flosagjá, tóku fallegar myndir. Hringurinn gekk vel og fossarnir tveir (Gullfoss og Faxi) reyndust gífurlegt aðdráttarafl. Þegar í bæinn kom renndi ég við í 66°N búðinni í Skeifunni, flestir vildu fá sér ekta íslenska hlýja flík.
10. júní: Daginn eftir kom ég um kl. 9 að sækja þau og nú voru þær stúlkurnar heldur betur búnar að dressa sig upp í íslenskan fatnað, Zo-on, Cintamani og 66°N. Veðrið algjörlega frábært, heiður himinn og hlýtt eða næstum því hlýtt fyrir Spánverja. Ég á ermalausum bol, en þau öll í flíspeysum. Fyrsta stopp var í Skallagrímsgarði í Borgarnesi og þaðan yfir að Borg, bara til að fá gott útsýni yfir fjöllin og Borgarnes. Nokkuð oft á leiðinni til Akureyrar var ég beðin um að stoppa bílinn svo þau gætu tekið myndir, allt svo heillandi. Á Blönduósi fengum við okkur hádegismat á tjaldsvæðinu, kyrrð og fallegt. Komum á Akureyri um kl. 17:00, inn á gistiheimilið Gulu Villuna þar sem vel var tekið á móti okkur. Þau nýttu kvöldið vel, fóru á góðan veitingastað og gengu sig upp að hnjám um allan bæ.
11. júní: Þá er strangur dagur framundan. Á Húsavík gengum við um, rákumst á Phallus Museum, en það var ekki opnað fyrr en kl. 12:00 svo ekki fórum við inn. Ásbyrgi alltaf sérlega fallegt og rauðhöfðaendur synda í kyrri tjörninni. Dettifoss ægilegur að vanda, en verst var þó að þurfa að keyra Hólssandinn sá var eitt þvottabretti frá Dettifossi yfir á Hringveg 1! Ég þakka fyrir að bíllinn hristist ekki algerlega í sundur og að missa BARA einn hjólkopp á leiðinni var kraftaverk. Festingar koppsins brotnuðu undan álaginu. Vonandi verður vegurinn orðinn betri næst þegar ég fer þessa leið. Gistum að Eldá á Mývatni. Eftir matinn fórum við í göngu, litum inn í kirkjuna, fallegt kvöld þótt skýjað væri.
12. júní: Kalt í dag, en ekki rigning. Ótrúlega lítið af flugu á Mývatni, en Spánverjarnir fundu það þó út að ég lét þau labba ein ef mikið var um flugu, en fór með þeim þar sem ég vissi að væri lítið um flugu! Maður er svo gegnsær! Skútustaðagígarnir eru auðvitað létt gönguleið og þarf ekki leiðsögumann í það, en Dimmuborgir geta verið erfiðar og ekki rétt að láta ókunnuga ganga eina um án aðgæslu. Svo litum við í Jarðböðin. Hérna viljum við vera langt fram á kvöld, en það er ekki hægt við þurfum að komast til Egilsstaða í dag. Hverasvæðið líka eftir áður en haldið er yfir til Egilsstaða. Gistihús Olgu er okkar næturstaður, mátulegt fyrir 8 manns. Að vísu voru einhverjir tveir menn með gistingu í kjallaranum og þeir sprönguðu um hálf naktir, en það var bara bónus. Ekki amalegt að hafa tvo karla fyrir þessar tvær ógiftu í hópnum, sögðu þau mér. Bara hlátur út úr þessu og svo að finna veitingastað.
13. júní Rigning! Á leið um Fagradal ílir bíllinn og segir mér að nú geti hugsanlega verið ísing á veginum. Hitastigið fór þó örlítið hækkandi. Fórum inn á Reyðarfjörð og Fáskrúðsfjörð. Þarna vakti athygli götunöfnin, bæði á íslensku og frönsku. Tvær í hópnum eru franskar í aðra ættina, svo þetta þótti skemmtileg uppákoma. Áfram rigning. Á Stöðvarfirði vildu þau skoða safnið hennar Petru. Ég elska að koma þarna við, litadýrðin í garðinum og allir fallegu steinarnir. Ég verð alltaf jafn ánægð þegar mínir túristar vilja stoppa þarna. Í Berufirði er stór kafli ómalbikaður, vegurinn ein drulla og bíllinn orðinn eitt moldarstykki þegar við renndum inn á Djúpavog. Ég bað mitt fólk að fá sér göngutúr um bæinn, þótt rigndi, á meðan ég þreif bílinn að utan og fyllti á tankinn. Áfram rigning og engin fjallasýn á öllum Austfjörðum, ansi svekkjandi fyrir mig að geta ekki sýnt fegurðina hérna. Næsti viðkomustaður er Höfn. Nú var orðið ansi kalt úti. Ég hringdi á Humarhöfnina til að athuga hvort við gætum komið í hádegismat, ókum svo inn í göngin við Almannaskarð í rigningu, en ókum út úr göngunum og þá skein sól!
Humarmáltíðin frábær og við mett og í fínu formi til að halda áfram með jöklasýn svo mikla að ekki var hægt að trufla útsýnið með einhverju blaðri. Hversu margir eru skriðjöklarnir frá Vatnajökli? Aldrei fengið þessa spurningu fyrr!
Komum að Gerði á góðum tíma, farangur settur inn á herbergin og svo fórum við aftur af stað yfir á Jökulsárlón. Við áttum pantaða siglingu um lónið, sem var frábær. Ótrúlegir skúlptúrar út um allt lón, þetta er Gallerí Náttúra segi ég mínum túristum.
Kvöldið að Gerði ótrúlega fallegt, umgjörðin um sveitina er svo ótrúlega falleg. Næstum ólýsanleg.
14. júní SÓL! Fegurðin er þvílík að ekki er hægt annað en að dansa og það gerðu Spánverjarnir mínir. Ókum inn í Skaftafell, en ég varð bara að stoppa annað slagið á leiðinni til að mynda útsýnið, alla jöklana, dýrðina. Þau gengu upp að Svartafossi og voru aðeins 1 klst. fram og til baka. Áfram yfir á Kirkjubæjarklaustur þar sem keypt var brauð. Undarlegt veður, ókum inn í skýjafláka með hellidembu og svo var eins og lína dregin á götunni og sólin skein aftur. Matarstopp í Vík og minjagripastopp líka. Reynisfjara næst með sínum hellum og þæga sjó hann var þægur þennan daginn. Svo Skógarfoss og Seljalandsfoss. Suðurströndinni gerð allt of lítil skil þar sem fólkið vildi komast á Humarhúsið í kvöldmat. Hringferð lokið og aftur sit ég uppi með að kveðja gott fólk en hef þó góðar minningar og myndir.
Bloggar | Breytt 25.6.2009 kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.6.2009 | 14:18
Hollendingar í stuði
Snemma í vor hafði kona frá Hollandi samband og vildi athuga með ferðir fyrir sig og enhverja fleiri. Sagðist vera með hóp af vinum, svona 16 manns. Endanleg tala hópsins varð 25. Þar sem undirrituð hefur ekki vit á íþróttum þá kom aldrei upp í hugann að hópurinn væri tengdur fótbolta. Í síðasta tölvupósti frá Desirée lét hún mig vita að um fótbolta 'fan'klúbb væri að ræða frá Margraten í Hollandi, en sagði ennfremur að ég þyrfti ekki að óttast að þau yrðu með læti. Ég sagði henni að koma endilega með fána frá liðinu til að skreyta bílinn. Mikil stemning var í hópnum þegar ég og bílstjóri sóttum hópinn um miðnætti þ. 4. júní. Og svo var lagt af stað í Gullna Hringinn þ. 5. júní. Allir í hópnum í rauðgulum fötum! Afskaplega áberandi - reyndar í öllum stoppum sást fátt annað en rauðgulir Hollendingar!Margraten klúbburinn skreytti rútuna með fánum og borða með nafni liðsins MARGRATEN.
Allt gekk vel þar til við áttum 20 km eftir til Reykjavíkur! Þvílík fýla gaus upp. Við öll út úr rútunni því reykur var mikill út frá öðru afturhjólinu. Nú voru góð ráð dýr, hringt eftir hjálp en engar rútur fáanlegar - allar rútur á ferðinni með Hollendinga! Hringt á verkstæði - jú, haltu bara áfram, þetta lýsir sér eins og eitthvað í bremsunum og er sennilega í lagi. Það stóðst, allir keyrðir á hótel og allt í góðu lagi (næstum, nema hjartað í mér, sem var í hálsinum á þessu augnabliki), ekið beint inn á verkstæði. Gott að engin ferð var þ. 6. júní því þá var landsleikurinn Holland/Ísland (sem Hollendingar unnu víst).
Rútan komin í gagnið aftur þ. 7. júní - eins gott því þá er langur dagur á Suðurströndinni. Það stóðst og við sóttum hópinn á hótel upp úr kl. 10. Sumir fremur framlágir eftir langa og erilsama nótt og einhver lagði sig í aftasta sætið. Hann var reyndar orðinn hinn hressasti þegar við loks komum í Vík. Víkurprjón var vinsælt hjá mínu fólki og rútan orðin nokkuð full af alls kyns minjagripum þegar við komumst frá Vík. Reynisfjara alltaf frábær og þar tók ég mynd af hópnum. Ekki hægt að trúa því að sjórinn hér geti verið göróttur þegar varla bærist alda við ströndina. Glettni sjórinn hér!
Upp úr kl. 8 að kvöldi komum við svo í Bláa Lónið, frábær afslöppun í lok góðrar ferðar áður en hópurinn átti að fara í flug um miðnætti. Afskaplega var gaman að kynnast þessum Hollendingum. Vonandi sjáumst við aftur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2008 | 14:48
Allra þjóða kv....
Skemmtiferð í snjó og brjáluðu veðri? Jú, það getur verið skemmtilegt. Að minnsta kosti þegar ferðinni er lokið og allt fór vel - að mestu. Þetta var svona venjuleg helgarferð með fólk frá alþjóðlegu fyrirtæki, fólk frá hinum ýmsu löndum, fólk sem hafði selt best á árinu og fékk ferðina sem eins konar bónus. Hópurinn sóttur á föstudegi og ekið beint í Bláa Lónið þar sem kokteill með tilheyrandi beið allra. Ekki veitir af að minna fólk á að skilja ekki eigur sínar eftir í hvíta sloppnum sem það fær - 150 hvítir sloppar og einhver minnist þess að hafa gleymt myndavélinni í hvíta sloppnum. Vonlaust að finna út úr því.
Þá kemur laugardagurinn og nú á að fara á snjósleða. Spáin nokkuð góð, sól en talsverður vindur. Á að lægja seinni partinn, segir spáin. Við af stað snemma að morgni, brunað austur með einu 'tæknistoppi' og svo upp á Bláfellsháls. Fólkinu hjálpað að galla sig upp, áfram keyrt yfir skaflana alla leið upp að Skálpa. Þá farið að blása nokkuð vel, en vegslóðinn sést þó þokkalega. Mitt fólk skemmti sér konunglega á sleðunum og alltaf bætti í vindinn. Þegar þau loks koma til baka er farið að blása svo hressilega að skafrenningurinn fyllir hvert spor og stingur í augu svo varla var hægt að halda þeim opnum. Við lögðum af stað niður aftur, en á leiðinni mættum við nokkrum ofurjeppum svo ekki var hægt að fara hratt yfir. Nú var farið að blása það vel að þótt ofurjeppi væri á undan okkur þá skóf jafnóðum í hjólför hans og ég og bílstjórinn sáum ekki neinn slóða framundan. Ég hafði augun á gulu stikunum til hliðar við veginn, bílstjórinn með hausinn út um gluggann og þannig náðum við niður á Bláfellsháls og allir ánægðir með að komast út úr hvítum sortanum. Þar beið brennivín, allir afklæddust (þ.e.a.s. göllunum) og nú haldið aftur í siðmennnguna á Gullfosscafé þar sem okkar beið hádegismatur, að vísu síðbúinn hádegismatur þar sem fegurðin á leiðinni var þvílík að við vorum beðin um að stoppa tvisvar svo hægt væri að taka myndir af sólinni og hvítri breiðunni svo langt sem augað eygði. Þvílík fegurð. Að gleyma myndavélinni er ófyrirgefanlegt -
Maturinn á Gullfosscafé góður eins og venjulega og nú ekið yfir að Geysi. Á hverasvæðinu var flughált. Nokkra sá ég steypast á afturendann og það sem verra var: hausinn líka. Ein úr mínum hópi lá kylliflöt með hnéð undir sér og gat ekki staðið upp í nokkurn tíma. Ég vona að hún hafi ekki verið illa slösuð eftir byltuna.
Þá fórum við yfir til Þingvalla. Upp frá Laugarvatni þurftum við að bíða í um hálftíma meðan bíll var dreginn upp. Sá hafði skautað út af veginum, en þó réttu megin þannig að hann fór ekki rúllandi niður hlíð heldur upp í kant. Enginn alvarlega slasaður þar, sem betur fór. Vegurinn yfir að Þingvöllum var ein glæra, en yfir komumst við. Þar sem kalt var og farið að rökkva þegar við komum til Þngvalla, ákváðum við að fara beint upp á Hakið og hafa yfirsýn yfir svæðið. Einhver tók eftir að upp úr fjalli einu stóð logi. Hvað er þarna? Eldgos?? Ég gerði mér grein fyrir að þarna var tunglið að sýna sig en þó svo lágt á lofti að ekki sást neitt nema bjarminn upp yfir topp fjallsins. Gott að ráðamenn þjóðarinnar geta ekki skattlagt náttúrufegurð af þessu tagi! Seinna um kvöldið náði ég svo að sjá Norðurljósin flökta um himininn . . .
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.10.2008 | 12:26
19.10. Ástralía
19.10.
Nú yfirgefum við Paradís, Fraser eyju. Sól, en svo dró fyrir sennilega bara af því við erum á förum. Aðeins 30 mín. sigling yfir í Hervey Bay í góðum sjó. Rútan beið eftir okkur, Allan bílstjórinn okkar í dag gefur miklar upplýsingar. Hann vildi að við reyndum krabbasamlokur í Gin Gin, litlum bæ á leiðinni. Getur verið að sá sem gaf bænum nafn hafi stamað? Nei, Gin er nafn yfir frumbyggjakonur og líklega hafa sést hérna tvær konur þegar bænum var gefið nafn. Við of mörg fyrir samlokur þannig að aðeins helmingur hópsins fékk að smakka. Áfram haldið til Glaðheima (Gladstone), allir glaðir þegar þangað var komið. Enginn bjór drukkinn allan daginn svo það var kominn tími á okkur þegar komið var á hótel. Hótelið gott og nú fara allir saman út að borða. Sumir orðnir ruglaðir eftir að horfa á tré, tré, tré eftir þjóðveginum. Guðný og Birna tala um hversu mikil eftirsjá er eftir Fraser, þessari ótrúlegu Paradís. Reyndar segja allir í hópnum að þessari Paradís þurfi að gefa meiri tíma. Guðný komst í góðan ham, varð barnið í ferðinni og fór í sandkastalabyggingu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.10.2008 | 07:35
16. og 17.10.
16.10. Australian Zoo og Montville. Rignir i Montvill svo allir fengu ser regnhlif. Bilstjorinn sagdist hafa bokad rigningu af thvi hann aetti hlut i regnhlifaverksmidju. Allt of stutt stopp og svo yfir i dyragardinn. Thar skiptist folk i hopa, sumir foru a syningu med tigrisdyrum og filum, adrir a syningu med krokodilum og fuglum. Um kvoldid forum vid yfir a South Bank a kinverskan stad. Simon blekkti alla med ad nu skyldum vid laedast ut, lata sem ekkert vaeri og ekki borga. Tekid mjog alvarlega, en ad lokum komst upp um hann, hann hafdi borgad fyrir alla! Gott kvold sem endadi i spilavitinu.
17.10. Aetlunin var ad setja inn myndir, en nu erum vid a Fraser Island og thar er ekki haegt ad setja tolvu i samband inni a herbergi. Vid komum her um kl. 2 og engin sol, en fljotlega for ad skina sol. Dagurinn i dag for mest i ad slaka a i solinni, spjalla og dast ad frabaerri natturu. Her er otrulegt lif og nattura. I kvold er sjavarrettamaltid a hotelinu eftir ad vid munum horfa a solarlagid.
Thetta er stutt i dag tar sem erfitt er ad vera a netinu, eiginlega paradis stressmanns! Vonlaust ad hanga a netinu . . sjaumst a morgun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.10.2008 | 13:05
Ástralía 15.10.
Sumir vöknuðu snemma í dag, tímamunur eitthvað að gera vart við sig, en allir sváfu þó vel. Morgunmatur og svo var rútan okkar komin og við af stað út úr borginni. Ekið í um 1.5-2 tíma og þá komum við í O´Reilleys vínbúgarðinn í vínsmökkun. Flestir vildu smakka vínið, en múskatið var vinsælast og auðvitað þetta líka fína súkkulaði. Húfur! Nóg af þeim hérna og þar sem fletsir höfðu gleymt þessari nauðsyn þá fóru nokkrar á íslensk höfuð.
Þá var að athuga hvort breiðnefurinn sæist í litla læknum, en þetta ástralska dýr lét ekki sjá sig.
Næst er það Lamington þjóðgarðurinn. Ástralir eru framarlega í náttúruvernd og strax um 1879 var stofnaður þjóðgarður í landinu. Fjölskylda stofnaði garðinn á fyrri hluta 20. aldar og nú hefur ástralska ríkið tekið við viðhaldinu.
Við fórum í göngu í toppi trjánna, á hengibrú um 25-30 metra hæð. Tré, sem er holt að innan er við hengibrúna og flestir fóru inn í það. Svo voru það fuglarnir, sem eru vanir að fá mat úr höndum, Ingibjörg skipaði einum að skíta á hattinn hjá Stjána og viti menn! Fuglinn skildi skipun á íslensku . . .
Fugl settist á Birnu - sú eina sem ekki vildi hafa fugl á öxlunum. Úppps
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2008 | 18:57
Ástralía
Nú er komið að því . . . Ástralía 2008
Ásgerður og Hulda settust á gólfið til hvíldar.
Símon, Karitas, Ingibjörg, Ævar, Kristján, Asgerður,
Gugga, Hulda, (neðar: ) Gauja og Birna.
Þá erum við komin! Hér er hópurinn kominn á bar í miðbæ Brisbane. Það gekk á ýmsu. Fyrst 2ja tíma seinkun hjá Flugleiðum ok, skiljanlegt. Þá 10 tíma bið í London, út í vél og allt í fína. Flogið í nærri 3 tíma en þá . . . flugvél snúið við, oh ekki aftur, eins og fyrir ári síðan. Ó, jú. Kona veik og ekki hægt að stoppa í Frankfurt svo farið aftur til London. Þetta þýðir 12 tíma seinkun. Allt í fína, allir jákvæðir, flugið gekk vel. þvílíkt róandi flugvöllur, bara 3ja tíma bið í næsta flug. Allir inn í vél, en . . út aftur flugstjóra líkaði ekki vélin svo við aftur inn í flutstöð og annað tékk. Hm, þetta er þó ekki flugrán segir Símon bara jákvætt. Önnur klst. seinkun. Svo sofið í vélinni og við lent í Brisbane um 8:30 að kvöldi í stað 6:30 að morgni. Rútan beið, greið leið í gegnum vegabréf og við á hótel um 9:30, gott hótel, STURTUR!
Svo út á lífið og sjáið! Okkur líður vel. Kæru vinir og vandamenn, endilega látið í ykkur heyra eða komið skilaboðum til okkar hérna megin.
Bloggar | Breytt 15.10.2008 kl. 12:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Guðbjörg Bragadóttir
Færsluflokkar
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar