18.10.2012 | 10:55
Yfirlit yfir sumarið
Mikið er nú gott að geta sest niður á hótelherbergi og hugsa um allar skemmtilegu ferðirnar mínar í sumar. Sumarið er búið að vera ótrúlega skemmtilegt og fjölbreytt. Klúbbur af göngufólki frá Kanada var með okkur hjónunum í 12 daga ferð. Allt var innifalið. Töluverð skipulagning, en allt gekk upp. Við byrjuðum ferðina í Krýsuvík og svo yfir í Hveragerði þar sem nokkrir unglingar skemmtu mínu fólki með því að stökkva niður í hyl við fallegan lystigarð. Mínu fólki var mjög skemmt. Hádegisskemmtun! Við gistum tvær nætur á hótel Hamri við golfvöllinn. Ýmislegt hægt að skoða á þessu svæði og allt er fallegt í sólskini. Næstu tvær nætur vorum við á Ísafirði. Vigur, Bolungarvík og svo auðvitað minn fallegi Tungudalur. Þá var ferðinni heitið yfir á Látrabjarg. Í fögru veðri er ekki hægt annað en að gleðjast hér þótt rútan hafi nú einmitt kveikt viðvörunarljós um að bremsurnar væru eitthvað til travala! En hæstu fjallvegirnir eru nú þegar búnir svo þetta gengur örugglega yfir á Akureyri þar sem hægt er að láta gera við?
Í Arnarfirði voru hvalir að leik þegar við ókum inn fjörðinn svo auðvitað stoppuðum við til að skoða leik þessara stóru dýra. Reyndar höfðum við verið svo heppin fyrr í ferðinni (Skötufirði) að selir sóluðu sig á skerjum, stór hópur. Við stoppuðum þar og nutum þess að horfa á þá í leik.
Gistingin á Breiðuvík var frábær og mitt fólk fékk sér göngu niður að sjó, stríddi kríunni á ströndinni örlítið, öllum til ánægju. Við vorum síðan á Blönduósi og Akureyri nokkrar nætur, Mývatnssveitin! Í raun þarf leiðsögumaður ekki að segja orð þarna þar sem náttúran segir allt sem segja þarf. En leiðsögumenn eru sér þjóðflokkur, þeir kunna ekki að þegja. Klúbburinn frá Kanada er nú að skipuleggja sína 3ju ferð með okkur árið 2014, mikið verður gaman að sjá þau aftur.
Á Þúfubjargi í apríl voru fuglar í kyrrð og ró. Ég var á ferð með Ameríkana og dóttur hans, prívatferð og algjör lúxus. Hann kom til að taka myndir af fuglum, meðal annars. Þegar við komum á Þúfubjarg henti karl steini niður í bjargið svo allir fuglarnir flugu upp. Ég skildi ekki hvaða styggð hefði komið að fuglunum fyrr en ég sá prakkarasvipinn á karli, þarna náði hann góðri mynd! Hann lofaði mér að hann skyldi aldrei gera svona aftur, en myndin er ein sú besta sem hann tók í túrnum. Hann sendi mér flott innbundna bók með öllum sínum myndum eftir túrinn.
Vestfirðirnir hafa verið vinsælir hjá mínum túristum þetta árið. Ég hef faríð þrisvar svar sinnum á Látrabjarg og Ísafjörð þetta sumarið. Alltaf í blíðu. Önnur ferð sem ég fór var með þrjá Amerikana. Þau voru áhugasöm og þægileg. Hugsuðu vel um mig svo þetta var skemmtileg tilbreyting frá því að vera með hóp. Ég var mjög stolt að geta sýnt þeim allar okkar helstu náttúruperlur í sólskini. Ekki spillir fyrir að hafa selahópana liggjandi á skerjunum úti fyrir Hvítanesinu í Djúpinu. Selirnir meira að segja busluðu í sjónum rétt við ströndina okkur til yndisauka.
Ég lagðist á magann á Látrabjargi til að ná góðri mynd af lundanum, þessum fallega prófasti, fyrir hana Lil, en úpps - gleymdi að taka mynd fyrir sjálfa mig.
Við Hraunfossa eitt sinn sá ég bjórdós inni í runna. Ég er agaleg, get ekki séð rusl á víðavangi í friði og fór því inn í runnann og sótti dósina. Í því kemur Bev, minn túristi, og segir "Gugga, you shouldn't be drinking so early in the morning". Hátt og snjallt þannig að hjón með dóttur sína, sem áttu leið hjá, litu á okkur. Ég henti dósinni í næstu ruslatunnu. Þegar ég er að keyra af stað frá Hraunfossum eru hjónin með dótturina á bílastæðinu og litu undrandi á mig. Ég átti alveg eins von á að lögreglan myndi stöðva mig fyrir "Bakkus undir stýri".
Að fara Kjöl í logni og sólskini er meiriháttar þótt vegurinn væri ekkert nema þvottabretti. Bæði Hofsjökull og Langjökull skörtuðu sínu fegursta. Ferðin tók nokkrar klukkustundir en af og til stoppuðum við einungis til að njóta fegurðarinnar. Það var vissulega fagurt til fjalla þann daginn. Í síðustu ferð minni í Mývatnssveitina, lok ágúst, var sólskin og logn en nokkuð kalt. Útsýnið glæsilegt. Ég ók upp að Kröfluvirkjun, hvítir toppar fjallanna voru svo skýrt afmarkaðir frá grænum hlíðunum í kring. Við Víti var allt hvítt, 10 cm snjólag, sól, logn - ótrúleg náttúra. Undraland.
Allar þær ferðir sem ég hef farið í sumar um Austfirðina hef ég fengið þoku eða rigningu. Eins og Austfirðirnir eru fallegir þá er hreinasta frat að geta ekki sýnt þá fegurð. Steinasafnið hennar Petru bjargar þó yfirleitt Austfjörðunum og svo Eggin í Gleðivík, sem var gott innlegg í túrismann.
Jökulsárlón, þetta er einn af þeim stöðum sem kemur öllum í rútunni/bílnum til að segja 'VÁ'! með tilfinningu. Ég hef aðeins einu sinni "lent í því" að ekki kom stuna né hósti upp úr túristunum þegar við komum að þessari perlu okkar. Og auðvitað minnist ég þess alla tíð, hópurinn sem ekki sagði VÁ. Skógafoss er búinn að vera í hinum ýmsu litbrigðum þetta sumarið: stundum kolsvartur, stundum mórauður og stundum tær, jafnvel vatnslítill um tíma. Allir okkar fossar hafa verið fremur vatnslitlir svona framan af sumri, nema Urriðafoss - hann hefur haldið sínu vatnsmagni að mestu. Ég segi stundum við túristana mina að eftir heimsókn til Íslands muni þeir ekki vilja sjá fleiri fossa, en þeir eru alltaf á annarri skoðun.
Tvö, sem ég var með í tíu daga túr, sögðu mér að eftir ferð um Ísland og heimsóknir sínar að öllum fossunum, þá vilji þau aðeins sjá fallega fossa í framtíðinni - þau eru orðin 'Fossa-snobbarar'. Það er reyndar eitthvað til í því!
Norðurljósin eru vinsæl. Í apríl gisti ég á Búðum með tvö í prívatferð. Um miðnætti varð mér litið út um gluggann og sá að norðurljósin voru dansandi á himninum svo ég hljóp niður á barinn og lét mitt fólk vita. Til að halda á sér hita tóku þau með sér koníak, tóku myndir og drukku stíft til kl. fjögur að morgni. Daginn eftir var ekki lagt mjög snemma af stað . . . en, norðurljósmyndirnar voru góðar. Það sama var núna í september og þá á Íslandia hótelinu, skólahópurinn var allur úti rétt fyrir miðnætti. Það voru stoltir nemar sem sýndu mér myndirnar sínar daginn eftir.
Svo var það fjölskyldan frá Utah, ellefu manna hópur. Við fórum hringferð, en byrjun ferðarinnar var alls ekki skemmtileg, hífandi rok og rigning svo að rútan lék á reiðiskjálfi fyrir nesið á Snæfellsnesinu. Að geta ekki gengið um Arnarstapa vegna veðurofsa í júlí er óvenjulegt. Vestmannaeyjar bættu þó fyrir þetta, þar var logn, hlýtt og sólin skein. Þarna var þeirra uppruni ásamt svæðinu undir Eyjafjöllum, sem við auðvitað heimsóttum líka.
Frábært sumar með skemmtilegu fólki!
Um bloggið
Guðbjörg Bragadóttir
Færsluflokkar
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.