Bretar, sem reyndust vera Bandaríkjamenn . . .

Mér var boðið í sextugsafmæli föstudagskvöldið 18. des. Frábært. Svo kom beiðni um að fara nokkra túra, Gullna, Suðurströnd, sækja og skila á flugvöll. Hm, alveg að koma jól, en þetta er svo sem alveg í lagi, sameina sextugsafmælið með transferi frá flugvelli á hótel þar sem afmælið var hvort eð er í Garðinum. Stutt á flugvöllinn þaðan og flugvélin átti að lenda kl. 23:35. Afmælið hans mágs míns var afskaplega skemmtilegt, svo vægt sé til orða tekið. Mjallhvítar-leikurinn var góður og vakti mikinn hlátur. Ég fór inn á Textavarpið og þar stóð að áætluð lending vélarinnar frá London Heathrow væri kl. 00:10 - smá seinkun. Aftur inn á textavarp og nú var áætluð lending kl. 01:30. Aumingja gestgjafarnir (systir mín og mágur) þurftu að sitja uppi með mig og minn mann þar til tími var til að fara á flugvöllinn. Áttum reyndar góða stund, spjall og bara gaman þótt við værum orðin dálítið þreytt. Loks lenti vélin og við vorum komin á völlinn. Mitt fólk var fljótt að komast út úr tollinum þar sem þau voru aðeins með handfarangur, enda stoppuðu þau aðeins fram á mánudag (þ. 21.12.). Kom í ljós að þau voru frá Bandaríkjunum, búa og vinna í London þar til í mars 2010 og nú eru þau að ferðast eins mikið og mögulegt er um Evrópu þar til þau flytja aftur til USA. Ungt fólk og strax góður andi milli okkar. Við ókum þeim á hótel Barón, þá var að koma sér heim, ná sér niður áður en farið var í rúmið um kl. 03:00. Gott að geta sofið alveg út þennan morgun - alveg til kl. 8:30. Sumir eru bara morgunmenn og geta ekki breytt því alveg sama hvað þreyta segir eða hvað er í húfi.

Daginn eftir - 19. des. Æi, mig langar svo á fyrirlestur í Þjóðminjasafninu, en það er enginn tími til þess. Sonardóttir mín er að spila í jólaþorpinu og mig langar líka að hlusta á hana spila, fara svo og kaupa síðustu jólagjafirnar, fara út með hundinn, fara í jólaboð með tengdafólkinu um kvöldið. Þar gat ég ekki alveg slakað á þar sem túristarnir mínir vildu endilega sjá Norðurljósin, ef mögulegt væri. Spáin reyndar gaf ekki góðar vonir um Norðurljós þetta kvöld, en ég vildi samt vera viss. Sendi svo sms til að láta vita að engin Norðurljós sæjust og þá var hægt að halda áfram að vera í jólaboðinu. Daginn eftir, sunnudaginn 20. des., var áætlað að fara Suðurströndina, fara inn að Sólheimajökli líka. Þá var bara að koma sér heim úr jólaboðinu um miðnætti - stundum er gott að vera morgunmaður þótt farið sé seint í rúmið!

20. des. og veðrið er gott í höfuðborginni, reyndar svo fallegt! Sóttum túristana á hótel og út úr bænum austur á Bakka (Eyrarbakka). Hérna átti ég margar skemmtilegar stundir sem barn hjá ömmu minni.  Amma, sem þorði ekki að gráta þegar afi minn dó af því hún hélt hún gæti þá ekki hætt að gráta. Hún átti þó sína huggun, var ófrísk að mömmu minni og átti þessa 5 fallegu stráka. Nýlega fékk ég í hendur nokkur bréf, sem afi minn hafði skrifað ömmu á árunum 1916 til 1926. 

ASólarupprásfskaplega falleg bréf, sem sýndu vel hversu mikið hann hugsaði til þeirra meðan hann var á vertíð í Eyjum. En þetta er víst allt önnur saga. Eyrarbakki hefur að vísu ekki mikið breyst síðan þá nema að sjóvarnargarðurinn er orðinn breiðari og höfnin er ólík því sem var. Eyrarbakki á sér töluvert langa sögu, sem gaman er að segja frá.

Áfram austur yfir Þjórsá, Hvolsvöll og smá stopp að Hlíðarenda. Þar er alltaf gott að stoppa, kaffi og með'í. Áfram í austur og við blasir Seljalandsfoss. Ég hef ekki sé fossinn svona fyrr: auð jörð allt í kring og allt hvítt bara í kringum fossinn sjálfan. Úðinn og frostið hafa leikið sér mikið undanfarna daga og skapað ótrúlega fallega veröld. Svo var sólin að koma upp og kastaði rauðgullnum blæ yfir og allt í kring. Svona fegurð er ekki hægt að sleppa - stopp til að mynda!

13joqio.jpgTveir fóru svo nálægt fossinum að þeir komu eins og klakabrynjur til baka, fóru úr buxunum til að þurrka þegar inn í rútuna kom. Greyin, þeim var aðeins kalt. Áfram inn að Sólheimajökli, vindurinn farinn að gnauða ansi hátt á leiðinni og topplúgan á rútunni fauk upp tvisvar, en mínir menn á undirbuxunum náðu að koma lúgunni niður aftur. Svo gengum við öll inn að jökli, þessir tveir 'klakabrynjar' þurftu endilega að fara lengra upp á jökultunguna en aðrir og annar þeirra fór ofan í gamlan svelg, komst ekki upp úr af sjálfsdáðum. Ekkert rok þar, áin eins og lítil lækjarspræna, jökullinn blár og fegurð íssins ótrúleg. Auðvitað gleymdi ég myndavélinni, ótrúleg gleymska, ófyrirgefanleg. 15zgqui.jpgKlakabrynju nr. 1 var komið upp úr svelgnum og nú var rokið orðið %#mikið  (of ljót orð hér) svo við fórum inn að Skógasafni, héldum þar væri opið til að fá sér hádegismat, en svo var ekki. Stoppuðum við Skógafoss og eins og við Seljalandsfoss var hér allt ísi lagt bara í kringum fossinn. Samspil íss og frosts getur orðið verulega gott. Þá er að halda til baka undir Eyjafjöllin. Hér finnst mér vanta skilti sem segir til um vindhraða! Ég hef lent í sviptivindum/fallvindum bæði hér og nálægt Pétursey, bæði sem bílstjóri og leiðsögumaður, en aldrei lent í þvílíkum vindhraða - fór upp í 34.2 metra á sekúndu fékk ég að vita hjá veðurstofunni daginn eftir. Ekki skrítið þótt topplúga rútunnar fyki út í veður og vind og svo út á sjó! 19ipqmm.jpg

Ansi kalt í bílnum yfir á Hvolsvöll þar sem við fengum góða aðstoð frá rekstraraðila. Hann var kominn upp á rútu með plastrúllu, plastaði yfir opið lúgugatið og komst svo ekki niður aftur. Klakabrynjurnar mínar fóru út og hjálpuðu honum niður aftur. Svo var bara tíðindalaust yfir á Urriðafoss nema hvað við tókum eftir að allir hestar fældust þegar við keyrðum framhjá, lætin í plastinu voru þvílík. Urriðafoss skartaði vetrarfegurð sinni, frosinn að hálfu leyti. Áfram veginn og þegar við fórum fram hjá Hveragerði fauk plastið af topplúgunni svo það tók að kólna í bílnum. Við klæddum okkur öll í þær flíkur sem til voru og lifðum af til Reykjavíkur.

24sppkn.jpg

Og þá er það 21. desember, styðsti dagur ársins og ég búin að lofa að fara Gullhring með fólkið. Topplúgan farin á haf út og þá er bara að bjarga sér á annan hátt. Ekkert kom upp á í þessari ferð, Gullfoss alltaf fallegur og nú eins og alltaf spurði ég hvort væri tilkomumeira svæði, Gullfoss eða Geysir. Fékk ekki svar, en hestarnir, sem við stoppuðum hjá vöktu þvílíka ánægju - að mér læddist sá grunur að hestarnir hefðu vakið meiri athygli en allt landslag í kring. Ekkert undarlegt við það, allt stóðið hljóp til túristanna þar sem þeir stóðu við girðinguna og tóku myndir í gríð og erg. Laugarvatn var baðað sólskini, vatnið frosið að hluta. Svo komum við til Þingvalla þar sem sólin var að renna til viðar, allt of kalt til að ganga upp á Hakið og við höfðum hvort eð er ekki mikinn tíma, þau þurftu að komast út á flugvöll fyrir kl. 15:00 þar sem flugið var kl. 17:00. Bandaríkjamenn, sem búa í London - gaman að hitta ykkur og vonandi tókst mér að vekja áhuga á Íslandi á annan hátt en bankahrunið hefur gert.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Guðbjörg Bragadóttir

Höfundur

Guðbjörg Bragadóttir
Guðbjörg Bragadóttir

Leiðsögumaður

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 20130921 114851
  • ...19ipqmm
  • ...24sppkn
  • ...15zgqui
  • ...13joqio

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband