17.10.2008 | 07:35
16. og 17.10.
16.10. Australian Zoo og Montville. Rignir i Montvill svo allir fengu ser regnhlif. Bilstjorinn sagdist hafa bokad rigningu af thvi hann aetti hlut i regnhlifaverksmidju. Allt of stutt stopp og svo yfir i dyragardinn. Thar skiptist folk i hopa, sumir foru a syningu med tigrisdyrum og filum, adrir a syningu med krokodilum og fuglum. Um kvoldid forum vid yfir a South Bank a kinverskan stad. Simon blekkti alla med ad nu skyldum vid laedast ut, lata sem ekkert vaeri og ekki borga. Tekid mjog alvarlega, en ad lokum komst upp um hann, hann hafdi borgad fyrir alla! Gott kvold sem endadi i spilavitinu.
17.10. Aetlunin var ad setja inn myndir, en nu erum vid a Fraser Island og thar er ekki haegt ad setja tolvu i samband inni a herbergi. Vid komum her um kl. 2 og engin sol, en fljotlega for ad skina sol. Dagurinn i dag for mest i ad slaka a i solinni, spjalla og dast ad frabaerri natturu. Her er otrulegt lif og nattura. I kvold er sjavarrettamaltid a hotelinu eftir ad vid munum horfa a solarlagid.
Thetta er stutt i dag tar sem erfitt er ad vera a netinu, eiginlega paradis stressmanns! Vonlaust ad hanga a netinu . . sjaumst a morgun.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.10.2008 | 13:05
Ástralía 15.10.
Sumir vöknuðu snemma í dag, tímamunur eitthvað að gera vart við sig, en allir sváfu þó vel. Morgunmatur og svo var rútan okkar komin og við af stað út úr borginni. Ekið í um 1.5-2 tíma og þá komum við í O´Reilleys vínbúgarðinn í vínsmökkun. Flestir vildu smakka vínið, en múskatið var vinsælast og auðvitað þetta líka fína súkkulaði. Húfur! Nóg af þeim hérna og þar sem fletsir höfðu gleymt þessari nauðsyn þá fóru nokkrar á íslensk höfuð.
Þá var að athuga hvort breiðnefurinn sæist í litla læknum, en þetta ástralska dýr lét ekki sjá sig.
Næst er það Lamington þjóðgarðurinn. Ástralir eru framarlega í náttúruvernd og strax um 1879 var stofnaður þjóðgarður í landinu. Fjölskylda stofnaði garðinn á fyrri hluta 20. aldar og nú hefur ástralska ríkið tekið við viðhaldinu.
Við fórum í göngu í toppi trjánna, á hengibrú um 25-30 metra hæð. Tré, sem er holt að innan er við hengibrúna og flestir fóru inn í það. Svo voru það fuglarnir, sem eru vanir að fá mat úr höndum, Ingibjörg skipaði einum að skíta á hattinn hjá Stjána og viti menn! Fuglinn skildi skipun á íslensku . . .
Fugl settist á Birnu - sú eina sem ekki vildi hafa fugl á öxlunum. Úppps
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2008 | 18:57
Ástralía
Nú er komið að því . . . Ástralía 2008
Ásgerður og Hulda settust á gólfið til hvíldar.
Símon, Karitas, Ingibjörg, Ævar, Kristján, Asgerður,
Gugga, Hulda, (neðar: ) Gauja og Birna.
Þá erum við komin! Hér er hópurinn kominn á bar í miðbæ Brisbane. Það gekk á ýmsu. Fyrst 2ja tíma seinkun hjá Flugleiðum ok, skiljanlegt. Þá 10 tíma bið í London, út í vél og allt í fína. Flogið í nærri 3 tíma en þá . . . flugvél snúið við, oh ekki aftur, eins og fyrir ári síðan. Ó, jú. Kona veik og ekki hægt að stoppa í Frankfurt svo farið aftur til London. Þetta þýðir 12 tíma seinkun. Allt í fína, allir jákvæðir, flugið gekk vel. þvílíkt róandi flugvöllur, bara 3ja tíma bið í næsta flug. Allir inn í vél, en . . út aftur flugstjóra líkaði ekki vélin svo við aftur inn í flutstöð og annað tékk. Hm, þetta er þó ekki flugrán segir Símon bara jákvætt. Önnur klst. seinkun. Svo sofið í vélinni og við lent í Brisbane um 8:30 að kvöldi í stað 6:30 að morgni. Rútan beið, greið leið í gegnum vegabréf og við á hótel um 9:30, gott hótel, STURTUR!
Svo út á lífið og sjáið! Okkur líður vel. Kæru vinir og vandamenn, endilega látið í ykkur heyra eða komið skilaboðum til okkar hérna megin.
Ferðalög | Breytt 15.10.2008 kl. 12:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.9.2008 | 13:02
Ísklifur með blinda Breta.
Ég hef verið lánsöm. Haft var samband við mig og ég beðin um að taka þriðja hópinn af blindum Bretum, svipaða túra og áður. Í þetta sinn eru 8 blindir og 9 sjáandi. Áhugasemin skín úr hverju andliti strax við móttöku á Keflavíkurflugvelli. Lending var ekki fyrr en um 10 að kvöldi svo við vorum komin á hótel um 11.30.
Fyrsti dagurinn var Reykjavíkurtúr og svo beint í Bláa Lónið. Við fórum frá hóteli inn í Laugardal og gengum þar um grasgarðinn. Friðsæld og fuglar á tjörnum. Þar útskýrði ég þvottalaugarnar og hin blindu nutu þess að geta snert grindur, fundið lykt af heitu vatni og snert styttu af þvottakonu. Þá héldum við yfir í garð Ásmundar Sveinssonar, Sæmundur á selnum og Móðir mín í Kví Kví vekja áhuga og tilfinningu fyrir þjóðsögum landsins. Sæfarið er fallegt og vel staðsett, þá ráðhúsið og banki í miðbænum, örlítið rölt framhjá Alþingishúsinu og svo í Perluna í hádegismat.
Bláa Lónið eftir hádegið, aðeins tvær fóru ekki ofan í - allir hinir 10 árum yngri og kátir eftir afslappandi bað. Ein draugasaga og önnur nútíma draugasaga, sem er alls ekki draugasaga.
Annar dagur og enn rignir í henni Reykjavík. Á Þingvöllum stytti upp og við gengum niður Almannagjá í þurru og logni. Öxará með sína sögu og hrifning hinna blindu yfir kyrrð og niði árinnar. Og nú yfir ömurlegan veg heiðarinnar til Laugarvatns, ekkert stopp fyrr en komið er á Gullfoss í mat. Kjötsúpa á línuna, jökullinn sýnir sig þrátt fyrir dimm ský á lofti! Svo gengið niður að fossi í þurru veðri. Fór að rigna þegar við komum upp frá fossinum, en svo mikill er kraftur og aðdráttarafl fossins að enginn tók eftir bleytu - ja, næstum enginn. Geysissvæðið næst, Strokkur gaus nokkrum sinnum fyrir mitt fólk. Nú þakka ég rigningunni fyrir skjót viðbrögð inn í bíl aftur. Faxi er næstur hjá okkur, hann er svo ótrúlega fallegur og svo sáum við 'hinir sjáandi' laxa stökkva. Er þetta réttur tími ársins fyrir laxastökk? Laxastiginn við fossinn gefur tilefni til spurninga og svo er réttin þarna líka, fólk á leið úr réttum allt í kring, ríðandi, gangandi, keyrandi . . . alls staðar iðandi líf. Skálholt næst, en þá var farið að blása verulega á okkur og helli demba. Ekkert Ker enn! Hveragerði með ísinn og þar stopp aðeins lengur en áætlað var af því allir fengu sér ís - þegar ein beljan byrjar . . . . ísinn er nú góður í Eden. Ég kunni ekki við að skoða hver liti á bakhlutann á Evu og hver á Adam. Hmmmm
Þá er Suðurströndin á dagskrá og ísklifur. Rigning í Reykjavík. Litum við í fjörunni á Eyrarbakka, en rigningin er svo mikil að sumir fóru ekki út. Arkitektinn í hópnum (sjáandi) tók margar myndir af gömlu húsunum, kirkjunni sérstaklega. Seljalandsfoss vekur mikla aðdáun, en þar sem mikið hefur rignt undanfarið þá eru ótal fossar fallandi niður Eyjafjöllin - að vísu 'runnu' flestir upp í þetta sinn vegna veðurs. Komum í Vík í hádegisverð og mitt fólk komst á flug í innkaupum. Þá er ferðinni heitið í Reynisfjöru, en . . . smalamennska í fullum gangi og leiðin niður eftir stífluð af kindum. Plan B - Dyrhólaey. Fáir á ferli og sjórinn í essinu sínu, hamaðist við klettana og sogaðist út aftur með miklum hljóðum og tilþrifum. Hinir blindu nutu þess að hlusta og finna atganginn. Svartur sandurinn vakti áhuga hinna sjáandi. Á sillu við sjóinn sat ungur skarfur og snyrti sig án þess að hirða neitt um forvitna útlendinga sem tóku myndir í gríð og erg. Þá er aðalefni dagsins næst, ganga og klifur á jökul. Allir vel klæddir - nema dóttir akritetksins (sjáandi lika). Ísskór mátaðir og þá var að finna réttan stað fyrir blinda að komast upp á ísinn. Það tókst og við röltum þarna um í rigningu en logni þó. Allir náðu að ganga með mannbrodda á fótunum og ísexina í hendi. Nokkuð erfitt fyrir þá óöruggu sem ekki höfðu verið blindir alla ævi. Það er auðvelt að sjá hverjir hafa nýlega misst sjón og hverjir hafa alla tíð verið blindir - öryggið/óöryggið segir alla söguna. Tvær eldri konur fóru ekki í jöklagöngu, þær höfðu ætlað sér að bíða á veitingastaðnum við jökulinn (?) á meðan við gengum . . . . rútan varð víst að duga í þetta sinn fyrir þær. Colin og Leslie eru hjón, annað hefur verið blint frá fæðingu, hitt sér örlítið en ekki nóg til að ganga óhindrað uppi á jökli. Hjá Skógarfossi var farið til að létta á sér, en of mikil rigning til að skoða.
Daginn eftir var frjáls dagur. Einhverjir fóru norður á Akureyri og Mývatn og fengu sól og frábært veður. Aðrir fóru í hvalaskoðun og sáu bæði hrefnur og háhyrninga. Enn aðrir fóru í aðra jöklaferð, á snjósleða upp á Mýrdalsjökul. Ekki síðri upplifun en jöklagangan, var mér sagt þegar ég kvaddi að morgni þriðjudagsins, eldsnemma að vísu en allt vískíið sem ég fékk að leiðarlokum - 'ekki drekka það allt í einu' sögðu þau mér! GJ travel sá um skipulagninguna, vel gert.
Ferðalög | Breytt 1.10.2008 kl. 11:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.9.2008 | 18:33
Blindir Bretar, hópur 2!
2. sept. Þá er næsti hópur af blindum Bretum kominn. Það byrjar þó ekki vel, þau komust ekki inn á herbergi sín á Hótel Vík fyrr en ég hafði hringt um allar trissur til að finna einhvern á vakt. Klukkan orðin tvö að nóttu þegar loks var hægt að komast í svefn.
3. sept. Reykjavíkurrúntur - aðeins litið inn í safn Ásmundar Sveinssonar, sólfarið skoðað og svo Perlan. Góður hópur, en mikið skrafað í rútunni. Ég reyni að koma sem flestu að á litlum tíma, en erfitt þar sem fólk er að kynnast og þarf að tala saman.
4. sept. Nú var gaman! Fólkið búið að kynnast töluvert vel eftir að borða saman á Aski í gærkvöld. Byrjuðum í Maríuhellunum, ótrúlegt hvað þau nutu þess að fara inn í hellinn og finna rakann. Þá yfir í Íshesta. Þau í Íshestum tóku afskaplega vel á móti hópnum, hestar úti í gerði og loks varð ég að klappa höndum saman til að kalla þau í burtu frá hestunum - sagði þeim að Bláa Lónið biði okkar . . . af stað aftur. Aðeins tvö í hópnum vildu ekki fara ofan í lónið, en ánægjuhljóðið í þeim sem fóru ofan í - óborganlegt fyrir leiðsögumann að heyra. Eini Amerikaninn í hópnum, Darren, vildi helst láta skilja sig eftir þarna og skæja sig daginn eftir - þú verður orðinn soðinn á morgun sagði Kristján bílstjórinn okkar. Þá hló Darren, þetta er bara mannasúpa hérna í Bláa Lóninu! sagð'ann. Og nú beint í Hafnarfjörðinn í álfagöngu - bara 14 tóku þátt í göngunni - góður dagur og veðrið frábært. Á morgun er Gullhringur . . .
5. sept. Þingvellir í allri sinni dýrð. Þrátt fyrir nokkra aðra hópa þarna talaði mitt fólk um hversu mikil þögnin og kyrrðin væri. Auðvitað allt fólk úr stórborgum. Svo yfir heiðina á Laugarvatn, stoppað næst á Gullfossi. Allir í kjötsúpuna góðu á Gullfosscafé, ég mæli alltaf sérstaklega með henni. Við gengum niður að fossi. Darren á ekki orð til að lýsa hrifningu sinni, kraftinum í fossinum og flestir voru sammála honum. Ég held að þeir blindu hafi notið göngunnar í gegnum úðann betur en hinir sjáandi.
Svo að Geysi - allir hræddir um að missa af gosinu í Strokki þegar hann gaus um leið og við lögðum bílnum. Ekkert að óttast, hann gýs aftur og aftur. Hér var annar klukkutími í stopp, minjagripir keyptir eins og þetta væri síðasta stoppið okkar á Íslandi. Aðallega tröll keypt, mig grunar að sagan um Bergþór í Bláfelli hafi átt einhver þátt í því.
90% af mínum túristum tala um að Gullfoss sé áhrifameiri en Strokkur. Þá er að athuga hvort einhver átti sig á nafni Faxa, hvað hann þýðir á ensku. Hér bárum við bílstjórinn fram brennivín og hákarl og þá gleymdist að athuga hvernig fossinn liti út m.t.t. nafns - mikið hlegið í bílnum á eftir. Þótt Faxi sé lítill miðað við Gullfoss, þá er hann stórkostlegur.
Þá er það Skálholt sem er næsta stopp. Við erum ótrúlega heppin. Í þetta sinn er sænskur kór að syngja í kirkjunni þegar við komum inn. Ég var spurð hvort ég hefði komið þessu í kring. "já, ég ýtti bara á takka . . . " Kórinn var góður.
Kerið er út úr myndinni, því miður. Hveragerði - Eden með Adam og Evu á útihurð - hægt að segja nokkuð frá þessu. Ís og þá aftur til Reykjavíkur. "Take-away" matur á Hótel Vík. Þau á Vík hafa heldur betur bætt fyrir klúðrið fyrstu nóttina. Ég og bílstjórinn vorum boðin í mat með hópnum og vaktmaðurinn á hótelinu tók í gítar og söng, öllum til mikillar ánægju.
6. sept. Sund, hestaferð hjá Íshestum.
7. sept. Suðurströndin, byrjar ekki vel. Rigning og rok í Reykjavik og Hellisheiði. Fórum Þrengslin og enn rignir. Stoppum á Eyrarbakka til að finna lykt af sjónum og sýna hvað gert er til að vernda þorpið fyrir ágangi sjávar. Þá stytti upp og rigndi ekki meir á okkur þann daginn fyrr en við komum aftur til Reykjavíkur (þar hafði rignt allan daginn). Hvolsvöllur í 'tæknistopp' og svo Skógarfoss. Flestir gengu allar +300 tröppurnar, en miklu meira er að sjá og finna fyrir niðri við fossinn sjálfan. Kistuna góðu sáum við - eða kannski var þetta regnbogi, náðum þó ekki gullinu í kistunni. Í Vík var hádegismatur og minjagripastopp. Þá Reynisfjara, hún er himnesk. Sérstaklega fyrir blinda sem geta fundið kraftinn í sjónum skella á sér, lyktin og umhverfið. Einn blindur og annar sjáandi höfðu ekki tekið mark á viðvörun minni um að hendi kæmi upp úr sjónum og gripi óviðbúna. Ég sótti þau og spurði hvort þau hefðu ekki trúað mér, jú jú - en þau ætluðu ekki nær en þar sem sjórinn kemur að. Sjórinn kemur að ykkur óvörum og það passaði, við nýfarin aðeins hærra upp þegar ein aldan fór langtum hærra en allar hinar, einmitt þar sem þau höfðu staðið sekúndum fyrr! Oh, er þetta svona lævís sjór hérna . . . og aftur haldið af stað yfir að Seljalandsfossi. Flestir gengu bak við fossinn þótt erfitt hafi verið fyrir blindan að klöngrast þetta upp. Hamingjan skein úr hverju andliti eftir þessa göngu, en þreyttur hópur kom svo til Reykjavíkur seint og um síðir.
8. sept. Frír dagur í söfnum um allan bæ. Í Sögusafninu í Perlunni fengu hinir blindu að snerta léttilega munina og það var hátíð í svipnum þegar þau sögðu frá þessu. Seinni partinn fóru 17 manns með í létta göngu í Esjuna. Passaði, fór að rigna þegar allir voru komnir inn í rútu!
9. sept. Kveðjustund! Gjöfum rigndi yfir mig og bílstjórann . . . enn einn frábær hópur farinn . . bú hú. Versta við að vera leiðsögumaður er að kveðja skemmtilegt fóllk, en ótrúlega margir hafa samband í tölvupósti seinna meir. www.kgbtours.is
Ferðalög | Breytt 14.9.2008 kl. 07:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.8.2008 | 13:32
Blindir Bretar á Íslandi
Fyrir rúmu ári hafði bresk ferðaskrifstofa samband við mig, þeir vildu senda blinda í ferð til Íslands. Ég sló til með að vera leiðsögumaður fyrir hópinn, en vissi í raun ekki hvernig ég ætti að leiðsegja blindum eða hvort það væri nokkuð öðru vísi en með sjáandi. Auðvitað er þetta viss áskorun. Tímasetningar voru staðfestar, ágúst árið 2008. Ákveðið að 18 manns komi, 9 blindir og 9 sjáandi, einn sjáandi til stuðnings hverjum blindum.
Ég sótti hópinn um miðnætti og daginn eftir fórum við Reykjavíkurrúnt. Ég ákvað að fara í safn Ásgríms Jónssonar því þar gátu þau þreifað á styttunum. Eftir það einhver rúntur um bæinn, höfnin, Perlan, Ráðhúsið og þaðan gengu þau svo um bæinn sjálf, frír dagur.
Mánudagur var frí hjá þeim, en ég hitti þau svo aftur á þriðjudegi, fór í Bláa Lónið og skildi þau svo eftir í miðbæ Hafnarfjarðar. Bláa Lónið gerir alltaf mikla lukku og þar stoppuðum við langtum lengur en ætlað hafði verið í upphafi. Erfitt að slíta fólk upp úr!
Miðvikudagurinn var Gullni hringurinn farinn. Þau gengu öll niður Almannagjá nema Liz, sem er tiltölulega nýlega búin að missa sjónina og er heldur óörugg með sig. Gangan gekk frábærlega og veðrið svo gott, kyrrðin og þögnin var það sem flestum fannst tilkomumikið. Þeir sjáandi lýstu vel umhverfinu svo að flestir þessara blindu gátu gert sér í hugarlund hvernig landslagið er. Áfram yfir á Laugarvatn. Ég stenst aldrei að sýna litlu Helgu laugina þar sem ég sat oft sjálf sem krakki. Vatnið og umhverfið er líka svo fallegt og friðsælt eftir hörmulega veginn yfir heiðina milli Þingvalla og Laugarvatns. Þá var Gullfoss café fyrir valinu í matinn og flestir fengu sér kjötsúpuna góðu. Gullfoss vakti mikla hrifningu, þessi ótrúlega mikla orka! Flestir gengu alla leið niður á klappirnar við fossinn. Þá var að líta á Geysi, hér er alltaf erfitt að draga fóllk í burtu, hægt að horfa endalaust á hverinn gjósa. Þá var það hann Faxi, svo ólíkur Gullfossi en þó svo stórkostlegur á sinn hátt, laxastiginn og réttin eru uppsprettur alls konar umræðu. Í Skálholti var eingöngu Barbara leiðsögumaður með systrum sínum að utan, en þær fóru fljótlega eftir að við komum inn. Eftir Skálholt var ekið beint í bæinn þar sem ekki má lengur stoppa við Kerið, þessa perlu "okkar". Afskaplega leiðinlegt, en fólk skilur þegar útskýrt er af hverju ekki er hægt að stoppa þarna framar.
Einn daginn fór allur hópurinn í gönguferð upp í hliðar Esju. Veðrið var yndislegt og allir nutu göngunnar, meira að segja bílstjórinn sem sjaldnast nennir að ganga, lét til leiðast. Enda hópurinn svo skemmtilegur, sagði bílstjórinn sjálfur. Svo fórum við í Íshesta að skoða hestana. Starfsfólkið var alveg einstaklega elskulegt, tók út hross fyrir okkur og þeir blindu fengu að fara inn í gerðið og klappa hestunum.
Og þá var eftir að fara Suðurströndina alla leið í Vík. Fossarnir eru svo fallegir hérna að enginn er ósnortinn eftir að hafa fundið kraftinn og úðann. Við urðum flest rennandi blaut. Aðal hvatamaður ferðarinnar, Amar, vildi fara alla leið að ánni þar sem fossinn fellur niður og þar sem hans sjáandi var slöpp bauðst ég til að leiða hann. Það var ekki nóg fyrir Amar að heyra niðinn og finna úðann. Við fengum okkur sturtu, að vísu í öllum fötunum, en ljóminn sem skein úr andlitum hinna blindu er ógleymanlegur. Stutt stopp í Vík til að borða og kaupa svolítið af minjagripum. Ég keypti 7 diska, Íslandslögin, til að spila fyrir túristana mína. Reynisfjara næst! Terry klilfraði upp í standbergið, sá maður er ekki hræddur við að reyna eitthvað nýtt.
Hákarl og brennivín í Reynisfjöru:
Logn, sól, hlýtt! Ekki hægt að koma í Reynisfjöru án þess að verða uppnuminn yfir náttúrufegurð. Ég er vön að segja mínum túristum að hérna komi hendi upp úr sjónum og grípi óviðbúna ferðalanga svo að enginn í mínum ferðum hættir sér of nálægt sjónum. Þá var ein perlan eftir á þessari ferð, Sólheimajökultungan. Skýjum létti af jöklinum þegar við ókum inn eftir. Allir vildu snerta jökul! Amar lét auðvitað ekki nægja að snerta, hann varð að fá að stíga á jökul, fór yfir lækjarsprænu og sjáandinn hans með þar sem hún var orðin betri. Hún beið þó fyrir neðan meðan Amar fór upp. Ég var búin að vara fólk við að jökull breyti sér fljótt og aldrei sé eins umhorfs þegar ég kem þarna þó aðeins líði vika eða mánuður milli heimsókna að jöklinum. Þarna komst Amar að því að ég hafði ekki ýkt neitt - áin hafði breytt sér a þessum 20 mínútum sem við stöldruðum við
og nú var erfitt fyrir Amar að finna hvar best var að komast til baka án þess að blotna í fætur. Það gekk reyndar ekki, skór og sokkar fylltust af vatni og aur, en mikið var hann glaður að hafa komist þetta - með hjálp bílstjórans okkar.
Yfirleitt er erfitt að kveðja góða hópa. Allir voru ánægðir og glaðir með ferðina og nú á ég enn eina góða minningu um skemmtilegan hóp og bíð spennt eftir næsta hópi af blindum, sem koma í september á þessu ári.
Reynisfjara, hluti af hópnum með brennivín og hákarl.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 13:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.2.2008 | 11:19
Draumaferð
Ástralía! Þessi heimsálfa þarna hinum megin á hnettinum það væri gaman að koma þarna svona einu sinni á ævinni.
Þegar ég fór í fyrsta sinn yfir hnöttinn hugsaði ég að þetta gerði ég einu sinni á ævinni, en heillaðist svo af þessu stóra landi að eftir nokkrar ferðir fer ég nú árlega. Móður mína langaði aftur til Ástralíu, halda þar upp á 80 ára afmæli sitt með börnum og tengdabörnum og slógum við til þeir sem komust, 5 manns, hittum þar bróður okkar og hans fólk, alls 9 manns saman á ferðalagi í 2 vikur. Mamma furðu hress eftir ferðina.
Fyrsti dagurinn fór í að jafna sig á tímamun og heilsa góðum vinum. Daginn eftir fórum við inn í borgina og keyptum skó til að geta gengið um kóralinn.
Nú byrjaði reglulegt ævintýri. Við lögðum af stað í norður frá borginni, 3ja tíma akstur áður en komið var í ferju. Sólin var heit svo nú var tækifæri til að 'hatta sig upp'. Sigling út í Fraser tók 45 mín. og þá sáum við fyrstu Paradísina. Þegar siglt er að eynni sjást engin hús, bara tré. Þegar komið er í land sjást hús, fallegt hótel og tilheyrandi aðstaða í skjóli milli trjánna. Eyjan er stærsti sandskafl í heimi, þó klædd gróðri frá hæstu hæðum að strönd. Á ströndinni sjást furðuleg mynstur, krabbaför var okkur sagt. Spor á sandinum voru eftir Dingohunda, sem þó láta ekki sjá sig fyrr en eftir myrkur. Til að upplifa glæsilegt, tindrandi sólsetrið ganga gestir niður á bryggju og setjast þar með góðan drykk. Fraser er þjóðgarður á heimsminjaskrá.
Landverðir bjóða upp á fyrirlestra um lífríkið og frumbyggjana. Þá er hægt að fara í vínsmökkun á hótelinu eða kvöldgöngu til að skoða dýrin, sem flest koma úr fylgsnum sínum þegar dimma tekur. Um morguninn fórum við í skoðunarferð með 4x4 trukkum, því enginn venjulegur fólksbíll getur keyrt í mjúkum sandinum. Við Frónbúarnir upplifðum göngu í regnskógi, sund í tæru vatni, róa kanó eftir á sem var umvafin þéttum gróðri.
Eftir 2 nætur á friðsælum sandskaflinum var haldið í norður í næstu Paradís, þó ekki síðri en sú fyrri. Svona hlýtur Himnaríki að vera! Tvo tíma tekur að sigla út í þessa litlu eyju, sem er 300x800m. Ferjan var hið besta lúxusfley. Hálftíma fyrir komu að bryggju kom starfsfólk ferjunnar með kampavín fyrir allan hópinn, skál fyrir eynni og fríinu! Eyjan er syðst í hinu töfrandi kóralrifi sem er á heimsminjaskrá. Munur á flóði og fjöru er um 2m. Hægt er að ganga út í kóralinn á fjöru og skoða stórkostlega litadýrð eða synda í hlýjum sjónum innan um kóralla og skrautlega fiska. Sumir leigðu sér köfunarbúnað, kennsla fór fram í sundlauginni. Þá hélt hver með sinn leigða búning niður í sjó, Hákarlavíkin var vinsælust. Litlir kóralhákarlar syntu við ströndina og notuðu sumir tækifærið til að halda í bakuggann og láta þá synda með sig. Á eynni er margs konar afþreying, sjóstangaveiði, gönguferðir með leiðsögn, sjóferð í glerbytnu. Auðvitað er líka hægt að slaka á og njóta sólar við sundlaugina. Versta við svona ferðir er að þær taka endi.
Við héldum af stað og nú aftur til Brisbane. Þetta er stórskemmtileg borg, margir góðir veitingastaðir, spilavíti, búðir og göngugötur, líf og fjör. Sigling á fljótinu er frábær, að sjá borgina frá öðru sjónarhorni geta farið af á ýmsum stöðum og litið inn í fjölmarga garða, m.a. einn með gangandi tré, sem hefur gengið yfir leikgrind og bekk. Nú klifra börnin í leikgrindinni og upp í tréð gangandi.
Margir þjóðgarðar eru í kringum þessa skemmtilegu borg og var ferðinni heitið í einn. Lamington þjóðgarðurinn er í fjöllunum og við fórum óvenjulega leið þangað. Ekki af ásettu ráði heldur með hjálp netsins. Það tók okkur langtum lengri tíma að komast í þjóðgarðinn heldur en ef við hefðum farið hefðbundna leið eftir þjóðveginum. Í staðinn upplifðum við að vera einu ferðalangarnir á vegunum og fengum illt auga frá nautunum sem við stugguðum frá til að komast leiðar okkar. Kyrrðin var einstök, verra þegar við komum inn í þjóðgarðinn sjálfan, á móti okkur kom rúta full af túristum á einbreiðum veginum. Allt fór þó vel og inn í garðinn komumst við. Ég hafði aldrei séð tré holt að innan, hélt það væri bara til í teiknimyndum! Mig hefur oft langað að ganga á hengibrú hátt í trjátoppunum, ganga um í regnskógi eða gefa páfagaukum í tugatali að éta úr lófanum, hér rættist þetta allt. Svo fórum við á vínbúgarð í nágrenninu, smökkuðum á nokkrum tegundum víns og stóðumst ekki mátið, allir fóru a.m.k. með eina flösku út.
Enn áttum við eftir að skoða Australian Zoo, heimili hins þekkta Crocodile Hunter. Þarna þarf að hafa góðan tíma því boðið er upp á sýningar þar sem krókódílum og tígrisdýrum er gefið, fílar, risaskjaldbökur, slöngur, kengúrur og dingohundar. Einn stað enn verð ég að nefna, galleríbærinn Montville. Íbúarnir eiga sínar litlu búðir: úrabúð, leðurbúð, dúkkubúð, málverk, kristall . . . .
Enn og aftur er ferðinni heitið til Ástralíu. Í þetta sinn mun ég sýna nokkrum Íslendingum þessa yndislegu staði, ferðin verður í október á þessu ári. Ferðalýsingu má sjá á www.kgbtours.is/astralia08.html eða hafið samband við Guðbjörgu í síma 899-1295 þegar nær dregur höldum við kynningarkvöld, förum yfir ýmis atriði og skoðum myndir.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 12:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.2.2008 | 11:12
helgarferð
Eina helgina var ég beðin um að fara með hóp af túristum í hinar ýmsu ferðir. Þessi hópur var mjög áhugaverður - einn frá Máritíus eyju í Indlandshafi, ein frá lítilli eyju rétt þar hjá, þrjú frá Kýpur, tvö frá Líbanon, ein frá Oman, ein frá Dubai, ein frá Englandi (hópstjórinn) og ein frá Filipseyjum. Hvataferð Avon fyrirtækisins, Ráðstefnur og Fundir sáu um skipulagningu, sem var frábær, Matti kann sitt fag. Að kvöldi fimmtudagsins átti ég að ganga með hópnum frá Hótel Borg og yfir á Fiskmarkaðinn í Aðalstræti. Þau eru nú ekki mikið að flýta sér, tók um 20 mín. að safna hópnum saman í anddyri hótelsins og í hvert sinn sem einhver kom niður þurfti annar aðeins að hlaupa upp á herbergi aftur. Loks tókst þetta, ég gekk með þeim yfir í Aðalstræti og skildi við þau þar, sagðist koma og sækja þau kl. 9:45 daginn eftir til að fara í Bláa Lónið.
Nú er kominn föstudagur, lítil rúta frá Hópbílum á að þjónusta okkur svo ég fór með rútunni niður í bæ. Enn er bið eftir fólkinu, en það er bara hluti af starfinu. Ég spurði hvernig maturinn á Fiskmarkaðnum hefði verið og fékk þau svör að allt hefði verið fullkomið, þjónustan, maturinn - bara allt! Æ! Fyrsta kvöldið fullkomið! Það verður erfitt að toppa þetta fyrir aðra staði. Loks komumst við af stað og klukkan orðin langt gengin í 11. Þau áttu pantað nudd milli kl. 11 og 12. Okkur tókst að komast í Lónið og nuddið - allir afslappaðir. Bláa Lónið gerir alltaf jafn mikla lukku, tala nú ekki um ef fólk fer í nudd og svo blár kokteil á eftir. Á leið í kokteilinn fékk ég skilaboð frá nokkrum um að fá óáfengan kokteil. Ah, því reddað og svo skálað. Nú var að koma liðinu upp úr (erfitt!) og í matinn, sem beið á veitingastaðnum. Það er ekki auðvelt að ná fólki upp úr yndislegu bláu vatninu. Svo settumst við til borðs, en þá vantar Filipseyinginn. Ég fór af stað að leita í búningsklefanum, en hún fannst ekki. Aftur af stað að leita og loks fann ég hana þar sem hún sat í veitingasalnum út við lón, átti eftir að klæða sig! Tókst loks, maturinn góður, en í stað þess að fara aftur í bæinn kl. 2 vorum við komin í bæinn kl. 4! Bílstjórinn átti að mæta út á völl kl. 4 í transfer, en fluginu seinkaði þannig að allt gekk upp. Aftur þurfti ég að ganga með þeim á veitingastað, nú Lækjarbrekku. Ljósmyndari var mættur á svæðið til að taka hópmynd fyrir framan veitingastaðinn. Myndin alveg frábærleg, var mér sagt seinna.
Þá kemur laugardagur og í dag eigum við að fara á hestbak hjá Íshestum, sem gekk vel þó Premye frá Dubai gæti ekki komist á bak. Hún hafði meitt sig á hné fyrir nokkru og það háir henni gífurlega. Við áttum þá bara skemmtilegar samræður meðan við biðum eftir hestafólkinu. Afskaplega skemmtileg kona - er frá Indlandi en hefur búið í Dubai í 30 ár. Filipseyingurinn! Hesturinn hennar tók sig til og hljóp út úr hópnum! Þó ekkert alvarlegt. Frá Íshestum fórum við í Fjöruna í hádegismat. Ég hvatti fólkið til að skoða staðinn, alla uppstoppuðu fuglana, útskurðinn - skemmtilegur staður. Þrír karlmennirnir í hópnum fóru um allt, þeir komu að vísu svolítið skrítnir á svip niður aftur, en enginn hugsaði um það. Maturinn góður og allir mjög ánægðir, mikið hlegið og spurt um alla golfvellina, álfana, huldufólkið og tröllin. Huldufólk og tröll vekja meiri áhuga heldur en staðreyndir - fyrir utan hversu marga golfvelli við höfum og svo auðvitað hvað allt er dýrt hérna. Nú héldum við í Laugar Spa. Gott að bílstjórinn vissi hvar átti að fara, ég hafði aldrei komið þarna áður. Alltaf eitthvað nýtt að læra. Það tók um 15-20 mínútur að koma hópnum (12 í allt) inn í Laugarnar af því það þurfti að augnskanna allan hópinn. Ekki tókst að skanna tvö svo mín augu urðu að notast fyrir þau líka. Mjög áhugaverður staður, en allir sammála um að Bláa Lónið bæri af. Þetta kvöld komust þau sjálf á Kaffi Reykjavík, sem heitir víst ekki Kaffi Reykjavík lengur - en maturinn var ágætur, sögðu þau mér. Ísbarinn lokaður, eina ástæðan fyrir því að staðurinn hafði verið valinn.
Nú er kominn sunnudagur og veðrið alveg yndislegt, sól, kalt, snjór . . . hvað er betra en þetta fyrir jöklaferð!! Lagt af stað rúmlega 9 að morgni og klukkan orðin 10 þegar við komum á Þingvöll. Allt á kafi í snjó og túristum - útsýnið ótrúlega gott, glitrandi snjór eins og þúsundir demanta væru stráðir um allt. Íslenskan á 32 orð yfir mismunandi snjó. Áfram yfir heiðina til Laugarvatns og aðeins þurfti að hleypa úr dekkjum ofurbílanna, pumpa svo aftur í á Laugarvatni. Friðsældin yfir þessum litla bæ er einstök. Áfram er haldið, komum við til að skoða Gullfoss, Gullfoss kaffi tafði okkur auðvitað með öllum sínum vörum fyrir túrista, bækur um huldufólkið og tröllin, sem mitt fólk vissi nú allt um. Bílstjórarnir og ég notuðum tækifærið og fengum okkur góðan mat, þeir á Gullfoss kaffi bjóða upp á svo góðan mat. Og nú var haldið aftur af stað yfir fönnina upp á Bláfellsháls. Bergþór sást á göngu upp fjallið og ekki þurfti neitt ímyndunarafl til að sjá hann þarna með stafinn sinn, sem vantar dálítið á - hringinn sjálfan, sem er auðvitað húnninn á kirkjunni í Haukadal. Matur lagður á borð fyrir mitt fólk úti undir beru lofti og svo beint á sleða. Það er ekki hægt að hugsa sér neitt eins huggulegt og þetta: glitrandi snjór og sól svo ekki var einu sinni kalt þarna uppfrá. Allir þreyttir eftir ferðina svo ég varð að passa að segja ekki frá of miklu. Eitt kom þó upp úr dúrnum á leiðinni til baka, hann frá Máritíus eyju sagðist ekki geta farið frá Íslandi nema hann fengið að vita af hverju uppblásnu dúkkurnar hefðu verið á loftinu í Fjörunni! HA . . . ó - var það þess vegna sem þeir voru svona undirleitir þarna daginn áður við matinn eftir að hafa skoðað Fjörukrána! Ég lofaði að athuga þetta - Jóhannes í Fjörukránni svaraði skilmerkilega, grín vina í fertugsafmæli kvöldinu áður. Þeir gáfu þrjár (3!!) uppblásnar dúkkur, sem voru svo skildar eftir þarna á loftinu, gleymdist að fjarlægja áður en við komum. Sem betur fer voru mínír menn búnir að jafna sig á sjokkinu og við gátum öll skemmt okkur yfir þessu seinna um kvöldið.
Þetta kvöld fórum við öll, ég boðin með, á veitingastaðinn Við Tjörnina. Aðeins skyggði á að Filipseyingurinn og Oman búinn höfðu dottið af sleða og fóru á slysadeild í skoðun - hin 3 sem voru með í bílnum fóru með og þau komu svo öll um kl. 21:30 á veitingastaðinn. Um 23 var komið að kveðjustund, ég var búin að eiga skemmtilega daga með hópnum, alltaf erfitt að kveðja góða hópa, en það er víst hluti af starfinu líka!
Ferðalög | Breytt 13.3.2008 kl. 12:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Guðbjörg Bragadóttir
Færsluflokkar
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar