Allra þjóða kv....

Skemmtiferð í snjó og brjáluðu veðri? Jú, það getur verið skemmtilegt. Að minnsta kosti þegar ferðinni er lokið og allt fór vel - að mestu. Þetta var svona venjuleg helgarferð með fólk frá alþjóðlegu fyrirtæki, fólk frá hinum ýmsu löndum, fólk sem hafði selt best á árinu og fékk ferðina sem eins konar bónus. Hópurinn sóttur á föstudegi og ekið beint í Bláa Lónið þar sem kokteill með tilheyrandi beið allra. Ekki veitir af að minna fólk á að skilja ekki eigur sínar eftir í hvíta sloppnum sem það fær - 150 hvítir sloppar og einhver minnist þess að hafa gleymt myndavélinni í hvíta sloppnum. Vonlaust að finna út úr því.

Þá kemur laugardagurinn og nú á að fara á snjósleða. Spáin nokkuð góð, sól en talsverður vindur. Á að lægja seinni partinn, segir spáin. Við af stað snemma að morgni, brunað austur með einu 'tæknistoppi' og svo upp á Bláfellsháls. Fólkinu hjálpað að galla sig upp, áfram keyrt yfir skaflana alla leið upp að Skálpa. Þá farið að blása nokkuð vel, en vegslóðinn sést þó þokkalega. Mitt fólk skemmti sér konunglega á sleðunum og alltaf bætti í vindinn. Þegar þau loks koma til baka er farið að blása svo hressilega að skafrenningurinn fyllir hvert spor og stingur í augu svo varla var hægt að halda þeim opnum. Við lögðum af stað niður aftur, en á leiðinni mættum við nokkrum ofurjeppum svo ekki var hægt að fara hratt yfir. Nú var farið að blása það vel að þótt ofurjeppi væri á undan okkur þá skóf jafnóðum í hjólför hans og ég og bílstjórinn sáum ekki neinn slóða framundan. Ég hafði augun á gulu stikunum til hliðar við veginn, bílstjórinn með hausinn út um gluggann og þannig náðum við niður á Bláfellsháls og allir ánægðir með að komast út úr hvítum sortanum. Þar beið brennivín, allir afklæddust (þ.e.a.s. göllunum) og nú haldið aftur í siðmennnguna á Gullfosscafé þar sem okkar beið hádegismatur, að vísu síðbúinn hádegismatur þar sem fegurðin á leiðinni var þvílík að við vorum beðin um að stoppa tvisvar svo hægt væri að taka myndir af sólinni og hvítri breiðunni svo langt sem augað eygði. Þvílík fegurð. Að gleyma myndavélinni er ófyrirgefanlegt -

Maturinn á Gullfosscafé góður eins og venjulega og nú ekið yfir að Geysi. Á hverasvæðinu var flughált. Nokkra sá ég steypast á afturendann og það sem verra var: hausinn líka. Ein úr mínum hópi lá kylliflöt með hnéð undir sér og gat ekki staðið upp í nokkurn tíma. Ég vona að hún hafi ekki verið illa slösuð eftir byltuna.

Þá fórum við yfir til Þingvalla. Upp frá Laugarvatni þurftum við að bíða í um hálftíma meðan bíll var dreginn upp. Sá hafði skautað út af veginum, en þó réttu megin þannig að hann fór ekki rúllandi niður hlíð heldur upp í kant. Enginn alvarlega slasaður þar, sem betur fór. Vegurinn yfir að Þingvöllum var ein glæra, en yfir komumst við. Þar sem kalt var og farið að rökkva þegar við komum til Þngvalla, ákváðum við að fara beint upp á Hakið og hafa yfirsýn yfir svæðið. Einhver tók eftir að upp úr fjalli einu stóð logi. Hvað er þarna? Eldgos?? Ég gerði mér grein fyrir að þarna var tunglið að sýna sig en þó svo lágt á lofti að ekki sást neitt nema bjarminn upp yfir topp fjallsins. Gott að ráðamenn þjóðarinnar geta ekki skattlagt náttúrufegurð af þessu tagi! Seinna um kvöldið náði ég svo að sjá Norðurljósin flökta um himininn . . .


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Guðbjörg Bragadóttir

Höfundur

Guðbjörg Bragadóttir
Guðbjörg Bragadóttir

Leiðsögumaður

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 20130921 114851
  • ...19ipqmm
  • ...24sppkn
  • ...15zgqui
  • ...13joqio

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband