Færsluflokkur: Ferðalög

Bretar, sem reyndust vera Bandaríkjamenn . . .

Mér var boðið í sextugsafmæli föstudagskvöldið 18. des. Frábært. Svo kom beiðni um að fara nokkra túra, Gullna, Suðurströnd, sækja og skila á flugvöll. Hm, alveg að koma jól, en þetta er svo sem alveg í lagi, sameina sextugsafmælið með transferi frá flugvelli á hótel þar sem afmælið var hvort eð er í Garðinum. Stutt á flugvöllinn þaðan og flugvélin átti að lenda kl. 23:35. Afmælið hans mágs míns var afskaplega skemmtilegt, svo vægt sé til orða tekið. Mjallhvítar-leikurinn var góður og vakti mikinn hlátur. Ég fór inn á Textavarpið og þar stóð að áætluð lending vélarinnar frá London Heathrow væri kl. 00:10 - smá seinkun. Aftur inn á textavarp og nú var áætluð lending kl. 01:30. Aumingja gestgjafarnir (systir mín og mágur) þurftu að sitja uppi með mig og minn mann þar til tími var til að fara á flugvöllinn. Áttum reyndar góða stund, spjall og bara gaman þótt við værum orðin dálítið þreytt. Loks lenti vélin og við vorum komin á völlinn. Mitt fólk var fljótt að komast út úr tollinum þar sem þau voru aðeins með handfarangur, enda stoppuðu þau aðeins fram á mánudag (þ. 21.12.). Kom í ljós að þau voru frá Bandaríkjunum, búa og vinna í London þar til í mars 2010 og nú eru þau að ferðast eins mikið og mögulegt er um Evrópu þar til þau flytja aftur til USA. Ungt fólk og strax góður andi milli okkar. Við ókum þeim á hótel Barón, þá var að koma sér heim, ná sér niður áður en farið var í rúmið um kl. 03:00. Gott að geta sofið alveg út þennan morgun - alveg til kl. 8:30. Sumir eru bara morgunmenn og geta ekki breytt því alveg sama hvað þreyta segir eða hvað er í húfi.

Daginn eftir - 19. des. Æi, mig langar svo á fyrirlestur í Þjóðminjasafninu, en það er enginn tími til þess. Sonardóttir mín er að spila í jólaþorpinu og mig langar líka að hlusta á hana spila, fara svo og kaupa síðustu jólagjafirnar, fara út með hundinn, fara í jólaboð með tengdafólkinu um kvöldið. Þar gat ég ekki alveg slakað á þar sem túristarnir mínir vildu endilega sjá Norðurljósin, ef mögulegt væri. Spáin reyndar gaf ekki góðar vonir um Norðurljós þetta kvöld, en ég vildi samt vera viss. Sendi svo sms til að láta vita að engin Norðurljós sæjust og þá var hægt að halda áfram að vera í jólaboðinu. Daginn eftir, sunnudaginn 20. des., var áætlað að fara Suðurströndina, fara inn að Sólheimajökli líka. Þá var bara að koma sér heim úr jólaboðinu um miðnætti - stundum er gott að vera morgunmaður þótt farið sé seint í rúmið!

20. des. og veðrið er gott í höfuðborginni, reyndar svo fallegt! Sóttum túristana á hótel og út úr bænum austur á Bakka (Eyrarbakka). Hérna átti ég margar skemmtilegar stundir sem barn hjá ömmu minni.  Amma, sem þorði ekki að gráta þegar afi minn dó af því hún hélt hún gæti þá ekki hætt að gráta. Hún átti þó sína huggun, var ófrísk að mömmu minni og átti þessa 5 fallegu stráka. Nýlega fékk ég í hendur nokkur bréf, sem afi minn hafði skrifað ömmu á árunum 1916 til 1926. 

ASólarupprásfskaplega falleg bréf, sem sýndu vel hversu mikið hann hugsaði til þeirra meðan hann var á vertíð í Eyjum. En þetta er víst allt önnur saga. Eyrarbakki hefur að vísu ekki mikið breyst síðan þá nema að sjóvarnargarðurinn er orðinn breiðari og höfnin er ólík því sem var. Eyrarbakki á sér töluvert langa sögu, sem gaman er að segja frá.

Áfram austur yfir Þjórsá, Hvolsvöll og smá stopp að Hlíðarenda. Þar er alltaf gott að stoppa, kaffi og með'í. Áfram í austur og við blasir Seljalandsfoss. Ég hef ekki sé fossinn svona fyrr: auð jörð allt í kring og allt hvítt bara í kringum fossinn sjálfan. Úðinn og frostið hafa leikið sér mikið undanfarna daga og skapað ótrúlega fallega veröld. Svo var sólin að koma upp og kastaði rauðgullnum blæ yfir og allt í kring. Svona fegurð er ekki hægt að sleppa - stopp til að mynda!

13joqio.jpgTveir fóru svo nálægt fossinum að þeir komu eins og klakabrynjur til baka, fóru úr buxunum til að þurrka þegar inn í rútuna kom. Greyin, þeim var aðeins kalt. Áfram inn að Sólheimajökli, vindurinn farinn að gnauða ansi hátt á leiðinni og topplúgan á rútunni fauk upp tvisvar, en mínir menn á undirbuxunum náðu að koma lúgunni niður aftur. Svo gengum við öll inn að jökli, þessir tveir 'klakabrynjar' þurftu endilega að fara lengra upp á jökultunguna en aðrir og annar þeirra fór ofan í gamlan svelg, komst ekki upp úr af sjálfsdáðum. Ekkert rok þar, áin eins og lítil lækjarspræna, jökullinn blár og fegurð íssins ótrúleg. Auðvitað gleymdi ég myndavélinni, ótrúleg gleymska, ófyrirgefanleg. 15zgqui.jpgKlakabrynju nr. 1 var komið upp úr svelgnum og nú var rokið orðið %#mikið  (of ljót orð hér) svo við fórum inn að Skógasafni, héldum þar væri opið til að fá sér hádegismat, en svo var ekki. Stoppuðum við Skógafoss og eins og við Seljalandsfoss var hér allt ísi lagt bara í kringum fossinn. Samspil íss og frosts getur orðið verulega gott. Þá er að halda til baka undir Eyjafjöllin. Hér finnst mér vanta skilti sem segir til um vindhraða! Ég hef lent í sviptivindum/fallvindum bæði hér og nálægt Pétursey, bæði sem bílstjóri og leiðsögumaður, en aldrei lent í þvílíkum vindhraða - fór upp í 34.2 metra á sekúndu fékk ég að vita hjá veðurstofunni daginn eftir. Ekki skrítið þótt topplúga rútunnar fyki út í veður og vind og svo út á sjó! 19ipqmm.jpg

Ansi kalt í bílnum yfir á Hvolsvöll þar sem við fengum góða aðstoð frá rekstraraðila. Hann var kominn upp á rútu með plastrúllu, plastaði yfir opið lúgugatið og komst svo ekki niður aftur. Klakabrynjurnar mínar fóru út og hjálpuðu honum niður aftur. Svo var bara tíðindalaust yfir á Urriðafoss nema hvað við tókum eftir að allir hestar fældust þegar við keyrðum framhjá, lætin í plastinu voru þvílík. Urriðafoss skartaði vetrarfegurð sinni, frosinn að hálfu leyti. Áfram veginn og þegar við fórum fram hjá Hveragerði fauk plastið af topplúgunni svo það tók að kólna í bílnum. Við klæddum okkur öll í þær flíkur sem til voru og lifðum af til Reykjavíkur.

24sppkn.jpg

Og þá er það 21. desember, styðsti dagur ársins og ég búin að lofa að fara Gullhring með fólkið. Topplúgan farin á haf út og þá er bara að bjarga sér á annan hátt. Ekkert kom upp á í þessari ferð, Gullfoss alltaf fallegur og nú eins og alltaf spurði ég hvort væri tilkomumeira svæði, Gullfoss eða Geysir. Fékk ekki svar, en hestarnir, sem við stoppuðum hjá vöktu þvílíka ánægju - að mér læddist sá grunur að hestarnir hefðu vakið meiri athygli en allt landslag í kring. Ekkert undarlegt við það, allt stóðið hljóp til túristanna þar sem þeir stóðu við girðinguna og tóku myndir í gríð og erg. Laugarvatn var baðað sólskini, vatnið frosið að hluta. Svo komum við til Þingvalla þar sem sólin var að renna til viðar, allt of kalt til að ganga upp á Hakið og við höfðum hvort eð er ekki mikinn tíma, þau þurftu að komast út á flugvöll fyrir kl. 15:00 þar sem flugið var kl. 17:00. Bandaríkjamenn, sem búa í London - gaman að hitta ykkur og vonandi tókst mér að vekja áhuga á Íslandi á annan hátt en bankahrunið hefur gert.

 


Fatlað sundfólk

blesi.jpg

Mér hlotnaðist sá heiður að vera leiðsögumaður með fatlað sundfólk frá Úkraínu og Frakklandi sl. sunnudag.  Frá Ukraínu voru 22 manns, en frá Frakklandi voru 9. Fjórir í hópnum voru í hjólastólum, allt konur og ein þeirra hafði hlotið sín örkuml í sprengiárás IRA í London. Fötlun fólksins var af ýmsum toga, einn vantaði hálfa hendi, á annan vantaði vöðva í fæti, ein hafði hálfa handleggi og fingur þar út frá. Nokkur voru blind og ein blind ýtti hjólastól, en sú í hjólastólnum stýrði svo samvinnan var frábær. Liðsstjórar voru með báðum liðum og sú sem var liðsstjóri fyrir Úkraínu liðið túlkaði fyrir sitt fólk. Frakkarnir töldu sig allir skilja ensku það vel að ég gæti leiðsagt án þess að neitt þeirra túlkaði.

thingv.jpgÁ Þingvöllum er venjan að ganga niður Almannagjá. Ég var ekki viss um að hjólastólarnir kæmust klakklaust niður, en hópurinn var ekki í neinum vafa – auðvitað förum við öll, hjólastólar komast (næstum) allt með góðum vilja og smá aðstoð. Á leið yfir heiðina frá Þingvöllum til Laugarvatns er eitt fagurt tröll, eða reyndar bara hausinn. Á heiðinni var veghefill að laga veginn gamla, sem hefur verið ansi slæmur í a.m.k. 6 mánuði. Við bílstjórinn spurðum okkur hvort einhver kóngur væri nú væntanlegur austur . . .

Liðsstjóri Úkraínumannanna spurði mig hvort ég tryði á álfa og tröll. Er ekki yfirlæti af mannverum að halda að við séum ein hérna í þessum heimi? Að ekkert sé hulið sjónum okkar? Ef við göngum um landið eins og við séum þau einu, sem hér búum og að við þurfum ekki að taka tillit til eins eða neins – hvernig förum við þá með náttúruna? Ef við látum sem hólar, klettar og fjöll hafi íbúa þá þurfum við að umgangast náttúruna af virðingu. Seinna í ferðinni sagði liðsstjórinn við mig: ‘þið eigið ótrúlega mikið af náttúru’. Úkraína er tæplega sex sinnum stærra en Ísland og þar búa um eða yfir 50 milljónir. Flestir tala rússnesku, sagði liðsstjórinn mér.

Þennan dag var svo fagurt til fjalla þótt kalt væri. Útsýn í allar áttir og Langjökull blasti við okkur, hvítur og hreinn á að líta. Gott að hafa svona veður, kalt og stillt. Það þýðir að allir fara eftir tímasetningum leiðsögumannsins. Og enn er það Gullfoss sem þykir áhrifameiri en Geysir. Við litum aðeins inn að Faxa. Ég var búin að lofa sjálfri mér að skrifa niður orðið fax á öllum tungumálum, sem ég kemst í tæri við. Mig vantar enn nokkuð mörg orð yfir fax. faxi_927483.jpg

Á leið frá Hveragerði til Reykjavíkur var allt liðið hálfsofandi. Var ég svona hræðilega leiðinleg? Ah, þau höfðu víst verið í lokahófi kvöldið áður til kl. 2 um nóttina.

Frakkarnir spurðu á miðri leið hvenær við kæmum í sundið. Sund? Já, þetta bláa. Þetta er ekki Bláa Lóns-túr. Æ, þau misskildu auglýsinguna, héldu þau væru að fara í Bláa Lónið. Vonandi komust þau í Bláa Lónið um eftirmiðdaginn. Við vorum komin það snemma í bæinn aftur að það var möguleiki að fara líka í þetta bláa vatn. Góður dagur með gott fólk.


Mexikanar

Þá er komið að því að þjónusta Mexikana. Ég hef einu sinni áður fengið fólk frá Mexikó í gegnum ferðaskrifstofu þar, sem ég hef verið í sambandi við. Þetta voru hjón, ríkt fólk sem þoldi ekki rigningu og fóru sama dag og þau komu til landsins þótt þau þyrftu að borga svítuna á Sögu í tvær nætur. Hef ekki heyrt frá þeim aftur!

Nú er eitthvað annað, fjórar konur og einn karl sem eru í skemmtireisu um norðanverðan hnöttinn. Þau eru búin að skoða suðurskautið og nú koma þau í gegnum Frankfurt til Íslands. Þau sótt á flugvöllinn í Keflavík og ekið með þau yfir á Reykjavíkurflugvöll þar sem þau tóku vélina yfir til Akureyrar. Auðun leigubílstjóri þar tók á móti þeim og daginn eftir fóru þau með honum til Mývatns. Þau voru algjörlega heilluð af norðurlandinu. Flugu svo daginn þar á eftir suður til Reykjavíkur aftur og ég tók á móti þeim, ók þeim á hótel í Reykjavík. Þau vildu skoða Reykjavík í ró og næði, ekkert Bláa Lón þótt til boða stæði. Gott mál, það var hvort eð er skítkalt í lóninu þann daginn og allt yfirfullt af fólki.

Daginn eftir sótti ég þau á hótel og við fórum Gullhring. Á Þingvöllum var hreinlega hellt yfir okkur úr fötu og við komum eins og hundar af sundi inn í bílinn aftur. Ég held að hundurinn minn sé yfirleitt ekki blautari en þetta þegar hann er búinn að synda í Hvaleyrarvatninu. En . . . þau voru samt til í að ganga og vera úti, spurðu mikið og við áttum skemmtilega göngu saman niður Almannagjá. Yfir á Laugarvatn, en þar rigndi enn svo við héldum áfram yfir á Gullfoss. Kjötsúpan fyrst og svo skoðuðum  við fossinn sjálfan og nú hætti að rigna. Jökullinn sýndi sig smá stund svo hægt var að dáðst að dýrðinni. Svo Geysir og Strokkur þeyttist í loft upp nokkrum sinnum, Geysir sjálfur lét ekki á sér kræla. Ég er svo sem búin að sjá hann gjósa einu sinni í sumar og reyndar einu sinni í vetur líka svo ég er ánægð. Þá er það Faxi minn fallegi og Skálholt. Iðavellir í Hveragerði var með rólegra móti. Aftur til Reykjavíkur og þetta frábæra fólk átti svo flug eldsnemma daginn eftir. Þá var ferðinni heitið til Noregs, Svalbarða og svo norðurpóllinn með National Geographic hópi. Þau sögðust eiga fatnaðinn í svona ferð, ekki undra þótt þau kvörtuðu ekki undan kulda í Gullhring. 


Hringferð með fjóra!

desktop_003_893821.jpgJá, bara fjóra – tvo Þjóðverja og tvo Ítali. Sunnudagurinn 26. Júlí Landmannalaugar kl. 9. Vélin frá Mílanó lenti 07:12 og þau hjónaleysin komu út einmitt þegar ég kom inn í flugstöð til að taka á móti þeim. Smástopp í Raufarhólshelli, Stöng í Þjórsárdal og að Gjánni. Einhver túristinn minn sagði mér að Gjáin væri eins og Paradís, vin í eyðimörkinni. Þarna hafði rithöfundurinn Margit Sandemo smá fjölskyldupartí fyrir mörgum árum, hafði eldað súpu á hlóðum í stórum potti, klæddi sig þó fyrst upp á eins og tröllskessa og svo þegar fólkið hennar kom niður í Gjánna þá stökk hún út úr einum skútanum, skessuleg og sæt með tilbúna súpu fyrir liðið. desktop_001.jpg
Ákvað að kíkja við í Ljóta Polli sem er langt frá því að vera ljótur. En . . . nú var ég að hugsa um að hætta við! Stærðar skarð í veginum. Ég setti í fjórhjólið og hugsaði að svona smá hnökri gæti nú ekki staðið í vegi fyrir mér, sá hvar ég gæti fikrað mig yfir og upp komumst við. Túristunum leist ekki of vel á en vildu samt ég reyndi. Ljóti Pollur var litríkur en rokið þarna uppi þvílíkt að allir voru fljótir að koma sér aftur inn í bílinn Rigning í Landmannalaugum og enginn nennti einu sinni að ganga yfir að lauginni. Dómadalur til baka. Einhver bílstjóri hafði sagt mér að Landmannaleiðin væri öll orðin brúuð og greið leið – en það var fyrir 2 eða 3 vikum og margt breytist víst á þeim tíma. Nokkuð um þvottadesktop_025.jpgbretti – hvað tröllin hljóta að geta notfært sér þessi þvottabretti á íslensku vegunum – það hlýtur allt að vera afskaplega hreint hjá tröllum vorum. Og lækirnir, þeir voru að leika ár. Komumst klakklaust alla leið til Reykjavíkur og ég komin heim um 6:30 þetta kvöldið, nokkuð gott.
Gullhringur á mánudegi. Ég fékk eiginmanninn til að keyra í þetta sinn, var bara leiðsögumaður sjálf, sem er ágætt.  Hífandi rok við Gullfoss og Geysi, en við Faxa bara logn. Crinaria og Mänhe á þeirra tungum. Einhver var að spá miklum jarðskjálfta í kvöld um eða fyrir miðnætti. Mikið var gott að enginn skjálfti kom.
desktop_107.jpg28. júlí. Snæfellsnesið er framundan í dag. Svo yfir að Búðum þar sem ég sagði auðvitað frá ýmsu, þar á meðal þessum 18 brúðkaupsgestum sem ég hafði verið með fyrir nokkrum árum. Fegurðin þarna þann daginn var töluvert meiri en í dag, smá snjór hafði verið yfir öllu, Nóvembersólin lágt yfir og kastaði þessum fagurbleika, óraunverulega blæ yfir allt. Í dag er bara rigning og rok. Gengum upp í Rauðfeldargjá, sælusvipur á einhverjum – þetta er fallegt (já, en veðrið??? – skiptir ekki máli). Ég dró upp mína brúsa með heitu vatni til að koma hita í liðið og þá var allt gott aftur, hægt að ganga á Arnarstapa, Djúpalónssandi og Helgafellið gengið í réttum gír, gott að ekkert þeirra átti tengdamömmu – þá er minni hætta á að hugsa illt. Stykkishólmur er svefnstaður okkar.
Ég svaf eins og steinn og um morguninn var komin blíða, logn en skýjað. Ég byrjaði á að taka olíu á bílinn og svo yfir á heimagistingu Ölmu til að ná í þau hin. Þar var fuglasöngurinn yndislegur, sléttur sjór við túnjaðarinn hjá þeim, sjávarilmurinn einstakur. Þetta er nú út af fyrir sig forréttindi að búa á svona stað! Skógarströndin, svo sem ekki vondur vegur, en drullan á bílnum hrikaleg. Svo Laxárdalinn, ég kveið fyrir heiðinni þar upp af en mér til mikillar gleði var vegurinn yfir Laxárdalsheiðina mjúkur, bara nokkuð góður og ekki drullugur. Stopp í N1 Staðarskála, svo yfir að Reykjum á hákarlasafnið – gott safn. Blönduós, ógeðslega vondur matur eða ég kannski ekki svöng.
desktop_112.jpgOg þá erum við komin yfir Öxnadalinn á leið inn á Akureyri og klukkan rétt að nálgast fjögur. Inn á Gulu villuna og nú þarf ég að kaupa mér skó. Maðurinn minn gleymdi að setja skóna mína í bílinn áður en ég fór! Er ekki gott að geta kennt einhverjum  öðrum um gleymsku???
2 nætur á Akureyri. Ætlunin er að fara í Jólahúsið, en Ítalirnir vilja fara í hvalaskoðun. Við þeystum yfir til Hauganess, en þar sögðu þeir okkur að ekki hefði sést neinn hvalur í morgun og veðrið væri þannig að ekki myndi sjást neitt, hvorki fugl, fiskur né hvalur. Aftur til Akureyrar, Jólahúsið skoðað en ekki mikið keypt – þeim fannst flest of dýrt. Svo yfir á Flugsafnið – tvö í hópnum með flugdellu svo þetta var ágætis ferð. Þá er að fylla bílinn fyrir daginn á morgun.
desktop_139.jpgFrá Akureyri í leiðinda veðri, súld, rok, 6°C. Og svo rigning . . . Goðafoss, túristunum líst afskaplega vel á þennan foss, ekki hægt annað þótt rigni. Við komum á Húsavík og ekki neitt útsýni, því miður. Ég reyni að segja þeim að hér  sé afskaplega fallegt. Phallus safnið opnar ekki fyrr en kl. 12:00 og það er dálítið of seint fyrir okkur, alveg eins og fyrir mánuði með Spánverjana. Hvalasafnið var opið og þau litu þar inn. Ég skoðaði kirkjuna í fyrsta skipti á ævinni. Aftur lagt í´ann yfir í Ásbyrgi, envið stoppuðum á leiðinni fyrir útsýnið, þ.e. lundinn vaggaði sér á sjónum fyrir neðan bjargið. Ásbyrgi alltaf heillandi, það var jafnvel erfitt að koma þeim í burtu, rigndi ekki og var næstum logn líka. Sandra E hafði dottið á fuglabjarginu og meitt sig í hné, en fór nú samt í göngu með okkur. Þá er það vegurinn yfir að Dettifossi (austan megin) – ekki góður, ekki eins góður og  Börkur leiðsögumaður sagði mér, en ég hitti hann á Goðafossi.
Mývatn! Komin hingað eftir bara sæmilegan Hólssand, ótrúlega mikill munur frá því fyrir mánuði. Hér fáum við góða þjónustu, snyrtileg gisting í Guesthouse Skútustaðir, skoðuðum gígana fyrir mat og svo matur á hótel Seli. Hlaðborð þar sem Valentina bragðaði á öllum íslensku réttunum okkur hinum til mikillar skemmtunar. Ég lét hana ekki vita af sviðasultunni fyrr en hún var búin að kyngja, þá sagði ég hvaðan parturinn af lambinu væri. Maturinn kom næstum upp úr henni aftur.
desktop_164.jpgÞað er svo margt að skoða á Mývatni, Höfði, Dimmuborgir, Grjótagjá þar sem einhverjir Þjóðverjar voru að baða sig naktir í 40°C vatninu – ótrúlegt lið. Jarðböðin, mmm, yndisleg. Stoppuðum þar í tvo tíma. Svo Hveraröndin og Leirhnúkasvæðið áður en við héldum yfir á Egilsstaði. Regnboginn á leiðinni náði alla leið, sterkir litir og fallegur. Café Nielsen um kvöldið og allir mjög ánægðir með matinn þar.

 

Egilsstaðir odesktop_184.jpgg nágrenni. Ansi þungbúið í dag. áfram hringinn í kringumm Löginn. Komum fyrst að Hengifossi og Litlanesfossi. Þau gengu öll af stað, en Þjóðverjarnir tveir gáfust upp áður en komið var að Litlanesfossi. Ítalirnir gengu áfram, þau gengu eins langt og þokan náði, sem var rétt áður en komið var að Hengifossi sjálfum. Hundblaut að bíl aftur. Þá inn að Skriðuklaustri, Valþjófsstað og síðan í Atlavík. Fékk hana Grýlu fyrir gott verð í Héranum í Hallormsstað, Shani vinkona mín í NZ verður Grýlu fegin. Útnyrðingsstaðir, þeir eru með hestaleigu (kr. 3500). Við þangað. Ég rambaði á staðinn eins og ég hefði aldrei gert neitt annað en að keyra þangað. Var samt ekki vel merkt. Engir gallar til á liði og ég hálf  smeyk við að bíllinn muni lykta eftir hestaferð í eigin fötum. Hm! Ekki góð auglýsing fyrir leiguna.
Austfirðir, rigning, lágskýjað þar til við komum á Djúpavog. Þá komið ágætt veður, en ekki var samkomulag um að fara í siglingu, enda tekur sigling um 4 tíma. Á Höfn fengum við okkur humarveislu allir nema Sandra E, sem hryllir sig við tilhugsun um fisk, skelfisk eða annað sjávarmeti. Ítalirnir vilja prófa allt! Sandra N ekki mjög áræðin í mat. Svo ekið í vestur meðfram fallegum jöklunum. Heillandi svæði. Komum í Gerði, sem er gisting við Hala í Suðursveitinni, hentum inn töskunum og svo beint í siglingu á Jökulsárlóni. Gott að við gerðum þetta í dag í góðu veðri, veðrið daginn eftir ekki gott. Eftir matinn á Þórbergssetrinu fór ég áfram yfir veginn til að skoða steininn, sem skorinn hefur verið í þrennt til minningar um bræðurna á Hala, Þórberg og tvo bræður hans.  Á steininum stendur eitthvað á þessa leið: Ætli þúsund ár hjá steini sé ekki eins og þúsund mínútur hjá manni – þarf að skoða þetta nánar þegar ég kem hér í september.
Yfir Mýrdalssand var ekki huggulegt að aka í þetta sinn, hífandi rok og enginn sagði orð í bílnum, ekki að það væri eitthvað nýtt. Rokhviðurnar tóku vel í bílinn og eftirá sögðu þau mér að þau hefðu alveg eins búist við að bíllinn þeyttist út af veginum. Ókum alla leið í Ásgarð við Hvolsvöll, hreinlega paradís með ‚Hans og Grétu‘ húsum. Við vorum öll í góðu skapi yfir að vera í svona huggulegu umhverfi, trén og allur gróðurinn í kringum litlu sætu húsin!
desktop_708.jpgOg þá er síðasti dagurinn okkar í hringferð. Ókum til baka alla leið í Reynisfjöru og enn er hífandi rok í Mýrdalnum. Um leið og við komum fram hjá Skógafossi byrjaði rokið og rigningin. Við fórum þó niður í fjöru í Reynishverfi og það var svo sem ekki alveg eins rosalegt rok og uppi við fjallsræturnar. Lundinn var í essinu sínu í hlíðinni fyrir ofan Hálsnefshellana og allir túristarnir í fjörunni stóðu bara og horfðu á lundann. Og þá er að aka beint til Reykjavíkur þegar fossarnir eru búnir – Seljalandsfoss, Gljúfrabúi og Skógafoss. Satt að segja fékk Gljúfrabúi meiri athygli en aðrir fossar, sem ansi oft er staðreyndin. Og til Reykjavíkur komum við um kl. 15:00.


Soroptimistar = bestu systur

Í vor var ég beðin um að vera leiðsögumaður með hóp af Soroptimistum, félagsskapur kvenna í hinum ýmsu atvinnustéttum. Þær hafa stutt góð málefni, m.a. Krýsuvíkursamtökin. Í staðinn fyrir að selja servíettur og kerti eða klósettpappír og berjatínur þá hafa systurnar í íslenska Soroptimistaklúbbnum sett saman ferð um Ísland, auglýst á vef samtaka hinna Alþjóðlegu Soroptimista og ágóðinn farið í góð málefni. Að þessu sinni komu 26 manns frá ýmsum löndum Evrópu: 2 frá Danmörku, 7 frá Póllandi, 9 frá Þýskalandi, 3 frá Sviss, 4 frá Portúgal, 1 frá Ástralíu. Meirihluti hópsins konur, eins og venja er á ferðalögum. Ótrúlegt hvað konur eru fúsar til ferðalaga.

dsc03085.jpgFyrsti dagur okkar saman var á Snæfellsnesið. Oftast á ferðum mínum reyni ég að koma við í Skallagrímsgarði, en í dag var tíminn of naumur og einungis hægt að stoppa á Borg í stutta stund. Síðan ekið áfram Vatnaleiðina og vegna þess að veðrið var svo einstaklega fallegt þá stoppuðum við á leið niður norðan megin. Útsýnið frábært yfir Berserkjahraunið og Breiðafjörðinn. Við nutum þess að borða nesti þarna við veginn innan um sexstrenda dranga, sem hefur verið breytt í borð og stóla. Þá fórum við yfir í Stykkishólm, litum á sýningu Roni Horn, sem er sérkennileg í meira lagi. Við áttum pantaða siglingu kl. 13:30 frá Stykkishólmi um Breiðafjörðinn. Veðrið var einstaklega fallegt, logn en skýjað að mestu þegar við komum út á fjörðinn. Maturinn um borð í skipinu alveg frábær, fyrst nýveiddur skelfiskur beint úr sjónum og svo hlaðborð niðri. Fjölmiðlar eru búnir að fjasa svo mikið um heljarinnar umferð inn og út úr Reykjavík svo við vorum orðin stressuð á að umferðin í bæinn um kvöldið yrði hryllileg. Það var varla hægt að tala um umferð til Reykjavíkur!

Þá kom mánudagur og nú var farinn rúntur um Reykjavík og því næst í Læknaminjasafnið á Seltjarnarnesi. Ein af systrunum íslensku er lyfjafræðingur, hún og aðrar systur í klúbbnum undirbjuggu komu útlendinganna í safnið, móttaka með hádegisverði og svo ferð um safnið sjálft. Þá var ekið í miðbæinn þar sem hjörðinni var sleppt lausri til kl. að verða 4, þau áttu móttöku eftir 4 í Byggðasafninu í Hafnarfirði. Þar sem hópurinn gisti í Flensborgarskóla þá var ég laus seinni partinn, var boðin í hóf til að kveðja vinnufélaga kl. 4.

dsc03075_875667.jpgOg nú er það toppurinn á ferðinni: Landmannalaugar og Þórsmörk! Veðrið lofar góðu, nærri því of hlýtt – þetta getur ekki verið Ísland, segja ferðalangarnir okkar. Getur verð að við höfum lent í öðru landi? Hitinn yfir 20 stig! Fyrsta stopp á Eyrarbakka, ekið þar um meðal gamalla húsa og svo á Selfoss þar sem fólki gefst kostur á að kaupa sér vatn áður en haldið er inn í land. Reyndar bauð ein systirin heim í bústaðinn sinn rétt við Þrastaskóg. Þar eru trén svo há að ekki komst einu sinni lítil gola til að kæla okkur. Loks haldið af stað, en leiðsögumaður ekki nógu vakandi og við komin fram hjá afleggjaranum inn í Þjórsárdal. Bílstjórinn taldi sig nú aldeilis þekkja leiðina, hafði farið í Landmannalaugar nokkrum sinnum á ári sl. 50 ár, en aldrei komið í Gjána og fór því ekki Þjórsárdalinn. Þetta kostaði smá útúrdúr, en við komumst þó að Hjálparfossi og inn í Gjánna, sem skartaði sínu fegursta í sól og sumaryl. Sagan um Margit Sandemo að leika tröll í Gjánni vekur kátínu. Þarna bjóða hinar íslensku bestu systur upp á brennivíndsc03083.jpg og harðfisk innan um hvönn og birki – gæti ekki íslenskara verið! Kaffi og kökur bíða svo á brún Gjárinnar. Og enn höldum við af stað, nú sem leið liggur í Landmannalaugar. Ljóti Pollur verður víst ekki viðkomustaður í dag þar sem við erum orðin dálítið sein, klukkan að verða 7 að kvöldi. Skálinn tilbúinn fyrir okkar fólk, á meðan matur er undirbúinn fer hluti af hópnum í gönguferð upp á fjall og aðrir í laugina heitu. Lítill fugl sat í makindum í marglitum vatnagróðri. dsc03095.jpgDagur að kveldi kominn . . .

Fjallabaksleið nyrðri – síðast þegar ég fór þá leið var útsýnið um 50 cm fram fyrir bílinn, nú var útsýn til allra fjalla í allar áttir og við bara urðum að stoppa af og til fyrir myndatökur. Þetta er hreint ótrúlegt landslag með öllum sínum litum og snjó. Á einum stað var enn örlítil snjóbrú. Ekkert gerði til þótt vegurinn væri slæmur, bætti bara á ímyndina um fjallaferð. dsc03090.jpgBílstjórinn fann þó afskaplega til með bílnum. Við ókum inn í Eldgjá, en þar sem löng leið var framundan gátum við ekki rölt um. Áfram ekið í Hólaskjól þar sem tæknistopp fór fram, þurftum að borga fyrir þá tækni en auðvitað þarf að halda við slíkri tækni á fjöllum og við því meira en viljug að borga. Og loks komum við í siðmenninguna í Vík. Fengum okkur smá nesti þar úti við og þá farið í minjagripina. Það er svo mikið keypt af minjagripum í ár að þau hjá Víkurprjóni hafa ekki undan að fylla á. Nú er tíminn enn að hlaupa frá okkur, en ekki er hægt að keyra fram hjá Reynisfjöru án þess að stoppa. Það gerum við, en aðeins í um 20 mínútur, sem urðu að sjálfsögðu að 30 mínútum. Þó var örlítil rigning og ekki sást yfir í Dyrhólaey. Ekkert stopp hjá Skógarfossi, Seljalandsfoss verður að bíða til morguns. Færðin inn í Bása var með verra móti, allir smá lækir töldust til áa þennan daginn. Steinholtsáin var eins og fljót yfir að líta og nú þurfti að vanda sig. Einn reyndur fjallamaður, íslenskur, kallaður til fram í rútu til að meta aðstæður og hvar væri best að fara yfir. Bílstjórinn ekki alveg sáttur við það, en það leit svo miklu skemmtilegar út að kalla til þriðja mann til að meta ánna og þegar yfir kom klöppuðu allir í rútunni fyrir góðum akstri.

Í Þórsmörk var sól. Meðan hinar íslensku systur undirbjuggu grillið fóru flestir aðrir í gönguferðir um svæðið. Grillið var æðislegt, smá rauðvín með og eftir matinn var skemmtun. Hver þjóð átti að sýna dans eða söng eða segja sögu, hvað sem þeim datt í hug. Sú ástralska og nýja vinkona hennar frá Sviss settu saman kvæði um ferðina og upplifun sína af landinu.

Þá er kominn fimmtudagur og nú er ferðinni heitið á Gullfoss-Geysi. Stutt stopp við Faxa og þar höfðum við getraun um nafn fossins. Nú er að sjá hvort ég man nafnið á hinum ýmsu tungumálum;
Nesti á Gullfossi og fleiri minjagripir keyptir. Á Geysi ætluðum við aðeins að stoppa 30 mínútur, en það var engan veginn nógu langt stopp. Svo yfir heiðina til Þingvalla þar sem við gengum upp Almannagjá. Ein af Portúgölunum var yfir sig ánægð þegar hún áttaði sig á að Þingvellir væru á WHO lista dsc03109.jpgSameinuðu Þjóðanna – hún og sonur hennar reyna að komast á WHO staði í öllum löndum, sem þau heimsækja. Dagur að kvöldi kominn, fagurt til fjalla og allt það, en allar góðar ferðir enda of fljótt. Komum til Hafnarfjarðar kl. 19:30, þreyttur og ánægður hópur. Daginn eftir var frí hjá ferðalöngunum, en ég þurfti að taka á móti hópi af Norðmönnum seinni part dagsins – það er víst önnur saga.

Laugardagur og nú er Bláa Lónið fyrst á dagskrá. Við ætluðum að fara Reykjanesið fyrst, en þar stóð yfir Rally og því varð Lónið að koma á undan – sem var bara frábært með bláum kokteil fyrir hádegi. Tvær af Portúgölunum vildu ekki fara í lónið af því það rigndi. Ojæja, hafiði það eins og þið viljið. Þá var búið að opna Krýsuvíkurleiðina, skólinn heimsóttur þar sem Soroptimistasysturnar íslensku hafa stutt skólann með framlögum og nú var það skólinn sem tók á móti með bragðgóðri sjávarréttasúpu og heimabökuðu brauði. Enn rignir, en við látum okkur hafa það að kíkja út úr bílnum við Seltún. Hverasvæðið er svo blautt að enginn stoppaði lengi og svo áfram í átt að Hafnarfirði. Þegar við komum út úr fjallgarðinum hafði ekki rignt dropa, sólin skein og bílstjórinn gat þrifið drulluna af spelgum og hliðarrúðu áður en komið var í umferð. Við trönurnar urðum við að stoppa aðeins, allt fullt af fiskhausum, sem hljóma eins og bestu vind-pípur eða bjöllur. Við höfum ekki gott orð yfir þetta á íslensku, einhverjar tillögur?

Og þá er að kveðja! Einu sinni enn . . . . ég fer nú að verða góð í að kveðja skemmtilegt fólk, en þar sem margir gáfu mér tölvupóstföng sín og aðrir báðu um mitt þá vonast ég til að ég hitti einhverja af þeim einhvers staðar aftur.

Heimferð frá Singapore/Ástralíu

Það stóðst að við vorum sótt á hótelið í Singapore, en bílstjórinn hafði afskaplega gaman af að láta bílinn lötra um götur borgarinnar, kom 15 mín. of seint til okkar og átti þá eftir nokkur önnur hótel. Loks komst hann á aðalveginn, en enn lötraði hann í rólegheitum, meira að segja vespur borgarinnar þutu framhjá á góðum hraða og hurfu. Allir í bílnum nokkuð trekktir yfir hægagangi þar sem flugið var kl. 9 og við rétt komumst inn á völl rúmlega 8. Gekk vel að tékka sig inn og svo bara fara beint í hlið þar sem enginn tími vannst til að kaupa eða skoða. Flugið á réttum tíma og tók bara 12 tíma og 25 mín. að komast til London. Afskaplega þægilegt flug þar sem vélin var hálf tóm og við gátum lagt okkur í sætin í kring. Eftir góða máltíð pöntuðum við Singapore sling, sérdrykk þeirra í ljónaborginni, skáluðum og flugfreyjurnar tóku þátt í þessu með myndatöku og svo var sussað á okkur þegar hláturinn varð of hávær. Þá fórum við bara aftur að sofa - 5 tímar eftir enn.

skal

Lent í London án vandkvæða, 3ja tíma bið áður en bókað var inn í Flugleiðavélina, önnur bið og aftur var flugið okkar á réttum tíma. Þægileg ferð heim og lending rétt eftir miðnætti.

Í morgun vaknaði ég í rúminu mínu! Þurfti aðeins að hugsa mig um í hvaða borg ég væri núna, en mundi svo að þetta er Ísland og sólin að koma upp. Vonandi verður önnur ferð til Oz að ári, en það kemur víst bara í ljós - október 2009.

http://www.kgbtours.is 


singapore - meira

Borgarferð um þessa hreinu borg. Við sáum ýmislegt annað en hreina borg, en varla nema von þar sem hátíð ljóssins var í gær og þegar næstum allir borgarbúar (nærri 5 milljónir) koma saman er varla hægt að búast við að allt sé hreint. Ekið um og stoppað hér og þar. Margir áhugaverðir staðir, þetta er borg ljónsins og hafmeyjarinnar. Grasagarðurinn alveg einstakur og eftirlíking af einstökum garði í London! Við keyptum þessa ferð á góðu verði, innifalið málsverður í hádeginu - gleymdist að láta okkur vita að við þyrftum að koma okkur sjálf á matsölustaðinn í borg sem við þekkjum ekki neitt. Okkur tókst að finna staðinn, kort Huldu bjargaði með góðri aðstoð allra í hópnum. Að ganga um borg í 33ja stiga hita og 95% raka er einstakt afrek án þess að steikja heilann að fullu. Heima man ég eftir að hafa oft heyrt sem krakki: 'lokiði hurðinni, ætliði að kynda allan Kópavoginn?' Get ímyndað mér að hér í Singapore segi fólk við börnin sín: 'lokiði hurðinni, ætliði að kæla alla Singapore?' Svo var boðið í partý kl. 5:30 í íbúð 809 (Ævar og Ingibjörg), en tímann þar til partýið byrjaði varð að nýta. Leitað vel og lengi að 'mollinu' og í þeirri leit var sakleysisleg  grasflöt vaðin í orðsins fyllstu. Grasflötin reyndist mýri svo eftir gönguna var farið beint inn á salerni, vaskurinn notaður til að þvo skó og fætur áður en hægt var að ganga um og finna eitthvað skemmtilegt - skál!  Segjum ekki meir um það.

Partýið varð hið skemmtilegasta - Ingibjörg orti ljóð um alla ferðina, ljóð sem tók nokkrar mínútur í flutningi og allir urðu að rappa með, tilheyrandi hljóð  og handahreyfingar hafðar með. Enginn treysti sér út úr hótelinu þetta kvöldið þar sem við höfðum öll farið í sturtu og enginn vildi skemma lyktina af nýböðuðum kroppum með því að setja hendi eða fót út fyrir hússins dyr. Það hefði bara kallað á aðra baðferð. Heimferð snemma í fyrramálið, þurfum að vera tilbúin 6:20 fyrir flug. Áætluð lending er á miðnætti heima, en þar sem allir eru sannfærðir um að flugi verði breytt á einhvern hátt - miðað við okkar reynslu og allt það - þá munum við áreiðanlega lenda í Amsterdam - eða hvað? Kemur í ljós! 


Singapore

Vaknað snemma, morgunmatur kl. 6 að morgni - hverjum dettur í hug að Íslendingar vakni það snemma til að fara í morgunmat???

Allan  á réttum tíma að sækja okkur á hótel og kom okkur út á flugvöll þrátt fyrir verulega umferð. Fluginu hafði verið flýtt um 45 mín. Þurftum að fara hratt í gegnum fríhöfnina til að ná á réttum tíma. Bara 7 tíma flug yfir til Singapore - reyndar náði það sjö og hálfum tíma í allt. Rigning í Singpore þegar við lentum, en þvílík litadýrð! Borgin bókstaflega blómstrar öll, alls staðar útsprungin blóm. Komum á hótel um kl. 4:30 að degi til, Singpore er 2 tímum á eftir Brisbane, 8 tímum á undan Íslandi. Fín þjónusta við að koma okkur á hótel. Kvöldmatur á hótelinu, hlaðborð og allt mjög gott. Nokkrir með flugþreytu, en vonandi verður það komið í lag á morgun þegar við förum í útsýnisferð um borgina.

 


25. okt Ástralía

Þá er að segja bless við Noosa, þessi afskaplega skemmtilegi litli bær við ströndina. Bílstjórinn hringdi, eitthvað hafði farið úrskeiðis þannig að hann komst ekki á réttum tíma að sækja okkur, bað okkur að taka leigubíl yfir á Eumundi markaðinn og hann myndi sækja okkur þangað. Ekkert mál, við ætluðum hvort eð er að fara á markaðinn. Þetta er þekktasti markaður í Queensland, ráfuðum um og eitthvað var nú keypt . . . svo kom Allan og sótti okkur. Hótelið hafði týnt lyklinum að herberginu með farangri okkar, þurfti að fá inn lyklasmið áður en bílstjórinn náði töskunum okkar út. Þetta gaf okkur örlítið lengri tíma á bar í eldgömlu hóteli, bygging í gömlum Queensland stíl.

Hótelið okkar í Brisbane tilbúið með lyklana okkar og svo farið  í búðaráp. Allir fremur þreyttir og snemma í háttinn.

Brisbane

26. vaknað snemma. Nú á að nota vel síðasta daginn í borginni. Strætó og borgarkötturinn í dag - það þýðir að við fórum í borgarferð, fyrst með langferðabíl og svo með borgarkettinum, sem er strætó á ánni. City-cat siglir milli staða eins og strætó í Reykjavík, hægt að fara af þegar hentar og taka næsta kött til á annan stað. South Bank er fallegt svæði þar sem fólk kemur með matinn sinn, grillar, fer í sund og nýtur sólar og fjölskyldulífs utan dyra. Við sáum nokkrar fjölskyldur halda upp á afmæli, bæði barna sinna og foreldra. Þá haldið í hof byggt í tilefni af Expo ´88, búddahof. Þar næst fórum vð af bátnum í New Farm Park til að skoða tréð sem gengur. Fyrir ári hafði tréð gengið að hálfu yfir bekk í garðinum, nú var sá bekkur horfinn með öllu í rætur trésins. Þarna er hægt að týna sér í rótum trjáa.

Kötturinn tekinn til baka yfir í miðbæinn og síðasta kvöldið í Brisbane haldið hátíðlegt. Út að borða og eins og einhver sagði: 'þetta var besta máltíðin í allri ferðinni' - sú setning hefur hljómað á hverju kvöldi.


Noosa Ástralía

Þá erum við komin til Noosa sem er strandbær í háklassa. Hótelið heitir Sheraton og er við aðalgötuna. Lítið gert annað en að sleikja sól og liggja í sandi. Rölt inn í þjóðgarð en koala földu sig vel. Ítalskur veitingastaður valinn fyrir kvöldið.

Noosa

Heyrumst svo á morgun.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Guðbjörg Bragadóttir

Höfundur

Guðbjörg Bragadóttir
Guðbjörg Bragadóttir

Leiðsögumaður

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • 20130921 114851
  • ...19ipqmm
  • ...24sppkn
  • ...15zgqui
  • ...13joqio

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband