Ísklifur með blinda Breta.

Ég hef verið lánsöm. Haft var samband við mig og ég beðin um að taka þriðja hópinn af blindum Bretum, svipaða túra og áður. Í þetta sinn eru 8 blindir og 9 sjáandi. Áhugasemin skín úr hverju andliti strax við móttöku á Keflavíkurflugvelli. Lending var ekki fyrr en um 10 að kvöldi svo við vorum komin á hótel um 11.30.

Fyrsti dagurinn var Reykjavíkurtúr og svo beint í Bláa Lónið. Við fórum frá hóteli inn í Laugardal og gengum þar um grasgarðinn. Friðsæld og fuglar á tjörnum. Þar útskýrði ég þvottalaugarnar og hin blindu nutu þess að geta snert grindur, fundið lykt af heitu vatni og snert styttu af þvottakonu. Þá héldum við yfir í garð Ásmundar Sveinssonar, Sæmundur á selnum og Móðir mín í Kví Kví vekja  áhuga og tilfinningu fyrir þjóðsögum landsins. Sæfarið er fallegt og vel staðsett, þá ráðhúsið og banki í miðbænum, örlítið rölt framhjá Alþingishúsinu og svo í Perluna í hádegismat.

Bláa Lónið eftir hádegið, aðeins tvær fóru ekki ofan í - allir hinir 10 árum yngri og kátir eftir afslappandi bað. Ein draugasaga og önnur nútíma draugasaga, sem er alls ekki draugasaga.

Annar dagur og enn rignir í henni Reykjavík. Á Þingvöllum stytti upp og við gengum niður Almannagjá í þurru og logni. Öxará með sína sögu og hrifning hinna blindu yfir kyrrð og niði árinnar. Og nú yfir ömurlegan veg heiðarinnar til Laugarvatns, ekkert stopp fyrr en komið er á Gullfoss í mat. Kjötsúpa á línuna, jökullinn sýnir sig þrátt fyrir dimm ský á lofti! Svo gengið niður að fossi í þurru veðri. Fór að rigna þegar við komum upp frá fossinum, en svo mikill er kraftur og aðdráttarafl fossins að enginn tók eftir bleytu - ja, næstum enginn. Geysissvæðið næst, Strokkur gaus nokkrum sinnum fyrir mitt fólk. Nú þakka ég rigningunni fyrir skjót viðbrögð inn í bíl aftur. Faxi er næstur hjá okkur, hann er svo ótrúlega fallegur og svo sáum við 'hinir sjáandi' laxa stökkva. Er þetta réttur tími ársins fyrir laxastökk? Laxastiginn við fossinn gefur tilefni til spurninga og svo er réttin þarna líka, fólk á leið úr réttum allt í kring, ríðandi, gangandi, keyrandi . . . alls staðar iðandi líf. Skálholt næst, en þá var farið að blása verulega á okkur og helli demba. Ekkert Ker enn! Hveragerði með ísinn og þar stopp aðeins lengur en áætlað var af því allir fengu sér ís - þegar ein beljan byrjar . . . . ísinn er nú góður í Eden. Ég kunni ekki við að skoða hver liti á bakhlutann á Evu og hver á Adam. Hmmmm

Þá er Suðurströndin á dagskrá og ísklifur. Rigning í Reykjavík. Litum við í fjörunni á Eyrarbakka, en rigningin er svo mikil að sumir fóru ekki út. Arkitektinn í hópnum (sjáandi) tók margar myndir af gömlu húsunum, kirkjunni sérstaklega. Seljalandsfoss vekur mikla aðdáun, en þar sem mikið hefur rignt undanfarið þá eru ótal fossar fallandi niður Eyjafjöllin - að vísu 'runnu' flestir upp í þetta sinn vegna veðurs. Komum í Vík í hádegisverð og mitt fólk komst á flug í innkaupum. Þá er ferðinni heitið í Reynisfjöru, en . . . smalamennska í fullum gangi og leiðin niður eftir stífluð af kindum. Plan B - Dyrhólaey. Fáir á ferli og sjórinn í essinu sínu, hamaðist við klettana og sogaðist út aftur með miklum hljóðum og tilþrifum. Hinir blindu nutu þess að hlusta og finna atganginn. Svartur sandurinn vakti áhuga hinna sjáandi. Á sillu við sjóinn sat ungur skarfur og snyrti sig án þess að hirða neitt um forvitna útlendinga sem tóku myndir í gríð og erg. Þá er aðalefni dagsins næst, ganga og klifur á jökul. Allir vel klæddir - nema dóttir akritetksins (sjáandi lika). Ísskór mátaðir og þá var að finna réttan stað fyrir blinda að komast upp á ísinn. Það tókst og við röltum þarna um í rigningu en logni þó. Allir náðu að ganga með mannbrodda á fótunum og ísexina í hendi. Nokkuð erfitt fyrir þá óöruggu sem ekki höfðu verið blindir alla ævi. Það er auðvelt að sjá hverjir hafa nýlega misst sjón og hverjir hafa alla tíð verið blindir - öryggið/óöryggið segir alla söguna. Tvær eldri konur fóru ekki í jöklagöngu, þær höfðu ætlað sér að bíða á veitingastaðnum við jökulinn (?) á meðan við gengum . . . . rútan varð víst að duga í þetta sinn fyrir þær. Colin og Leslie eru hjón, annað hefur verið blint frá fæðingu, hitt sér örlítið en ekki nóg til að ganga óhindrað uppi á jökli. Hjá Skógarfossi var farið til að létta á sér, en of mikil rigning til að skoða.

Daginn eftir var frjáls dagur. Einhverjir fóru norður á Akureyri og Mývatn og fengu sól og frábært veður. Aðrir fóru í hvalaskoðun og sáu bæði hrefnur og háhyrninga. Enn aðrir fóru í aðra jöklaferð, á snjósleða upp á Mýrdalsjökul. Ekki síðri upplifun en jöklagangan, var mér sagt þegar ég kvaddi að morgni þriðjudagsins, eldsnemma að vísu en allt vískíið sem ég fékk að leiðarlokum - 'ekki drekka það allt í einu' sögðu þau mér! GJ travel sá um skipulagninguna, vel gert.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Guðbjörg Bragadóttir

Höfundur

Guðbjörg Bragadóttir
Guðbjörg Bragadóttir

Leiðsögumaður

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • 20130921 114851
  • ...19ipqmm
  • ...24sppkn
  • ...15zgqui
  • ...13joqio

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband