Hringferð með fjóra!

desktop_003_893821.jpgJá, bara fjóra – tvo Þjóðverja og tvo Ítali. Sunnudagurinn 26. Júlí Landmannalaugar kl. 9. Vélin frá Mílanó lenti 07:12 og þau hjónaleysin komu út einmitt þegar ég kom inn í flugstöð til að taka á móti þeim. Smástopp í Raufarhólshelli, Stöng í Þjórsárdal og að Gjánni. Einhver túristinn minn sagði mér að Gjáin væri eins og Paradís, vin í eyðimörkinni. Þarna hafði rithöfundurinn Margit Sandemo smá fjölskyldupartí fyrir mörgum árum, hafði eldað súpu á hlóðum í stórum potti, klæddi sig þó fyrst upp á eins og tröllskessa og svo þegar fólkið hennar kom niður í Gjánna þá stökk hún út úr einum skútanum, skessuleg og sæt með tilbúna súpu fyrir liðið. desktop_001.jpg
Ákvað að kíkja við í Ljóta Polli sem er langt frá því að vera ljótur. En . . . nú var ég að hugsa um að hætta við! Stærðar skarð í veginum. Ég setti í fjórhjólið og hugsaði að svona smá hnökri gæti nú ekki staðið í vegi fyrir mér, sá hvar ég gæti fikrað mig yfir og upp komumst við. Túristunum leist ekki of vel á en vildu samt ég reyndi. Ljóti Pollur var litríkur en rokið þarna uppi þvílíkt að allir voru fljótir að koma sér aftur inn í bílinn Rigning í Landmannalaugum og enginn nennti einu sinni að ganga yfir að lauginni. Dómadalur til baka. Einhver bílstjóri hafði sagt mér að Landmannaleiðin væri öll orðin brúuð og greið leið – en það var fyrir 2 eða 3 vikum og margt breytist víst á þeim tíma. Nokkuð um þvottadesktop_025.jpgbretti – hvað tröllin hljóta að geta notfært sér þessi þvottabretti á íslensku vegunum – það hlýtur allt að vera afskaplega hreint hjá tröllum vorum. Og lækirnir, þeir voru að leika ár. Komumst klakklaust alla leið til Reykjavíkur og ég komin heim um 6:30 þetta kvöldið, nokkuð gott.
Gullhringur á mánudegi. Ég fékk eiginmanninn til að keyra í þetta sinn, var bara leiðsögumaður sjálf, sem er ágætt.  Hífandi rok við Gullfoss og Geysi, en við Faxa bara logn. Crinaria og Mänhe á þeirra tungum. Einhver var að spá miklum jarðskjálfta í kvöld um eða fyrir miðnætti. Mikið var gott að enginn skjálfti kom.
desktop_107.jpg28. júlí. Snæfellsnesið er framundan í dag. Svo yfir að Búðum þar sem ég sagði auðvitað frá ýmsu, þar á meðal þessum 18 brúðkaupsgestum sem ég hafði verið með fyrir nokkrum árum. Fegurðin þarna þann daginn var töluvert meiri en í dag, smá snjór hafði verið yfir öllu, Nóvembersólin lágt yfir og kastaði þessum fagurbleika, óraunverulega blæ yfir allt. Í dag er bara rigning og rok. Gengum upp í Rauðfeldargjá, sælusvipur á einhverjum – þetta er fallegt (já, en veðrið??? – skiptir ekki máli). Ég dró upp mína brúsa með heitu vatni til að koma hita í liðið og þá var allt gott aftur, hægt að ganga á Arnarstapa, Djúpalónssandi og Helgafellið gengið í réttum gír, gott að ekkert þeirra átti tengdamömmu – þá er minni hætta á að hugsa illt. Stykkishólmur er svefnstaður okkar.
Ég svaf eins og steinn og um morguninn var komin blíða, logn en skýjað. Ég byrjaði á að taka olíu á bílinn og svo yfir á heimagistingu Ölmu til að ná í þau hin. Þar var fuglasöngurinn yndislegur, sléttur sjór við túnjaðarinn hjá þeim, sjávarilmurinn einstakur. Þetta er nú út af fyrir sig forréttindi að búa á svona stað! Skógarströndin, svo sem ekki vondur vegur, en drullan á bílnum hrikaleg. Svo Laxárdalinn, ég kveið fyrir heiðinni þar upp af en mér til mikillar gleði var vegurinn yfir Laxárdalsheiðina mjúkur, bara nokkuð góður og ekki drullugur. Stopp í N1 Staðarskála, svo yfir að Reykjum á hákarlasafnið – gott safn. Blönduós, ógeðslega vondur matur eða ég kannski ekki svöng.
desktop_112.jpgOg þá erum við komin yfir Öxnadalinn á leið inn á Akureyri og klukkan rétt að nálgast fjögur. Inn á Gulu villuna og nú þarf ég að kaupa mér skó. Maðurinn minn gleymdi að setja skóna mína í bílinn áður en ég fór! Er ekki gott að geta kennt einhverjum  öðrum um gleymsku???
2 nætur á Akureyri. Ætlunin er að fara í Jólahúsið, en Ítalirnir vilja fara í hvalaskoðun. Við þeystum yfir til Hauganess, en þar sögðu þeir okkur að ekki hefði sést neinn hvalur í morgun og veðrið væri þannig að ekki myndi sjást neitt, hvorki fugl, fiskur né hvalur. Aftur til Akureyrar, Jólahúsið skoðað en ekki mikið keypt – þeim fannst flest of dýrt. Svo yfir á Flugsafnið – tvö í hópnum með flugdellu svo þetta var ágætis ferð. Þá er að fylla bílinn fyrir daginn á morgun.
desktop_139.jpgFrá Akureyri í leiðinda veðri, súld, rok, 6°C. Og svo rigning . . . Goðafoss, túristunum líst afskaplega vel á þennan foss, ekki hægt annað þótt rigni. Við komum á Húsavík og ekki neitt útsýni, því miður. Ég reyni að segja þeim að hér  sé afskaplega fallegt. Phallus safnið opnar ekki fyrr en kl. 12:00 og það er dálítið of seint fyrir okkur, alveg eins og fyrir mánuði með Spánverjana. Hvalasafnið var opið og þau litu þar inn. Ég skoðaði kirkjuna í fyrsta skipti á ævinni. Aftur lagt í´ann yfir í Ásbyrgi, envið stoppuðum á leiðinni fyrir útsýnið, þ.e. lundinn vaggaði sér á sjónum fyrir neðan bjargið. Ásbyrgi alltaf heillandi, það var jafnvel erfitt að koma þeim í burtu, rigndi ekki og var næstum logn líka. Sandra E hafði dottið á fuglabjarginu og meitt sig í hné, en fór nú samt í göngu með okkur. Þá er það vegurinn yfir að Dettifossi (austan megin) – ekki góður, ekki eins góður og  Börkur leiðsögumaður sagði mér, en ég hitti hann á Goðafossi.
Mývatn! Komin hingað eftir bara sæmilegan Hólssand, ótrúlega mikill munur frá því fyrir mánuði. Hér fáum við góða þjónustu, snyrtileg gisting í Guesthouse Skútustaðir, skoðuðum gígana fyrir mat og svo matur á hótel Seli. Hlaðborð þar sem Valentina bragðaði á öllum íslensku réttunum okkur hinum til mikillar skemmtunar. Ég lét hana ekki vita af sviðasultunni fyrr en hún var búin að kyngja, þá sagði ég hvaðan parturinn af lambinu væri. Maturinn kom næstum upp úr henni aftur.
desktop_164.jpgÞað er svo margt að skoða á Mývatni, Höfði, Dimmuborgir, Grjótagjá þar sem einhverjir Þjóðverjar voru að baða sig naktir í 40°C vatninu – ótrúlegt lið. Jarðböðin, mmm, yndisleg. Stoppuðum þar í tvo tíma. Svo Hveraröndin og Leirhnúkasvæðið áður en við héldum yfir á Egilsstaði. Regnboginn á leiðinni náði alla leið, sterkir litir og fallegur. Café Nielsen um kvöldið og allir mjög ánægðir með matinn þar.

 

Egilsstaðir odesktop_184.jpgg nágrenni. Ansi þungbúið í dag. áfram hringinn í kringumm Löginn. Komum fyrst að Hengifossi og Litlanesfossi. Þau gengu öll af stað, en Þjóðverjarnir tveir gáfust upp áður en komið var að Litlanesfossi. Ítalirnir gengu áfram, þau gengu eins langt og þokan náði, sem var rétt áður en komið var að Hengifossi sjálfum. Hundblaut að bíl aftur. Þá inn að Skriðuklaustri, Valþjófsstað og síðan í Atlavík. Fékk hana Grýlu fyrir gott verð í Héranum í Hallormsstað, Shani vinkona mín í NZ verður Grýlu fegin. Útnyrðingsstaðir, þeir eru með hestaleigu (kr. 3500). Við þangað. Ég rambaði á staðinn eins og ég hefði aldrei gert neitt annað en að keyra þangað. Var samt ekki vel merkt. Engir gallar til á liði og ég hálf  smeyk við að bíllinn muni lykta eftir hestaferð í eigin fötum. Hm! Ekki góð auglýsing fyrir leiguna.
Austfirðir, rigning, lágskýjað þar til við komum á Djúpavog. Þá komið ágætt veður, en ekki var samkomulag um að fara í siglingu, enda tekur sigling um 4 tíma. Á Höfn fengum við okkur humarveislu allir nema Sandra E, sem hryllir sig við tilhugsun um fisk, skelfisk eða annað sjávarmeti. Ítalirnir vilja prófa allt! Sandra N ekki mjög áræðin í mat. Svo ekið í vestur meðfram fallegum jöklunum. Heillandi svæði. Komum í Gerði, sem er gisting við Hala í Suðursveitinni, hentum inn töskunum og svo beint í siglingu á Jökulsárlóni. Gott að við gerðum þetta í dag í góðu veðri, veðrið daginn eftir ekki gott. Eftir matinn á Þórbergssetrinu fór ég áfram yfir veginn til að skoða steininn, sem skorinn hefur verið í þrennt til minningar um bræðurna á Hala, Þórberg og tvo bræður hans.  Á steininum stendur eitthvað á þessa leið: Ætli þúsund ár hjá steini sé ekki eins og þúsund mínútur hjá manni – þarf að skoða þetta nánar þegar ég kem hér í september.
Yfir Mýrdalssand var ekki huggulegt að aka í þetta sinn, hífandi rok og enginn sagði orð í bílnum, ekki að það væri eitthvað nýtt. Rokhviðurnar tóku vel í bílinn og eftirá sögðu þau mér að þau hefðu alveg eins búist við að bíllinn þeyttist út af veginum. Ókum alla leið í Ásgarð við Hvolsvöll, hreinlega paradís með ‚Hans og Grétu‘ húsum. Við vorum öll í góðu skapi yfir að vera í svona huggulegu umhverfi, trén og allur gróðurinn í kringum litlu sætu húsin!
desktop_708.jpgOg þá er síðasti dagurinn okkar í hringferð. Ókum til baka alla leið í Reynisfjöru og enn er hífandi rok í Mýrdalnum. Um leið og við komum fram hjá Skógafossi byrjaði rokið og rigningin. Við fórum þó niður í fjöru í Reynishverfi og það var svo sem ekki alveg eins rosalegt rok og uppi við fjallsræturnar. Lundinn var í essinu sínu í hlíðinni fyrir ofan Hálsnefshellana og allir túristarnir í fjörunni stóðu bara og horfðu á lundann. Og þá er að aka beint til Reykjavíkur þegar fossarnir eru búnir – Seljalandsfoss, Gljúfrabúi og Skógafoss. Satt að segja fékk Gljúfrabúi meiri athygli en aðrir fossar, sem ansi oft er staðreyndin. Og til Reykjavíkur komum við um kl. 15:00.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Guðbjörg Bragadóttir

Höfundur

Guðbjörg Bragadóttir
Guðbjörg Bragadóttir

Leiðsögumaður

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 20130921 114851
  • ...19ipqmm
  • ...24sppkn
  • ...15zgqui
  • ...13joqio

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband