21.10.2014 | 11:26
Meiri Ástralía 2014
Þann 10. október fórum við svo í ferð um Fraser Island, regnskóg, að Bláa Vatninu og niður á strönd. Að ganga um í tæru vatni í sól og hita er yndislegt. Regnskógurinn heillandi! Dýralífið, plöntulífið. Þarna er kyrkingatréð, sem umvefur annað tré. Það vex utan yfir hýsil sinn og kyrkir, en deyr svo að lokum sjáflt. Dagsferð um þessa eyju er ógleymanleg. Að morgni þurfum við svo að yfirgefa þessa Paradís, en ekki slæmt að fara yfir í aðra Paradís, Noosa. Næstu þrjár nætur.
Á leið til Noosa komum við á stærsta markað sem haldinn er í Drottningarfylkinu (Queensland). Ótrúlegir hlutir til sölu, bæði nýtt og notað. Þá komum við til Noosa, þessa litla smábæjar á bökkum fljótsins. Daginn eftir leigðum við okkur bát, sigldum upp Noosa River með stæl og allir fengu að vera skipstjóri í stutta stund. Um borð í bátnum var grill svo ekki var amalegt að henda út akkeri, grilla í sólinni og fá sér smá rautt í glas með. Dagur sem seint gleymist.
Svo kemur frídagur fyrir hópinn, en þar sem þetta er einstaklega samhentur hópur ákváðum við að fara í göngu inn í þjóðgarðinn í von um að sjá koala í sínu rétta umhverfi. Við sáum koala fyrr í túrnum, en það var í dýragarði. Þarna var tré, sem blæddi úr. Eitthvað hafði skorist inn í börk trésins og rauður vökvi seyddi út - tréð að lækna sig sjálft. Höfrungur synti í rólegheitum rétt við land. Einhver af hópnum hélt áfram til að komast á nektarströndina, en engin nekt sást.
Enn er komið að því að pakka saman, núna til að komast yfir til Brisbane aftur, aðeins fjórir dagar eftir af ferðinni. Í Brisbane var mikið um að vera. G20 fundurinn er í aðsigi, haldinn í borginni í nóvember. Ég er fegin að við verðum ekki á staðnum, öryggiseftirlitið er þegar farið að segja til sín.
Við fórum einn daginn í Lamington þjóðgarðinn, gengum í toppi trjánna á hengibrú, fórum inn í tré sem er holt að innan og svo er það vínsmökkun á búgarði O'Reilley fjölskyldunnar. Fimm tegundir af víni til smökkunar fyrir þrjá dollara (AUD), en ef við kaupum flösku borgarðu ekki fyrir smökkunina. Portvínið var vinsælast. Ekki sáum við breiðnefinn, sem býr í læknum við búgarð O´Reilley.
Kvöldin eru einstaklega falleg. Um fljótið fer bátur sem hægt er að fara með yfir á suðurbakka fljótsins eða upp eftir ánni. Við fórum með bátnum yfir á veitingastaðina þar, skemmtileg sigling í logni og hlýju.
Hop on/hop off var næst á dagskrá okkar. Mest allur dagurinn fór í útsýnisferð um borgina og eftir rútuferðina fórum við í siglingu um fljótið sem rennur í gegnum þessa fallegu borg.
Og svo kom að lokum þessarar yndislegu ferðar. Verst hvað dagarnir hafa liðið hratt, rúmlega tvær vikur hafa flogið hjá á augnabliki. Við flugum með Malaysian Air yfir til Kuala Lumpur, rétt um átta tíma flug. Í Kuala Lumpur var 3-4 tíma bið eftir næsta flugi, sem tók um 14 tíma. Full vél, góð þjónusta, nóg af kvikmyndum að velja úr, en best er að sofa til að reyna að ná líkamsklukkunni í rétt horf. Lentum í London seinni part dags og bið aðeins um 3 tímar - þriggja tíma flug til Íslands á réttum tíma svo við lentum í rigningu rétt fyrir miðnætti þ. 18. október. Frábærri ferð lokið, frábærir ferðafélagar.
Um bloggið
Guðbjörg Bragadóttir
Færsluflokkar
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.