4.9.2008 | 18:33
Blindir Bretar, hópur 2!
2. sept. Þá er næsti hópur af blindum Bretum kominn. Það byrjar þó ekki vel, þau komust ekki inn á herbergi sín á Hótel Vík fyrr en ég hafði hringt um allar trissur til að finna einhvern á vakt. Klukkan orðin tvö að nóttu þegar loks var hægt að komast í svefn.
3. sept. Reykjavíkurrúntur - aðeins litið inn í safn Ásmundar Sveinssonar, sólfarið skoðað og svo Perlan. Góður hópur, en mikið skrafað í rútunni. Ég reyni að koma sem flestu að á litlum tíma, en erfitt þar sem fólk er að kynnast og þarf að tala saman.
4. sept. Nú var gaman! Fólkið búið að kynnast töluvert vel eftir að borða saman á Aski í gærkvöld. Byrjuðum í Maríuhellunum, ótrúlegt hvað þau nutu þess að fara inn í hellinn og finna rakann. Þá yfir í Íshesta. Þau í Íshestum tóku afskaplega vel á móti hópnum, hestar úti í gerði og loks varð ég að klappa höndum saman til að kalla þau í burtu frá hestunum - sagði þeim að Bláa Lónið biði okkar . . . af stað aftur. Aðeins tvö í hópnum vildu ekki fara ofan í lónið, en ánægjuhljóðið í þeim sem fóru ofan í - óborganlegt fyrir leiðsögumann að heyra. Eini Amerikaninn í hópnum, Darren, vildi helst láta skilja sig eftir þarna og skæja sig daginn eftir - þú verður orðinn soðinn á morgun sagði Kristján bílstjórinn okkar. Þá hló Darren, þetta er bara mannasúpa hérna í Bláa Lóninu! sagð'ann. Og nú beint í Hafnarfjörðinn í álfagöngu - bara 14 tóku þátt í göngunni - góður dagur og veðrið frábært. Á morgun er Gullhringur . . .
5. sept. Þingvellir í allri sinni dýrð. Þrátt fyrir nokkra aðra hópa þarna talaði mitt fólk um hversu mikil þögnin og kyrrðin væri. Auðvitað allt fólk úr stórborgum. Svo yfir heiðina á Laugarvatn, stoppað næst á Gullfossi. Allir í kjötsúpuna góðu á Gullfosscafé, ég mæli alltaf sérstaklega með henni. Við gengum niður að fossi. Darren á ekki orð til að lýsa hrifningu sinni, kraftinum í fossinum og flestir voru sammála honum. Ég held að þeir blindu hafi notið göngunnar í gegnum úðann betur en hinir sjáandi.
Svo að Geysi - allir hræddir um að missa af gosinu í Strokki þegar hann gaus um leið og við lögðum bílnum. Ekkert að óttast, hann gýs aftur og aftur. Hér var annar klukkutími í stopp, minjagripir keyptir eins og þetta væri síðasta stoppið okkar á Íslandi. Aðallega tröll keypt, mig grunar að sagan um Bergþór í Bláfelli hafi átt einhver þátt í því.
90% af mínum túristum tala um að Gullfoss sé áhrifameiri en Strokkur. Þá er að athuga hvort einhver átti sig á nafni Faxa, hvað hann þýðir á ensku. Hér bárum við bílstjórinn fram brennivín og hákarl og þá gleymdist að athuga hvernig fossinn liti út m.t.t. nafns - mikið hlegið í bílnum á eftir. Þótt Faxi sé lítill miðað við Gullfoss, þá er hann stórkostlegur.
Þá er það Skálholt sem er næsta stopp. Við erum ótrúlega heppin. Í þetta sinn er sænskur kór að syngja í kirkjunni þegar við komum inn. Ég var spurð hvort ég hefði komið þessu í kring. "já, ég ýtti bara á takka . . . " Kórinn var góður.
Kerið er út úr myndinni, því miður. Hveragerði - Eden með Adam og Evu á útihurð - hægt að segja nokkuð frá þessu. Ís og þá aftur til Reykjavíkur. "Take-away" matur á Hótel Vík. Þau á Vík hafa heldur betur bætt fyrir klúðrið fyrstu nóttina. Ég og bílstjórinn vorum boðin í mat með hópnum og vaktmaðurinn á hótelinu tók í gítar og söng, öllum til mikillar ánægju.
6. sept. Sund, hestaferð hjá Íshestum.
7. sept. Suðurströndin, byrjar ekki vel. Rigning og rok í Reykjavik og Hellisheiði. Fórum Þrengslin og enn rignir. Stoppum á Eyrarbakka til að finna lykt af sjónum og sýna hvað gert er til að vernda þorpið fyrir ágangi sjávar. Þá stytti upp og rigndi ekki meir á okkur þann daginn fyrr en við komum aftur til Reykjavíkur (þar hafði rignt allan daginn). Hvolsvöllur í 'tæknistopp' og svo Skógarfoss. Flestir gengu allar +300 tröppurnar, en miklu meira er að sjá og finna fyrir niðri við fossinn sjálfan. Kistuna góðu sáum við - eða kannski var þetta regnbogi, náðum þó ekki gullinu í kistunni. Í Vík var hádegismatur og minjagripastopp. Þá Reynisfjara, hún er himnesk. Sérstaklega fyrir blinda sem geta fundið kraftinn í sjónum skella á sér, lyktin og umhverfið. Einn blindur og annar sjáandi höfðu ekki tekið mark á viðvörun minni um að hendi kæmi upp úr sjónum og gripi óviðbúna. Ég sótti þau og spurði hvort þau hefðu ekki trúað mér, jú jú - en þau ætluðu ekki nær en þar sem sjórinn kemur að. Sjórinn kemur að ykkur óvörum og það passaði, við nýfarin aðeins hærra upp þegar ein aldan fór langtum hærra en allar hinar, einmitt þar sem þau höfðu staðið sekúndum fyrr! Oh, er þetta svona lævís sjór hérna . . . og aftur haldið af stað yfir að Seljalandsfossi. Flestir gengu bak við fossinn þótt erfitt hafi verið fyrir blindan að klöngrast þetta upp. Hamingjan skein úr hverju andliti eftir þessa göngu, en þreyttur hópur kom svo til Reykjavíkur seint og um síðir.
8. sept. Frír dagur í söfnum um allan bæ. Í Sögusafninu í Perlunni fengu hinir blindu að snerta léttilega munina og það var hátíð í svipnum þegar þau sögðu frá þessu. Seinni partinn fóru 17 manns með í létta göngu í Esjuna. Passaði, fór að rigna þegar allir voru komnir inn í rútu!
9. sept. Kveðjustund! Gjöfum rigndi yfir mig og bílstjórann . . . enn einn frábær hópur farinn . . bú hú. Versta við að vera leiðsögumaður er að kveðja skemmtilegt fóllk, en ótrúlega margir hafa samband í tölvupósti seinna meir. www.kgbtours.is
Um bloggið
Guðbjörg Bragadóttir
Færsluflokkar
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.