helgarferð

1742860-Sunset-on-the-same-day-0

Eina helgina var ég beðin um að fara með hóp af túristum í hinar ýmsu ferðir. Þessi hópur var mjög áhugaverður - einn frá Máritíus eyju í Indlandshafi, ein frá lítilli eyju rétt þar hjá, þrjú frá Kýpur, tvö frá Líbanon, ein frá Oman, ein frá Dubai, ein frá Englandi (hópstjórinn) og ein frá Filipseyjum. Hvataferð Avon fyrirtækisins, Ráðstefnur og Fundir sáu um skipulagningu, sem var frábær, Matti kann sitt fag. Að kvöldi fimmtudagsins átti ég að ganga með hópnum frá Hótel Borg og yfir á Fiskmarkaðinn í Aðalstræti. Þau eru nú ekki mikið að flýta sér, tók um 20 mín. að safna hópnum saman í anddyri hótelsins og í hvert sinn sem einhver kom niður þurfti annar aðeins að hlaupa upp á herbergi aftur. Loks tókst þetta, ég gekk með þeim yfir í Aðalstræti og skildi við þau þar, sagðist koma og sækja þau kl. 9:45 daginn eftir til að fara í Bláa Lónið.

Nú er kominn föstudagur, lítil rúta frá Hópbílum  á að þjónusta okkur svo ég fór með rútunni niður í bæ. Enn er bið eftir fólkinu, en það er bara hluti af starfinu. Ég spurði hvernig maturinn á Fiskmarkaðnum hefði verið og fékk þau svör að allt hefði verið fullkomið, þjónustan, maturinn - bara allt! Æ! Fyrsta kvöldið fullkomið! Það verður erfitt að toppa þetta fyrir aðra staði. Loks komumst við af stað og klukkan orðin langt gengin í 11. Þau áttu pantað nudd milli kl. 11 og 12. Okkur tókst að komast í Lónið og nuddið - allir afslappaðir. Bláa Lónið gerir alltaf jafn mikla lukku, tala nú ekki um ef fólk fer í nudd og svo blár kokteil á eftir. Á leið í kokteilinn fékk ég skilaboð frá nokkrum um að fá óáfengan kokteil. Ah, því reddað og svo skálað. Nú var að koma liðinu upp úr (erfitt!) og í matinn, sem beið á veitingastaðnum. Það er ekki auðvelt að ná fólki upp úr yndislegu bláu vatninu. Svo settumst við til borðs, en þá vantar Filipseyinginn. Ég fór af stað að leita í búningsklefanum, en hún fannst ekki. Aftur af stað að leita og loks fann ég hana þar sem hún sat í veitingasalnum út við lón, átti eftir að klæða sig! Tókst loks, maturinn góður, en í stað þess að fara aftur í bæinn kl. 2 vorum við komin í bæinn kl. 4! Bílstjórinn átti að mæta út á völl kl. 4 í transfer, en fluginu seinkaði þannig að allt gekk upp. Aftur þurfti ég að ganga með þeim á veitingastað, nú Lækjarbrekku. Ljósmyndari var mættur á svæðið til að taka hópmynd fyrir framan veitingastaðinn. Myndin alveg frábærleg, var mér sagt seinna. 

Þá kemur laugardagur og í dag eigum við að fara á hestbak hjá Íshestum, sem gekk vel þó Premye frá Dubai gæti ekki komist á bak. Hún hafði meitt sig á hné fyrir nokkru og það háir henni gífurlega. Við áttum þá bara skemmtilegar samræður meðan við biðum eftir hestafólkinu. Afskaplega skemmtileg kona - er frá Indlandi en hefur búið í Dubai í 30 ár. Filipseyingurinn! Hesturinn hennar tók sig til og hljóp út úr hópnum! Þó ekkert alvarlegt. Frá Íshestum fórum við í Fjöruna í hádegismat. Ég hvatti fólkið til að skoða staðinn, alla uppstoppuðu fuglana, útskurðinn - skemmtilegur staður. Þrír karlmennirnir í hópnum fóru um allt, þeir komu að vísu svolítið skrítnir á svip niður aftur, en enginn hugsaði um það. Maturinn góður og allir mjög ánægðir, mikið hlegið og spurt um alla golfvellina, álfana, huldufólkið og tröllin. Huldufólk og tröll vekja meiri áhuga heldur en staðreyndir - fyrir utan hversu marga golfvelli við höfum og svo auðvitað hvað allt er dýrt hérna. Nú héldum við í Laugar Spa. Gott að bílstjórinn vissi hvar átti að fara, ég hafði aldrei komið þarna áður. Alltaf eitthvað nýtt að læra. Það tók um 15-20 mínútur að koma hópnum (12 í allt) inn í Laugarnar af því það þurfti að augnskanna allan hópinn. Ekki tókst að skanna tvö svo mín augu urðu að notast fyrir þau líka. Mjög áhugaverður staður, en allir sammála um að Bláa Lónið bæri af. Þetta kvöld komust þau sjálf á Kaffi Reykjavík, sem heitir víst ekki Kaffi Reykjavík lengur - en maturinn var ágætur, sögðu þau mér. Ísbarinn lokaður, eina ástæðan fyrir því að staðurinn hafði verið valinn.

Nú er kominn sunnudagur og veðrið alveg yndislegt, sól, kalt, snjór . . . hvað er betra en þetta fyrir jöklaferð!! Lagt af stað rúmlega 9 að morgni og klukkan orðin 10 þegar við komum á Þingvöll. Allt á kafi í snjó og túristum - útsýnið ótrúlega gott, glitrandi snjór eins og þúsundir demanta væru stráðir um allt. Íslenskan á 32 orð yfir mismunandi snjó. Áfram yfir heiðina til Laugarvatns og aðeins þurfti að hleypa úr dekkjum ofurbílanna, pumpa svo aftur í á Laugarvatni. Friðsældin yfir þessum litla bæ er einstök. Áfram er haldið, komum við til að skoða Gullfoss, Gullfoss kaffi tafði okkur auðvitað með öllum sínum vörum fyrir túrista, bækur um huldufólkið og tröllin, sem mitt fólk vissi nú allt um. Bílstjórarnir og ég notuðum tækifærið og fengum okkur góðan mat, þeir á Gullfoss kaffi bjóða upp á svo góðan mat. Og nú var haldið aftur af stað yfir fönnina upp á Bláfellsháls. Bergþór sást á göngu upp fjallið og ekki þurfti neitt ímyndunarafl til að sjá hann þarna með stafinn sinn, sem vantar dálítið á - hringinn sjálfan, sem er auðvitað húnninn á kirkjunni í Haukadal. Matur lagður á borð fyrir mitt fólk úti undir beru lofti og svo beint á sleða. Það er ekki hægt að hugsa sér neitt eins huggulegt og þetta: glitrandi snjór og sól svo ekki var einu sinni kalt þarna uppfrá. Allir þreyttir eftir ferðina svo ég varð að passa að segja ekki frá of miklu. Eitt kom þó upp úr dúrnum á leiðinni til baka, hann frá Máritíus eyju sagðist ekki geta farið frá Íslandi nema hann fengið að vita af hverju uppblásnu dúkkurnar hefðu verið á loftinu í Fjörunni! HA . . . ó - var það þess vegna sem þeir voru svona undirleitir þarna daginn áður við matinn eftir að hafa skoðað Fjörukrána! Ég lofaði að athuga þetta - Jóhannes í Fjörukránni svaraði skilmerkilega, grín vina í fertugsafmæli kvöldinu áður. Þeir gáfu þrjár (3!!) uppblásnar dúkkur, sem voru svo skildar eftir þarna á loftinu, gleymdist að fjarlægja áður en við komum. Sem betur fer voru mínír menn búnir að jafna sig á sjokkinu og við gátum öll skemmt okkur yfir þessu seinna um kvöldið. Grin

Þetta kvöld fórum við öll, ég boðin með, á veitingastaðinn Við Tjörnina. Aðeins skyggði á að Filipseyingurinn og Oman búinn höfðu dottið af sleða og fóru á slysadeild í skoðun - hin 3 sem voru með í bílnum fóru með og þau komu svo öll um kl. 21:30 á veitingastaðinn. Um 23 var komið að kveðjustund, ég var búin að eiga skemmtilega daga með hópnum, alltaf erfitt að kveðja góða hópa, en það er víst hluti af starfinu líka!


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Guðbjörg Bragadóttir

Höfundur

Guðbjörg Bragadóttir
Guðbjörg Bragadóttir

Leiðsögumaður

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 20130921 114851
  • ...19ipqmm
  • ...24sppkn
  • ...15zgqui
  • ...13joqio

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband