Allra þjóða kv....

Skemmtiferð í snjó og brjáluðu veðri? Jú, það getur verið skemmtilegt. Að minnsta kosti þegar ferðinni er lokið og allt fór vel - að mestu. Þetta var svona venjuleg helgarferð með fólk frá alþjóðlegu fyrirtæki, fólk frá hinum ýmsu löndum, fólk sem hafði selt best á árinu og fékk ferðina sem eins konar bónus. Hópurinn sóttur á föstudegi og ekið beint í Bláa Lónið þar sem kokteill með tilheyrandi beið allra. Ekki veitir af að minna fólk á að skilja ekki eigur sínar eftir í hvíta sloppnum sem það fær - 150 hvítir sloppar og einhver minnist þess að hafa gleymt myndavélinni í hvíta sloppnum. Vonlaust að finna út úr því.

Þá kemur laugardagurinn og nú á að fara á snjósleða. Spáin nokkuð góð, sól en talsverður vindur. Á að lægja seinni partinn, segir spáin. Við af stað snemma að morgni, brunað austur með einu 'tæknistoppi' og svo upp á Bláfellsháls. Fólkinu hjálpað að galla sig upp, áfram keyrt yfir skaflana alla leið upp að Skálpa. Þá farið að blása nokkuð vel, en vegslóðinn sést þó þokkalega. Mitt fólk skemmti sér konunglega á sleðunum og alltaf bætti í vindinn. Þegar þau loks koma til baka er farið að blása svo hressilega að skafrenningurinn fyllir hvert spor og stingur í augu svo varla var hægt að halda þeim opnum. Við lögðum af stað niður aftur, en á leiðinni mættum við nokkrum ofurjeppum svo ekki var hægt að fara hratt yfir. Nú var farið að blása það vel að þótt ofurjeppi væri á undan okkur þá skóf jafnóðum í hjólför hans og ég og bílstjórinn sáum ekki neinn slóða framundan. Ég hafði augun á gulu stikunum til hliðar við veginn, bílstjórinn með hausinn út um gluggann og þannig náðum við niður á Bláfellsháls og allir ánægðir með að komast út úr hvítum sortanum. Þar beið brennivín, allir afklæddust (þ.e.a.s. göllunum) og nú haldið aftur í siðmennnguna á Gullfosscafé þar sem okkar beið hádegismatur, að vísu síðbúinn hádegismatur þar sem fegurðin á leiðinni var þvílík að við vorum beðin um að stoppa tvisvar svo hægt væri að taka myndir af sólinni og hvítri breiðunni svo langt sem augað eygði. Þvílík fegurð. Að gleyma myndavélinni er ófyrirgefanlegt -

Maturinn á Gullfosscafé góður eins og venjulega og nú ekið yfir að Geysi. Á hverasvæðinu var flughált. Nokkra sá ég steypast á afturendann og það sem verra var: hausinn líka. Ein úr mínum hópi lá kylliflöt með hnéð undir sér og gat ekki staðið upp í nokkurn tíma. Ég vona að hún hafi ekki verið illa slösuð eftir byltuna.

Þá fórum við yfir til Þingvalla. Upp frá Laugarvatni þurftum við að bíða í um hálftíma meðan bíll var dreginn upp. Sá hafði skautað út af veginum, en þó réttu megin þannig að hann fór ekki rúllandi niður hlíð heldur upp í kant. Enginn alvarlega slasaður þar, sem betur fór. Vegurinn yfir að Þingvöllum var ein glæra, en yfir komumst við. Þar sem kalt var og farið að rökkva þegar við komum til Þngvalla, ákváðum við að fara beint upp á Hakið og hafa yfirsýn yfir svæðið. Einhver tók eftir að upp úr fjalli einu stóð logi. Hvað er þarna? Eldgos?? Ég gerði mér grein fyrir að þarna var tunglið að sýna sig en þó svo lágt á lofti að ekki sást neitt nema bjarminn upp yfir topp fjallsins. Gott að ráðamenn þjóðarinnar geta ekki skattlagt náttúrufegurð af þessu tagi! Seinna um kvöldið náði ég svo að sjá Norðurljósin flökta um himininn . . .


Heimferð frá Singapore/Ástralíu

Það stóðst að við vorum sótt á hótelið í Singapore, en bílstjórinn hafði afskaplega gaman af að láta bílinn lötra um götur borgarinnar, kom 15 mín. of seint til okkar og átti þá eftir nokkur önnur hótel. Loks komst hann á aðalveginn, en enn lötraði hann í rólegheitum, meira að segja vespur borgarinnar þutu framhjá á góðum hraða og hurfu. Allir í bílnum nokkuð trekktir yfir hægagangi þar sem flugið var kl. 9 og við rétt komumst inn á völl rúmlega 8. Gekk vel að tékka sig inn og svo bara fara beint í hlið þar sem enginn tími vannst til að kaupa eða skoða. Flugið á réttum tíma og tók bara 12 tíma og 25 mín. að komast til London. Afskaplega þægilegt flug þar sem vélin var hálf tóm og við gátum lagt okkur í sætin í kring. Eftir góða máltíð pöntuðum við Singapore sling, sérdrykk þeirra í ljónaborginni, skáluðum og flugfreyjurnar tóku þátt í þessu með myndatöku og svo var sussað á okkur þegar hláturinn varð of hávær. Þá fórum við bara aftur að sofa - 5 tímar eftir enn.

skal

Lent í London án vandkvæða, 3ja tíma bið áður en bókað var inn í Flugleiðavélina, önnur bið og aftur var flugið okkar á réttum tíma. Þægileg ferð heim og lending rétt eftir miðnætti.

Í morgun vaknaði ég í rúminu mínu! Þurfti aðeins að hugsa mig um í hvaða borg ég væri núna, en mundi svo að þetta er Ísland og sólin að koma upp. Vonandi verður önnur ferð til Oz að ári, en það kemur víst bara í ljós - október 2009.

http://www.kgbtours.is 


singapore - meira

Borgarferð um þessa hreinu borg. Við sáum ýmislegt annað en hreina borg, en varla nema von þar sem hátíð ljóssins var í gær og þegar næstum allir borgarbúar (nærri 5 milljónir) koma saman er varla hægt að búast við að allt sé hreint. Ekið um og stoppað hér og þar. Margir áhugaverðir staðir, þetta er borg ljónsins og hafmeyjarinnar. Grasagarðurinn alveg einstakur og eftirlíking af einstökum garði í London! Við keyptum þessa ferð á góðu verði, innifalið málsverður í hádeginu - gleymdist að láta okkur vita að við þyrftum að koma okkur sjálf á matsölustaðinn í borg sem við þekkjum ekki neitt. Okkur tókst að finna staðinn, kort Huldu bjargaði með góðri aðstoð allra í hópnum. Að ganga um borg í 33ja stiga hita og 95% raka er einstakt afrek án þess að steikja heilann að fullu. Heima man ég eftir að hafa oft heyrt sem krakki: 'lokiði hurðinni, ætliði að kynda allan Kópavoginn?' Get ímyndað mér að hér í Singapore segi fólk við börnin sín: 'lokiði hurðinni, ætliði að kæla alla Singapore?' Svo var boðið í partý kl. 5:30 í íbúð 809 (Ævar og Ingibjörg), en tímann þar til partýið byrjaði varð að nýta. Leitað vel og lengi að 'mollinu' og í þeirri leit var sakleysisleg  grasflöt vaðin í orðsins fyllstu. Grasflötin reyndist mýri svo eftir gönguna var farið beint inn á salerni, vaskurinn notaður til að þvo skó og fætur áður en hægt var að ganga um og finna eitthvað skemmtilegt - skál!  Segjum ekki meir um það.

Partýið varð hið skemmtilegasta - Ingibjörg orti ljóð um alla ferðina, ljóð sem tók nokkrar mínútur í flutningi og allir urðu að rappa með, tilheyrandi hljóð  og handahreyfingar hafðar með. Enginn treysti sér út úr hótelinu þetta kvöldið þar sem við höfðum öll farið í sturtu og enginn vildi skemma lyktina af nýböðuðum kroppum með því að setja hendi eða fót út fyrir hússins dyr. Það hefði bara kallað á aðra baðferð. Heimferð snemma í fyrramálið, þurfum að vera tilbúin 6:20 fyrir flug. Áætluð lending er á miðnætti heima, en þar sem allir eru sannfærðir um að flugi verði breytt á einhvern hátt - miðað við okkar reynslu og allt það - þá munum við áreiðanlega lenda í Amsterdam - eða hvað? Kemur í ljós! 


Singapore

Vaknað snemma, morgunmatur kl. 6 að morgni - hverjum dettur í hug að Íslendingar vakni það snemma til að fara í morgunmat???

Allan  á réttum tíma að sækja okkur á hótel og kom okkur út á flugvöll þrátt fyrir verulega umferð. Fluginu hafði verið flýtt um 45 mín. Þurftum að fara hratt í gegnum fríhöfnina til að ná á réttum tíma. Bara 7 tíma flug yfir til Singapore - reyndar náði það sjö og hálfum tíma í allt. Rigning í Singpore þegar við lentum, en þvílík litadýrð! Borgin bókstaflega blómstrar öll, alls staðar útsprungin blóm. Komum á hótel um kl. 4:30 að degi til, Singpore er 2 tímum á eftir Brisbane, 8 tímum á undan Íslandi. Fín þjónusta við að koma okkur á hótel. Kvöldmatur á hótelinu, hlaðborð og allt mjög gott. Nokkrir með flugþreytu, en vonandi verður það komið í lag á morgun þegar við förum í útsýnisferð um borgina.

 


25. okt Ástralía

Þá er að segja bless við Noosa, þessi afskaplega skemmtilegi litli bær við ströndina. Bílstjórinn hringdi, eitthvað hafði farið úrskeiðis þannig að hann komst ekki á réttum tíma að sækja okkur, bað okkur að taka leigubíl yfir á Eumundi markaðinn og hann myndi sækja okkur þangað. Ekkert mál, við ætluðum hvort eð er að fara á markaðinn. Þetta er þekktasti markaður í Queensland, ráfuðum um og eitthvað var nú keypt . . . svo kom Allan og sótti okkur. Hótelið hafði týnt lyklinum að herberginu með farangri okkar, þurfti að fá inn lyklasmið áður en bílstjórinn náði töskunum okkar út. Þetta gaf okkur örlítið lengri tíma á bar í eldgömlu hóteli, bygging í gömlum Queensland stíl.

Hótelið okkar í Brisbane tilbúið með lyklana okkar og svo farið  í búðaráp. Allir fremur þreyttir og snemma í háttinn.

Brisbane

26. vaknað snemma. Nú á að nota vel síðasta daginn í borginni. Strætó og borgarkötturinn í dag - það þýðir að við fórum í borgarferð, fyrst með langferðabíl og svo með borgarkettinum, sem er strætó á ánni. City-cat siglir milli staða eins og strætó í Reykjavík, hægt að fara af þegar hentar og taka næsta kött til á annan stað. South Bank er fallegt svæði þar sem fólk kemur með matinn sinn, grillar, fer í sund og nýtur sólar og fjölskyldulífs utan dyra. Við sáum nokkrar fjölskyldur halda upp á afmæli, bæði barna sinna og foreldra. Þá haldið í hof byggt í tilefni af Expo ´88, búddahof. Þar næst fórum vð af bátnum í New Farm Park til að skoða tréð sem gengur. Fyrir ári hafði tréð gengið að hálfu yfir bekk í garðinum, nú var sá bekkur horfinn með öllu í rætur trésins. Þarna er hægt að týna sér í rótum trjáa.

Kötturinn tekinn til baka yfir í miðbæinn og síðasta kvöldið í Brisbane haldið hátíðlegt. Út að borða og eins og einhver sagði: 'þetta var besta máltíðin í allri ferðinni' - sú setning hefur hljómað á hverju kvöldi.


Noosa Ástralía

Þá erum við komin til Noosa sem er strandbær í háklassa. Hótelið heitir Sheraton og er við aðalgötuna. Lítið gert annað en að sleikja sól og liggja í sandi. Rölt inn í þjóðgarð en koala földu sig vel. Ítalskur veitingastaður valinn fyrir kvöldið.

Noosa

Heyrumst svo á morgun.


21-23. okt í Ástralíu

Heron

21. 10.

Eftir morgunmat fóru allir í göngu hringinn í kringum eyna, sem er aðeins um 800 x 300 metrar. För eftir risaskjaldbökur á ströndinni. Þær eru að byrja að finna sér hreiðurstað og okkur var sagt að sú fyrsta hefði verpt núna.

Fimm fóruí sjóstangaveiði, Símon, Karitas, Ævar, Ingibjörg og Kristján og veiddu bara þó nokkuð. Boðið upp á að þetta verði eldað í hádeginu daginn eftir. Aðrir voru bara í leti við sundlaugina, lestur og afslöppun. Enginn vildi viðurkenna að neitt bitastætt væri í búðinni, en svo var einn og einn gripinn við að kaupa þar – buxur, bolur, kex . . . hm, ræðum það ekki frekar.

Allir saman í kvöldmatnum, mikið hlegið og brandarar fuku. Hópurinn hefur náð vel saman og hittist fyrir mat hvert kvöld.

 

22.10.

Þá er að fara í glerbátinn í neðansjávarferð um kóralinn. Litadýrðin er einstök, risaskjaldbökur, hákarlar, hrökkskötur, ‘Nemo’ fiskurinn í torfum. Þarna eru fjöll af kóröllum í öllum litum.

Svo hádegismatur þar sem fiskarnir frá veiðimönnunum ‘okkar’ voru matreiddir sérstaklega. Nema hvað . . kom á óvart hversu vel fiskarnir brögðuðust.

Í eftirmiðdaginn gengum við yfir í Hákarlavíkina. Þar eru litlir rifhákarlar og hárkarlar sem kallast ‘lemon’ hákarlar, risaskjaldbökurnar syndandi rétt við ströndina, skötur í tugatali. Ein var svo vinsamleg að grafa sig niður í sandinn rétt fyrir okkar augum. Hreint ótrúleg sýn og erfitt að slíta sig frá þessu. Einhverjar frúr fóru í nudd, aðrar bara í sturtu á meðan karlar þeirra fór í billjard. Tíminn líður allt of hratt í þessari stærstu paradís, þótt eyjan sé svona lítil.

 rif

23.10.2008

Ganga um í rifinu eftir morgunmat. Fín skómynd tekin áður en gangan hófst. Leiðsögn skemmtileg og svo ótrúlega margt að sjá. Dýralífið er fjölbreytilegt og litríkt. Sjórinn þó dálítið kaldur svona snemma morguns og nú var að bíða eftir ferjunni, sem kom á réttum tíma. Sléttur sjór til baka og þar beið Allan, bílstjórinn okkar. Ekið í átt að Brisbane, en í þetta sinn vildum við bara fá okkur pizzur í matinn, engar krabbasamlokur þótt Birna og Gauja ættu að ganga fyrir með samlokur núna. Fengu ekki síðast. Hulda og Ásgerður sáu um pizzu kaupin og svo keyptu þær nammi fyrir afganginn. Afskaplega löng leið til Noosa og komið myrkur áður en við komumst alla leið. Hér verður dimmt á 15 mínútum. Gott að komast á gott hótel og allir fegnir að fá þægileg herbergi. Við verðum víst bara að skoða bæinn að morgni.


Kvöld í Ástralíu o.fl.

Jæja gott fólk, nú loks erum við komin í netsamband og  samband við umheiminn.

Að kvöldi 19. gistum við á fremur góðu hóteli, Rydges og maturinn var góður. Ekki mikið um að vera í bænum, um 20.000 manns búa þar og flest snýst um túrisma og útflutning. Mjög stór útflutningshöfn í bænum.

Hin fjögur frænku (Símon, Kaja, Ævar og Ingibjörg) fundu gangandi tré, uppvafið og reyndu að herma eftir trénu. Hermikr hermteft.

Hinn 20. okt. – Nú á Gabríel Ingi afmæli í dag, litli dóttursonur minn orðinn 3ja ára – til hamingju með það ‘stóri’ strákur. Við hinum megin á hnettinum í Oz eins og Ástralir kalla stundum landið sitt í gríni, þurftum enn að pakka niður í töskur. Búðir opnuðu 8:30 og einhverjir náðu að komast í fatakaup með meiru. Ég varð að kaupa einn bol, bara af því ég hafði keypt bol hér í fyrra í sömu búð. Árlegur viðburður.

Þá var skutlan tilbúin að fara með hópinn niður að höfn – nú hélduð þið að ég væri að tala um einhvern í hópnum he, he – skutlan þurfti að fara tvær ferðir með 10 manna hóp. Gekk fínt og við innrituð í ferjuna, smá bið og ferjan lagði af stað fyrr en áætlun sagði til um.  Ekki mjög gott í sjóinn, en Íslendingar eru svoddan hraustmenni – allir nema fararstjórinn sem ældi tvisvar. Fæ líka að heyra það frá hinum! Svo sofnaði fararstjórinn í ferjunni  líka – alveg eins og í fyrri ferjunni til Fraser og alltaf myndað. Úff, þetta er bara svo erfiður hópur að fararstjórinn notar hvert tækifæri til að sofna.

Komið út í eyju, Paradís! Fyrst úfinn dökkblár sjór, svo komum við inn í þennan líka græna ljúfa sjó með öllum sínum kóröllum. Skötur syndandi allt í kring, litskrúðugir fiskar og svo litskrúðugt mannlíf svamlandi um sjóinn.

Við fórum öll í göngu með leiðsögumanni á staðnum og fengum alls konar upplýsingar. Í eynni eru núna 70.000 fuglar, sem eru nákvæm andstæða kríunnar okkar. Þetta er kríutegund, svört oa skrokkinn með hvítan haus og lifir í trjánum. Þessi kríusystir kinkar kolli og er því nefnd noddy-tern sem þýðir kinkandi kolli kría. Hún verpir einu eggi og er í hreiðurgerð núna þannig að karlinn er mjög upptekinn að geðjast konunni. Hér eru líka fuglar sem kallaðir eru Egert, hvítir og gráir. Þeir eru komnir með unga og bíða spenntir eftir að krían fái egg í hreiðrið til að geta stolið því, eingöngu til að éta. Þegar sól sest koma af hafi 30.000 fuglar til að sofa hér um nóttina þannig að íbúafjöldi þessar litlu eyjar er mörg hundruð þúsund.

kriusystir


19.10. Ástralía

19.10.

Nú yfirgefum við Paradís, Fraser eyju. Sól, en svo dró fyrir – sennilega  bara af því við erum á förum. Aðeins 30 mín. sigling yfir í Hervey Bay í góðum sjó. Rútan beið eftir okkur, Allan bílstjórinn okkar í dag gefur miklar upplýsingar. Hann vildi að við reyndum krabbasamlokur í Gin Gin, litlum bæ á leiðinni. Getur verið að sá sem gaf bænum nafn hafi stamað? Nei, Gin er nafn yfir frumbyggjakonur og líklega hafa sést hérna tvær konur þegar bænum var gefið nafn. Við of mörg fyrir samlokur þannig að aðeins helmingur hópsins fékk að smakka. Áfram haldið til Glaðheima (Gladstone), allir glaðir þegar þangað var komið. Enginn bjór drukkinn allan daginn svo það var kominn tími á okkur þegar komið var á hótel. Hótelið gott og nú fara allir saman út að borða. Sumir orðnir ruglaðir eftir að horfa á tré, tré, tré eftir þjóðveginum. Guðný  og Birna tala um hversu  mikil eftirsjá er eftir Fraser, þessari ótrúlegu Paradís. Reyndar segja allir í hópnum að þessari Paradís þurfi að gefa meiri tíma.  Guðný komst í góðan ham, varð  barnið í ferðinni og fór í sandkastalabyggingu.


Ástralía 17.10 og 18.10

17.10. Ástralía

Vöknuðum snemma til að fara yfir á Fraser eyju, sem er stærsti sandskafl í heimi. Þetta var um 3ja tíma akstur, stoppuðum þó aðeins til að sjá hinn fræga Ned Kelly sem er eins konar Robin Hood Ástrala, en var ekki eins klár að forða sér frá lögum og reglum því hann var tekinn af lífi aðeins 25 ára gamall.

Bílstjórinn kom okkur á  réttan stað í innritun og þá var bið eftir að ferjan legði af stað í 40 mín. siglingu. Stórkostleg eyja, vaxin alls konar gróðri upp í hæstu toppa og ekki hægt að sjá neina byggð fyrr en komið er í land. Sólin fór að skína þegar við  komum í land. Ævar og Símon sáu um að  við fengjum borð fyrir kvöldið í þetta skínandi sjávarréttahlaðborð. Bráðskemmtilegt kvöld, froskarnir afskaplega háværir. Flestir þó slæptir svo ákveðið að eiga afslappandi dag þ. 18. Ingibjörg og Karitas segjast bara hamingjusamar og hafa ekkert neitt annað að segja.

 

18.10. Ástralía

kanóEkkert verið að flýta sér á fætur. Hér er náttúran einstök og alls staðar lítil sýki og lækir. Litla þorpsbúðin skoðuð og svo farið á kanó úti á sjó. Eftir það setið á einkaströndinni með sundlaug rétt hjá. Í kvöld á að vera óformlegur kvöldverður á  sandbarnum eftir sólarlagið. Sjáumst seinna með myndir af því.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Guðbjörg Bragadóttir

Höfundur

Guðbjörg Bragadóttir
Guðbjörg Bragadóttir

Leiðsögumaður

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • 20130921 114851
  • ...19ipqmm
  • ...24sppkn
  • ...15zgqui
  • ...13joqio

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband