Hringferð með Spánverja

8. júní rann upp, einn hópur að koma um kl. 9 að kvöldi. Ég hafði skilað Hollendingunum af mér um miðnætti kvöldið áður og náði að slaka á áður en næsti hópur kom. Nú eru það Spánverjar! Síðasti hópur Spánverja með mér var fyrir 3 árum og gerði mig ekki sérlega bjartsýna á þennan hóp. Að vísu eru þetta 7 manns og engin veikindi í minni fjölskyldu, sem litaði alla ferðina fyrir þremur árum. Þessi hópur reyndist vera 6 konur og einn karl. Konurnar eru vinkonur, sem ferðast oft saman. Í þetta sinn fékk einn eiginmaðurinn náðarsamlegast að fylgja með, sem var ekki skv. vana. Málið var að þegar hann heyrði að þær ætluðu til Íslands þá bað hann svo fallega um að fá að koma með, hann hafði alltaf langað til Íslands. Svona eftirá að hugsa held ég hann hafi fengið óskina uppfyllta með því skilyrði að sitja aftast í rútunni og steinþegja. Nú er ég að búa til, en engin saga er skemmtileg nema örlítið krydduð. 

faxi.jpg9. júní: Fyrsti dagurinn var svo Gullni Hringurinn. Fyrst þurfti að fara í banka og bakarí. Þau voru sem sagt með hádegismat fyrir alla dagana með sér, þurftu bara að kaupa brauð.

Komum til Þingvalla og þá skýjað, en milt veður. Þau gengu niður að Flosagjá, tóku fallegar myndir. Hringurinn gekk vel og fossarnir tveir (Gullfoss og Faxi) reyndust gífurlegt aðdráttarafl. Þegar í bæinn kom renndi ég við í 66°N búðinni í Skeifunni, flestir vildu fá sér ekta íslenska hlýja flík. thingvellir.jpg

10. júní: Daginn eftir kom ég um kl. 9 að sækja þau og nú voru þær stúlkurnar heldur betur búnar að dressa sig upp í íslenskan fatnað, Zo-on, Cintamani og 66°N. Veðrið algjörlega frábært, heiður himinn og hlýtt – eða næstum því hlýtt fyrir Spánverja. Ég á ermalausum bol, en þau öll í flíspeysum. Fyrsta stopp var í Skallagrímsgarði í Borgarnesi og þaðan yfir að Borg, bara til að fá gott útsýni yfir fjöllin og Borgarnes. Nokkuð oft á leiðinni til Akureyrar var ég beðin um að stoppa bílinn svo þau gætu tekið myndir, allt svo heillandi. Á Blönduósi fengum við okkur hádegismat á tjaldsvæðinu, kyrrð og fallegt. Komum á Akureyri um kl. 17:00, inn á gistiheimilið Gulu Villuna þar sem vel var tekið á móti okkur. Þau nýttu kvöldið vel, fóru á góðan veitingastað og gengu sig upp að hnjám um allan bæ.
borg.jpg
11. júní: Þá er strangur dagur framundan. Á Húsavík gengum við um, rákumst á ‘Phallus Museum’, en það var ekki opnað fyrr en kl. 12:00 svo ekki fórum við inn. Ásbyrgi alltaf sérlega fallegt og rauðhöfðaendur synda í kyrri tjörninni. Dettifoss ægilegur að vanda, en verst var þó að þurfa að keyra Hólssandinn – sá var eitt þvottabretti frá Dettifossi yfir á Hringveg 1! Ég þakka fyrir að bíllinn hristist ekki algerlega í sundur og að missa BARA einn hjólkopp á leiðinni var kraftaverk. Festingar koppsins brotnuðu undan álaginu. Vonandi verður vegurinn orðinn betri næst þegar ég fer þessa leið. Gistum að Eldá á Mývatni. Eftir matinn fórum við í göngu, litum inn í kirkjuna, fallegt kvöld þótt skýjað væri.

matur.jpg12. júní: Kalt í dag, en ekki rigning. Ótrúlega lítið af flugu á Mývatni, en Spánverjarnir fundu það þó út að ég lét þau labba ein ef mikið var um flugu, en fór með þeim þar sem ég vissi að væri lítið um flugu! Maður er svo gegnsær! Skútustaðagígarnir eru auðvitað létt gönguleið og þarf ekki leiðsögumann í það, en Dimmuborgir geta verið erfiðar og ekki rétt að láta ókunnuga ganga eina um án aðgæslu. Svo litum við í Jarðböðin. “Hérna viljum við vera langt fram á kvöld”, en það er ekki hægt – við þurfum að komast til Egilsstaða í dag. Hverasvæðið líka eftir áður en haldið er yfir til Egilsstaða. Gistihús Olgu er okkar næturstaður, mátulegt fyrir 8 manns. Að vísu voru einhverjir tveir menn með gistingu í kjallaranum og þeir sprönguðu um hálf naktir, en það var bara bónus. Ekki amalegt að hafa tvo karla fyrir þessar tvær ógiftu í hópnum, sögðu þau mér. Bara hlátur út úr þessu og svo að finna veitingastað.

endur.jpg

13. júní Rigning! Á leið um Fagradal ílir bíllinn og segir mér að nú geti hugsanlega verið ísing á veginum. Hitastigið fór þó örlítið hækkandi. Fórum inn á Reyðarfjörð og Fáskrúðsfjörð. Þarna vakti athygli götunöfnin, bæði á íslensku og frönsku. Tvær í hópnum eru franskar í aðra ættina, svo þetta þótti skemmtileg uppákoma. Áfram rigning. Á Stöðvarfirði vildu þau skoða safnið hennar Petru. Ég elska að koma þarna við, litadýrðin í garðinum og allir fallegu steinarnir. Ég verð alltaf jafn ánægð þegar mínir túristar vilja stoppa þarna. Í Berufirði er stór kafli ómalbikaður, vegurinn ein drulla og bíllinn orðinn eitt moldarstykki þegar við renndum inn á Djúpavog. Ég bað mitt fólk að fá sér göngutúr um bæinn, þótt rigndi, á meðan ég þreif bílinn að utan og fyllti á tankinn. Áfram rigning og engin fjallasýn á öllum Austfjörðum, ansi svekkjandi fyrir mig að geta ekki sýnt fegurðina hérna. Næsti viðkomustaður er Höfn. Nú var orðið ansi kalt úti. Ég hringdi á Humarhöfnina til að athuga hvort við gætum komið í hádegismat, ókum svo inn í göngin við Almannaskarð í rigningu, en ókum út úr göngunum og þá skein sól!
Humarmáltíðin frábær og við mett og í fínu formi til að halda áfram með jöklasýn svo mikla að ekki var hægt að trufla útsýnið með einhverju blaðri. Hversu margir eru skriðjöklarnir frá Vatnajökli? Aldrei fengið þessa spurningu fyrr!
Komum að Gerði á góðum tíma, farangur settur inn á herbergin og svo fórum við aftur af stað yfir á Jökulsárlón. Við áttum pantaða siglingu um lónið, sem var frábær. Ótrúlegir skúlptúrar út um allt lón, þetta er Gallerí Náttúra segi ég mínum túristum.
Kvöldið að Gerði ótrúlega fallegt, umgjörðin um sveitina er svo ótrúlega falleg. Næstum ólýsanleg.

ger_i.jpg14. júní – SÓL! Fegurðin er þvílík að ekki er hægt annað en að dansa og það gerðu Spánverjarnir mínir. Ókum inn í Skaftafell, en ég varð bara að stoppa annað slagið á leiðinni til að mynda útsýnið, alla jöklana, dýrðina. Þau gengu upp að Svartafossi og voru aðeins 1 klst. fram og til baka. Áfram yfir á Kirkjubæjarklaustur þar sem keypt var brauð. Undarlegt veður, ókum inn í skýjafláka með hellidembu og svo var eins og lína dregin á götunni og sólin skein aftur. Matarstopp í Vík og minjagripastopp líka. Reynisfjara næst með sínum hellum og ‘þæga’ sjó – hann var þægur þennan daginn. Svo Skógarfoss og Seljalandsfoss. Suðurströndinni gerð allt of lítil skil þar sem fólkið vildi komast á Humarhúsið í kvöldmat. Hringferð lokið og aftur sit ég uppi með að kveðja gott fólk en hef þó góðar minningar og myndir.

godafoss.jpg  matur_i_sol.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Guðbjörg Bragadóttir

Höfundur

Guðbjörg Bragadóttir
Guðbjörg Bragadóttir

Leiðsögumaður

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • 20130921 114851
  • ...19ipqmm
  • ...24sppkn
  • ...15zgqui
  • ...13joqio

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband