Gullhringurinn

desktop_004.jpg

Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að segja frá Gullhring með túrista. Upplifun túrista af náttúruperlum okkar er ekki alltaf eins. Auðvitað fer þetta eftir veðri. Í desember fór ég sem leiðsögumaður með lítinn hóp. Ég sótti fólkið á Keflavíkurflugvöll snemma að morgni (Ameríkuflug). Þegar svo er, kem ég yfirleitt við í Hveragerði til að fólkið geti fengið sér hressingu. Bakaríið er með uppáhellt kaffi, smurt brauð og auðvitað annað bakkelsi, sem er allt mjög gott. Eftir hressinguna héldum við áfram, allan hringinn í hríðarbyl. Vegirnir voru fremur hálir og sums staðar töluverður snjór. Yfir Lyngdalsheiði ókum við í kafaldsbyl svo ekki sást út úr augum, erfitt að sjá veginn, en okkur til mikils léttis stytti upp þegar við komum á Hakið og við gátum notið útsýnisins. Dökkur skýjabakki var í vestri svo við stoppuðum stutt, áfram veginn í átt að Mosfellsheiðinni. Stuttu eftir afleggjarann að Nesjavöllum voru nokkrir bílar í röð og þá sáum við hvar lítill bílaleigubíll sat fastur í skafli og fyrir aftan hann annar, einnig fastur. Á móti þeim komu Toyota Landcruiser jeppar, upphækkaðir. Þeir stoppuðu okkur og sögðust hafa þurft að snúa við, skaflar væru upp á húdd á þeim og þeir bara heppnir að hafa náð að snúa við. Þá var ekki annað að gera en snúa við yfir í Grímsnesið og þá leiðina til Reykjavíkur. Við náðum að komast alla leið, þoka á Hellisheiði en vegurinn vel fær. Tafði okkur um klukkutíma.

Næsta skipti sem ég fór Gullhring var í janúar. Grenjandi rigning svo ekki sást nein fjallasýn. Fólkið spurði hvort engin fjöll væru á Íslandi! Rigningin var svo gríðarleg að mitt fólk nennti ekki einu sinni að stoppa hjá Strokki nema rétt til að sjá eitt gos. Á Gullfossi var ísingin á stígum þvílík að aðeins ein kona treysti sér út til að taka mynd og sýndi hinum í bílnum – svona lítur Gullfoss út, sagði hún.

Febrúar kominn alveg skyndilega – jú, tíminn líður svo hratt að mér fannst janúar hverfa eins og vikan hérna í gamla daga þegar ég beið eftir að verða árinu eldri – tala nú ekki um frá 16 og upp í 17, 19 og upp í 20. Febrúar kominn og aftur er Gullhringur í aðsigi. Nú með Kínverja, sem stoppa aðeins sunnudag, mánudag, þriðjudag. Þau komu með flugi kl. 01:40 aðfararnótt sunnudagsins, gæti ég komið og sótt þau á flugvöllinn og tekið norðurljósaskoðun á leið á hótel? Jú, það get ég. Það lítur vel út með norðurljósin fyrir kvöldið/nóttina og einna helst sýndist mér að yrði heiðskírt í vestri. Vélin lenti á réttum tíma og mínir fjórir farþegar bara með eina tösku saman. Þetta voru eldri hjón með syni sínum og tengdadóttur. Sonurinn var með góða myndavél, kona hans lét lítið fyrir sér fara og foreldrarnir töluðu ekki stakt orð í ensku. Við vorum fljót að komast út í bíl, sonurinn í framsætinu og ég ók að brúnni milli heimsálfa á Reykjanesinu. Um leið og ég steig út sá ég norðurljósin! Ótrúleg heppni, fannst mér. Sonurinn þurfti að ná þrífætinum úr bílnum til að geta tekið mynd af þessum grænu ljósum í loftinu, mér var kalt og settist inn í bíl. Stuttu síðar settust þau öll inn í bílinn, norðurljósin hurfu um leið og ég settist inn í bílinn. Nei, ég var ekki með fjarstýringu á norðurljósin – bara ef það væri nú hægt. Við ókum yfir í Grindavík og áfram veginn til Reykjavíkur. Ég ætlaði ekki að gefast alveg upp og stoppaði aftur og jú, þarna voru norðurljósin í norðaustri, dauf en til staðar. Út með þrífótinn, en þá fóru norðurljósin yfir himininn og voru allt í einu í vestri í staðinn fyrir norðaustri. Þrífótur í rétta stöðu og nú tókst að ná góðri mynd. Frábært, nú er hægt að aka þeim á hótel – á Laugaveginn í Reykjavík. Ó . . .

Allt gekk þokkalega vel þar til ég kom á Laugaveginn. Drukkið fólk út um allt, ælandi fólk á gangstéttum, fólk á götunni sjálfri svo varla var hægt að aka áfram. Glerbrot um allt! Ég skammaðist mín hræðilega fyrir landa mína. Sóðaskapurinn og viðbjóðurinn var þvílíkur! Er þetta virkilega siðmenntuð þjóð, sem býr hér? Ég fékk ekki bílastæði fyrir utan hótelið, ók því inn í hliðargötu og steig út. Varla hafði ég stigið út þegar glas lenti á stéttinni við hliðina á mér og brotnaði þar í spón. Heppni að ég var ekki komin örlítið lengra frá bílnum, þá hefði glasið lent á hausnum á mér. Túristarnir mínir fóru út úr bílnum og þá svífa á þau nokkrar stúlkur og spurði: “What are you doing here?” Augmingja túristarnir mínir skildu ekkert og svöruðu ekki. Inn á hótel kom ég þeim, glöð yfir að þau höfðu pantað hótelið sjálf og ekki spurt mig álits. Ég er alls ekki hrifin af hótelum við Laugaveginn, engin aðstaða til að sækja fólk. En, ég komst klakklaust í burtu aftur, að vísu með því að flauta á nokkrar konur, en þær gáfu mér illt auga og hreyfðu sig ekki fyrr en ég nærri ók á þær. Gott að augnaráð getur ekki drepið, ég hefði þá ekki komist Gullhring á mánudeginum með Kínverjana mína.

Svo rann upp mánudagur, desktop_041.jpgbúið að þrífa göturnar á Laugaveginum og nú fékk ég stæði fyrir utan hótelið. Veðrið lofar góðu. Búið að moka veginn yfir á Þingvöll, en þar sem snjór lá yfir öllu var ég beðin um að stoppa svo hægt væri að taka myndir. Jú, á stæðinu sem er rétt hjá. Þvílík fegurð! Allt hvítt, fjöllin, vatnið. Mikið er gaman að sýna landið sitt þegar fegurðin er slík. Ég er alveg hætt að skilja hvað brandarinn getur komið fólki til að hlæja: “Hvað gerirðu ef þú villist í íslenskum skógi? Stendur upp!” Ég verð alltaf jafn hissa þegar fólk hlær að þessu. Svo segi ég frá Vinaskóginum, jú fólki finnst þetta svo frábær hugmynd og sumir verða klökkir við tilhugsunina. Áfram héldum við og enn er allt hvítt og fallegt. Á Laugavatni finnst fólki það komið í hálfgerðan undraheim, ganga í snjó niður að vatni, sem er heitt og gufan allt í kring – töfraheimur. Margar myndir teknar af fjölskyldunni umvafðri gufu. Á Geysi hélt ég að ég þyrfti ekki að ganga með þeim upp á hverasvæðið, en rölti þó á eftir þeim. Gott ég gerði það, þau héldu að ekki væri lítandi á neitt nema Strokk, sem spýtti úr sér af og til, mörg góð gos. Flottast við Strokk finnst mér vera bláa loftbólan, sem kemur rétt áður en hann gýs. Ég hafði á tilfinningunni að þetta fólk myndi ekki líka við tröllasögur svo ég hélt aftur af mér við frásagnir af tröllum og álfum. Á leiðinni yfir á Gullfoss sagði sonurinn mér að á kortinu, sem ég hafði látið þau fá í byrjun ferðar, hefðu verið skrítnar fígúrur – draugar og risar – eða eitthvað svoleiðis. Ég útskýrði af hverju Gunnuhver héti því nafni – hafði sagt þeim frá þeim hver fyrstu nóttina, en ekki af hverju hverinn héti þessu nafni. Svo nú báðu þau um tröllasögur. Hver er þá betri en sagan um hann Bergþór í Bláfelli? Bláfellið blasti við okkur, hvítt, tignarlegt! Mikið er gaman að sýna landið á fallegum degi! Af hverju eru sum fjöllin svona blá þótt snjór sé á þeim? Jú, þau voru blá, bleik þar sem sólin skein og hvít næst okkur. Og svo kom að spurningunni minni: “Hvort er áhrifameira, Gullfoss eða Geysir?” Bæði. Nei, sagði ég, það má ekki segja bæði. Þau gátu ekki gert upp á milli þessara náttúruperla. Þá var Faxi næstur og þar var laxastiginn til umræðu. Getur laxinn virkilega hoppað upp þennan foss? Og hvernig fór laxinn að því að finna stigann til að nýta sér? Í lok ferðar sagði sonurinn mér að hann hefði ekki getað ímyndað sér að Ísland hefði upp á svona fallega náttúru að bjóða.

Daginn eftir vildu þau fara í Jökulsárlón. Fjórtán tíma ferð, en það stóð ekki í vegi fyrir þeim. En það er önnur saga, ekki Gullhringssaga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Guðbjörg Bragadóttir

Höfundur

Guðbjörg Bragadóttir
Guðbjörg Bragadóttir

Leiðsögumaður

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • 20130921 114851
  • ...19ipqmm
  • ...24sppkn
  • ...15zgqui
  • ...13joqio

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband