Blindir Bretar á Íslandi

Fyrir rúmu ári hafði bresk ferðaskrifstofa samband við mig, þeir vildu senda blinda í ferð til Íslands. Ég sló til með að vera leiðsögumaður fyrir hópinn, en vissi í raun ekki hvernig ég ætti að leiðsegja blindum eða hvort það væri nokkuð öðru vísi en með sjáandi. Auðvitað er þetta viss áskorun. Tímasetningar voru staðfestar, ágúst árið 2008. Ákveðið að 18 manns komi, 9 blindir og 9 sjáandi, einn sjáandi til stuðnings hverjum blindum.

Ég sótti hópinn um miðnætti og daginn eftir  fórum við Reykjavíkurrúnt. Ég ákvað að fara í safn Ásgríms Jónssonar því þar gátu þau þreifað á styttunum. Eftir það einhver rúntur um bæinn, höfnin, Perlan, Ráðhúsið og þaðan gengu þau svo um bæinn sjálf, frír dagur. 

Mánudagur var frí hjá þeim, en ég hitti þau svo aftur á þriðjudegi, fór í Bláa Lónið og skildi þau svo eftir í miðbæ Hafnarfjarðar. Bláa Lónið gerir alltaf mikla lukku og þar stoppuðum við langtum lengur en ætlað hafði verið í upphafi. Erfitt að slíta fólk upp úr!

Miðvikudagurinn var Gullni hringurinn farinn. Þau gengu öll niður Almannagjá nema Liz, sem er tiltölulega nýlega búin að missa sjónina og er heldur óörugg með sig.  Gangan gekk frábærlega og veðrið svo gott, kyrrðin og þögnin var það sem flestum fannst tilkomumikið. Þeir sjáandi lýstu vel umhverfinu svo að flestir þessara blindu gátu gert sér í hugarlund hvernig landslagið er. Áfram yfir á Laugarvatn. Ég stenst aldrei að sýna litlu Helgu laugina þar sem ég sat oft sjálf sem krakki. Vatnið og umhverfið er líka svo fallegt og friðsælt eftir hörmulega veginn yfir heiðina milli Þingvalla og Laugarvatns. Þá var Gullfoss café fyrir valinu í matinn og flestir fengu sér kjötsúpuna góðu. Gullfoss vakti mikla hrifningu, þessi ótrúlega mikla orka! Flestir gengu alla leið niður á klappirnar við fossinn. Þá var að líta á Geysi, hér er alltaf erfitt að draga fóllk í burtu, hægt að horfa endalaust á hverinn gjósa. Þá var það hann Faxi, svo ólíkur Gullfossi en þó svo stórkostlegur á sinn hátt, laxastiginn og réttin eru uppsprettur alls konar umræðu. Í Skálholti var eingöngu Barbara leiðsögumaður með systrum sínum að utan, en þær fóru fljótlega eftir að við komum inn. Eftir Skálholt var ekið beint í bæinn þar sem ekki má lengur stoppa við Kerið, þessa perlu "okkar". Afskaplega leiðinlegt, en fólk skilur þegar útskýrt er af hverju ekki er hægt að stoppa þarna framar. 

Einn daginn fór allur hópurinn í gönguferð upp í hliðar Esju. Veðrið var yndislegt og allir nutu göngunnar, meira að segja bílstjórinn sem sjaldnast nennir að ganga, lét til leiðast. Enda hópurinn svo skemmtilegur, sagði bílstjórinn sjálfur. Svo fórum við í Íshesta að skoða hestana. Starfsfólkið var alveg einstaklega elskulegt, tók út hross fyrir okkur og þeir blindu fengu að fara inn í gerðið og klappa hestunum.

Og þá var eftir að fara Suðurströndina alla leið í Vík. Fossarnir eru svo fallegir hérna að enginn er ósnortinn eftir að hafa fundið kraftinn og  úðann. Við urðum flest rennandi blaut. Aðal hvatamaður ferðarinnar, Amar, vildi fara alla leið að ánni þar sem fossinn fellur niður og þar sem hans sjáandi var slöpp bauðst ég til að leiða hann. Það var ekki nóg fyrir Amar að heyra niðinn og finna úðann. Við fengum okkur sturtu, að vísu í öllum fötunum, en ljóminn sem skein úr andlitum hinna blindu er ógleymanlegur. Stutt stopp í Vík til að borða og kaupa svolítið af minjagripum. Ég keypti 7 diska, Íslandslögin, til að spila fyrir túristana mína. Reynisfjara næst! Terry klilfraði upp í standbergið, sá maður er ekki hræddur við að reyna eitthvað nýtt.

Hákarl og brennivín í Reynisfjöru: 

1

Logn, sól, hlýtt! Ekki hægt að koma í Reynisfjöru án þess að verða uppnuminn yfir náttúrufegurð. Ég er vön að segja mínum túristum að hérna komi hendi upp úr sjónum og grípi óviðbúna ferðalanga svo að enginn í mínum ferðum hættir sér of nálægt sjónum. Þá var ein perlan eftir á þessari ferð, Sólheimajökultungan. Skýjum létti af jöklinum þegar við ókum inn eftir. Allir vildu snerta jökul! Amar lét auðvitað ekki nægja að snerta, hann varð að fá að stíga á jökul, fór yfir lækjarsprænu og sjáandinn hans með þar sem hún var orðin betri. Hún beið þó fyrir neðan meðan Amar fór upp. Ég var búin að vara fólk við að jökull breyti sér fljótt og aldrei sé eins umhorfs þegar ég kem þarna þó aðeins líði vika eða mánuður milli heimsókna að jöklinum. Þarna komst Amar að því að ég hafði ekki ýkt neitt - áin hafði breytt sér a þessum 20 mínútum sem við stöldruðum við

2 og nú var erfitt fyrir Amar að finna hvar best var að komast til baka án þess að blotna í fætur. Það gekk reyndar ekki, skór og sokkar fylltust af vatni og aur, en mikið var hann glaður að hafa komist þetta - með hjálp bílstjórans okkar.

Yfirleitt er erfitt að kveðja góða hópa. Allir voru ánægðir og glaðir með ferðina og nú á ég enn eina góða minningu um skemmtilegan hóp og bíð spennt eftir næsta hópi af blindum, sem koma í september á þessu ári. 

 

 

Reynisfjara, hluti af hópnum með brennivín og hákarl. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Ja hérna. Þvílík harka í fólki. Einhvern veginn ímyndar maður sér að maður vildi heldur nota tímann í eitthvað annað en að ''skoða'' náttúrufegurð verandi ekki með sjón. Ég dáist að þessu fólki. Vekur mann líka til umhugsunar, ekki satt?!

Jóna Á. Gísladóttir, 19.8.2008 kl. 13:42

2 Smámynd: Einar Indriðason

Skemmtileg frásögn, og gaman að sjá að náttúran snertir svona við fólki, sjáandi eða ekki.  Gaman að þessu, og þú ert að skila lífsgleðinni þeirra ágætlega í gegn :-)

Einar Indriðason, 19.8.2008 kl. 15:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Guðbjörg Bragadóttir

Höfundur

Guðbjörg Bragadóttir
Guðbjörg Bragadóttir

Leiðsögumaður

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 20130921 114851
  • ...19ipqmm
  • ...24sppkn
  • ...15zgqui
  • ...13joqio

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband